Hoppa yfir valmynd
31. október 2008 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Ræða forsætisráðherra á aðalfundi LÍU 31. október 2008

Ræða á aðalfundi LÍÚ 31. október 2008

Fundarstjóri, ágætu útgerðarmenn.

 

Ég vil byrja á því að þakka fyrir gott boð um að fá að ávarpa þennan fund hér í dag og ég vil í leiðinni þakka Björgólfi Jóhannessyni fráfarandi formanni samtakanna fyrir gott samstarf á undanförnum árum og óska honum alls hins besta í því sem hann er að taka sér fyrir hendur núna. Jafnframt vænti ég þess að eiga, eins og ævinlega hefur verið, gott samstarf við nýjan formann og nýja stjórn LÍÚ.

 

Það hefur ekki farið framhjá neinum að við höfum undanfarnar fjórar vikur gengið í gegnum ástand sem líkja má við efnahagslegar hamfarir. Sú alþjóðlega fjármálakreppa sem nú leikur heiminn grátt kom sérstaklega illa niður á okkur Íslendingum. Yfir það hef ég farið margoft og víða að undanförnu, oftar en einu sinni á Alþingi, en afleiðingarnar af þessu eru ykkur flestum vel kunnar. Stærstu bankarnir okkar fóru í þrot í kjölfar þess að lánalínur, sem þeir höfuð treyst á svo mjög, voru dregnar til baka og hinn kaldi hrammur fjármálakreppunnar í heiminum skall af fullum þunga á okkar fjármálalífi og bönkum eins og raunin hefur verið svo miklu víðar um heim að undanförnum. Ísland er nefnilega ekkert einsdæmi í þessum efnum en aðstæður hér voru einstæðar að því leyti til að þrír bankar voru u.þ.b. 90% af öllu fjármálakerfinu. Því hefur þetta ástand svo hörmulegar afleiðingar fyrir okkar efnahagsmál eins og við erum nú að greina með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og semja áætlun um að vinna okkur út úr. 

 

Það var reyndar þannig að það var alls ekki útséð með það um tíma að allir bankarnir myndu fara sömu leið og það var allt gert sem hægt var til að stærsti bankinn, sem var síðastur í röðinni, og stærsta fyrirtæki landsins reyndar – Kaupþing – kæmist í gegnum þetta en því miður dugði stóra þrautavaralánið sem Kaupþing fékk frá Seðlabankanum á mánudegi, 500 milljónir evra, ekki til að fleyta bankanum í gegnum erfiðleikana sem í kjölfarið komu og efalaust hefur hin fordæmalausa aðgerð breska fjármálaeftirlitsins gert útslagið og veitt bankanum svo þungt högg að útilokað var að lifa það af.

 

Undanfarnar fjórar til fimm vikur hafa íslensk stjórnvöld unnið baki brotnu við að lágmarka tjónið af þessari alþjóðlegu kreppu hér á íslenskt samfélag. Mörgum hefur eflaust fundið að þessi tími hafi verið lengi að líða tel ég að á mörgum vígstöðvum hafi verið unnið þrekvirki við að bjarga íslenskum hagsmunum, bæði til skemmri og lengri tíma. Og hvað ríkisvaldið snertir stendur þar tvennt upp úr: Annars vegar setning neyðarlaganna að kvöldi 6. október og aðgerðirnar í kjölfarið á þeim og hins vegar það samkomulag sem búið er að gera við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og bíður nú afgreiðslu á vettvangi sjóðsins.

 

Með setningu neyðarlaganna var tekin sú róttæka en jafnframt nauðsynlega ákvörðun að slá skjaldborg um innlenda hluta bankanna. Þetta var gert til þess að vernda hagsmuni almennings og innlendra fyrirtækja, tryggja að sparifé landsmanna í bönkunum væri öruggt og að lágmarksbankaþjónusta yrði alltaf fyrir hendi. Það var ekki augljóst um tíma að hægt væri að bjarga þessum hagsmunum öllum samtímis.

 

Þessi ákvörðun var ekki sársaukalaus – mér er það að sjálfsögðu ljóst – en hinn kosturinn hefði verið algert hrun bankanna með tilheyrandi upplausnarástandi í þjóðfélaginu. Hinn kosturinn, að láta skeika að sköpuðu, var auðvitað enginn kostur í stöðunni og það gátu ábyrg stjórnvöld ekki látið gerast.

 

Þrátt fyrir að tekist hafi að lágmarka þann skaða sem varð af hruni bankanna var ljóst frá upphafi að hann yrði gífurlegur. Gjaldeyrir hefur nánast þurrkast upp og greiðslumiðlun til og frá landinu hefur ekki virkað sem skyldi, meðal annars vegna fantalegra aðgerða breskra stjórnvalda en þó hefur margt snúist til betri vegar síðustu daga og vikur hvað þetta varðar. Gríðarlegt gengisfall krónunnar hefur svo þýtt að verðlag hefur hækkað í landinu og miklir erfiðleikar blasa almennt við íslensku atvinnulífi eins og við sjáum af fréttum þessa dagana af miklum uppsögnum í fyrirtækjunum í landinu.

 

Af þessum ástæðum öllum saman var augljóst að skynsamlegasta leiðin var sú fyrir ríkisstjórnina að leita eftir samstarfi og aðstoð við aðila erlendis um að fá erlendan gjaldeyri inn í landið og koma á stöðugleika í hagkerfinu.

 

Þetta var rætt við forystumenn ýmissa landa. Ég talaði sjálfur við fjölda manna. Það gerðu einnig aðrir ráðherrar og Seðlabankinn að sjálfsögðu. Við fengum þau skilaboð strax og tiltölulega skýrt að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samvinna við hann myndi skipta sköpum í þessu sambandi gagnvart öðrum þjóðum sem voru að velta fyrir sér að veita okkur þá aðstoð sem þörf var á og við fundum strax líka á viðbrögðum starfsmanna sjóðsins að það var mikill vilji til að rétta okkur hjálparhönd.  

 

Það verður þá að hafa í huga að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var hugsaður einmitt til þess að koma til liðs við þjóðir sem lentu í greiðslujafnaðarvandræðum. Við höfum átt aðild að þessari stofnun frá 1945 þegar hún var stofnuð og það er engin minnkun að því fyrir okkur frekar en aðra að leita samstarfs og fyrirgreiðslu hjá þessari stofnun. Og til marks um það hve stofnunin tók okkar málaleitan í rauninni vel er að sendinefnd sjóðsins sýndi mjög ríka viðleitni til þess að hraða sinni vinnu og vann sitt verk mjög hratt miðað við það sem gerist í þessum efnum hjá þessari alþjóðlegu stofnun sem hefur sitt eigið skrifræði við að glíma og er þunglamaleg á köflum. Það tók aðeins örfáar vikur að ná saman efnahagsáætlun með sjóðnum en það var forsenda fyrir því að við gætum fengið þar lánafyrirgreiðslu. Venjulega tekur slíkt ferli margra vikur, jafnvel marga mánuði. Nú bíðum við þess að stjórn sjóðsins taki þetta mál fyrir í næstu viku og þá er um það að tefla að okkur verði veitt ríflega tveggja milljarða dollara lán í þremur hlutum sem komi til endurgreiðslu á árunum 2012-2015.

 

Við gerum okkur að sjálfsögðu góðar vonir um stjórn sjóðsins afgreiði þetta lán í næstu viku og höfum fundið á viðbrögðum okkar nágranna og vinaþjóða að samkomulag við sjóðinn eykur allar líkur á við fáum lánafyrirgreiðslu annars staðar í takt við það sem við höfum verið að leita eftir.

 

Kæru gestir.

 

Hækkun stýrivaxta úr 12% í 18% sem kynnt var fyrr í vikunni kom mörgum í opnu skjöldu og skal engan undra. Sú aðgerð var aftur á móti nauðsynlegur liður í samstarfi okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og er hugsuð sem tímabundin ráðstöfun til þess að koma í veg fyrir fjármagnsflótta þegar gengi krónunnar verður sett á flot á nýjan leik.

 

Það er samdóma álit allra sem að þessum málum hafa komið að brýnasta verkefnið núna sé að koma gjaldeyrismarkaðnum á lappirnar á nýjan leik til að þar geti myndast að nýju eðlilegt markaðsgengi á krónunni. Til þess að svo megi verða þarf að sporna gegn því að fjármagn flytji og flýi úr landi og stuðli að því að fjármagn komi þess í stað inn í landið. Þessi vaxtahækkun er hugsuð þannig. Hún er ekki venjuleg vaxtahækkun til þess að sporna við þenslu sem við vitum að engin er í landinu um þessar mundir. Það verður að hugsa þetta á þessum nótum. Og vaxtahækkunin er án efa viðkvæmasta aðgerðin sem farið verður út í í tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ég geri mér auðvitað grein fyrir því að hún kemur illa við marga en þegar hún er sett í samhengi við þann heildarpakka sem um er að ræða þá er hún nauðsynlegt skref til þess að koma hér á stöðugleika á nýjan leik.

 

Við megum ekki heldur gleyma því að ef ekki væri farið út í þessar aðgerðir þá myndi það án efa hafa verri afleiðingar fyrir heimilin og atvinnulífið. Því við erum hér að velja úr kostum þar sem enginn kostur er góður. Við erum að velja þann kost sem illskástur er ef hann getur aukið líkurnar á því að við komumst á réttan kjöl fyrr en síðar.

 

Við þurfum því að taka á okkur tímabundna erfiðleika til þess að komast aftur á fætur og þá er best að takast strax á við vandann en komast að sama skapi fyrr út úr honum.

 

Ágætu fundarmenn.

 

Við Íslendingar komumst til velsældar á síðustu öld fyrir tilstilli sjávarútvegsins og þótt árað hafi illa á stundum er engum vafa undirorpið að þessi atvinnugrein lagði grunninn að okkar velmegun. Þetta viðurkenna allir sanngjarnir menn. Þó að vægi sjávarútvegsins í þjóðarbúskapnum hafi minnkað verulega frá því sem áður var ætti  enginn að vera í vafa um hina gríðarlegu þýðingu hans. Því miður virðist þó að yfirstandandi hremmingar hafi þurft til svo augu allra opnuðust fyrir þessari staðreynd. Þjóðarbúið stólar á sjávarútveginn í þeirri uppbyggingu sem nú blasir við og það er ljóst að vægi greinarinnar eykst verulega að nýju frá því sem var á allra síðustu misserum. Vægi sjávarútvegsins í útflutningstekjum og í heildarframleiðslunni í landinu mun aukast að nýju.

 

Óhætt er að segja að frá því ákveðið var að skerða þorskaflann um þriðjung á síðasta fiskveiðiári hafi íslenskur sjávarútvegur gengið í gegnum meiri sviptingar á skömmum tíma en um langt árabil. Þessi ákvörðun var hvorki sjávarútvegsráðherra né okkur hinum í ríkisstjórn léttbær. Það fór fjarri því. En að yfirlögðu ráði var ákveðið að bregðast með þessum hætti, að tillögu fiskifræðinganna, bregðast við þeim vanda sem við blasir í uppbyggingu þorskstofnsins. Með markvissum og öruggum hætti skyldi stofninn byggður upp í þá stærð sem gæfi hámarksafrakstur. Vitaskuld hefur þetta margs konar vanda í för með sér fyrir þá sem missa spón úr aski sínum og dreg ég enga dul á það.

 

En áhrifin hafa þó ef til vill orðið minni en margur hugði í það minnsta það sem af er. Útflutningstekjur af þorski á síðasta fiskveiði ári voru meiri en árið þar á undan, jafnvel þótt magn útfluttra afurða hafi minnkað um sautján af hundraði. Þá jukust heildartekjurnar af öllum útflutningi sjávarafurða um tæplega 19 milljarða króna á milli síðustu tveggja fiskveiðiára.  Skýringar þessa eru ykkur hér inni auðvitað vel kunnar. Veikara gengi krónunnar og hærra verð á mörkuðum, meðal annars vegna minna framboðs héðan, hjálpuðu til við að milda það högg sem greinin varð fyrir við skerðingu þorskaflakvótans. Þótt útflutningstekjurnar hafi aukist má þó ekki gleyma því að þriðjungi minni þorskur hefur auðvitað slæmar afleiðingar í för með sér fyrir atvinnusköpunina, einkum og sér í lagi þar sem vinnsla þorsks er þýðingarmest.

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur greint frá því að til athugunar sé hvort auka eigi þorskkvótann vegna núverandi aðstæðna vegna breyttra aðstæðna. Það væri óvarlegt af þeim sem hlut eiga að máli að gefa sér einhverja niðurstöðu fyrirfram. Engin ákvörðun liggur fyrir en þegar þar að kemur verður hún vel ígrunduð og byggð á skynsamlegum forsendum á grundvelli bestu fáanlegu fiskifræðilegu vitneskju.

 

Eins og ég sagði áðan stóð greinin erfiðleika síðasta fiskveiðiárs betur af sér en flestir hugðu. Það ber vitni gríðarlegri aðlögunarhæfni í sjávarútveginum og útsjónarsemi þeirra sem í stafni standa. Aðlögunarhæfnin og útsjónarsemin kemur í sjálfu sér ekki á óvart, enda hefur íslenskur sjávarútvegur ávallt brugðist skjótt við breyttum aðstæðum. Leiðarstefið í rekstri fyrirtækjanna er líka að þau þurfa á eigin verðleikum að halda til að standa sig í alþjóðlegri samkeppni. Þau vita vel að það gerir enginn fyrir þau. Þau njóta ekki ríkisstyrkja, ólíkt því sem víða gerist og hér er því engin önnur leið til að mæta erfiðleikum en að hagræða, taka á vandanum beint.

 

Þegar gengið lækkar svo mjög sem raun ber vitni aukast skuldir greinarinnar verulega og eigið fé fyrirtækjanna brennur upp. Þessu verða lánveitendur að sýna skilning því nú ríður á að halda hjólum efnahagslífsins gangandi og þar leika að sjálfsögðu útflutningsfyrirtækin stærsta hlutverkið. Það má hins vegar ekki einblína á hækkun stýrivaxta sem kynnt var í vikunni. Hún er vissulega mikil, verður vonandi skammvinn, en er nauðsynlegur liður í að skapa forsendur fyrir gjaldeyrisviðskiptum og stuðla að stöðugra gengi. Vonandi ber þetta skjótt tilætlaðan árangur, þannig að bæði verðbólgan lækki og vextirnir þá líka. Allt of sterk króna var sjávarútveginum mikill fjötur um fót en nú er hið veika gengi ekki síður til stórkostlegra vandræða. Stöðugleiki og sterkara gengi er okkur öllum keppikefli nú um stundir. 

 

Eftir að stóru bankarnir þrír lögðust á hliðina hefur heyrst að ýmsir hafi áhyggjur af því að lán með veði í aflaheimildum verði gjaldfelld og gengið að veðum þeirra lána sem ekki greiðast. Þá geti skapast sú hætta að aflaheimildir lendi í höndum útlendinga. Um þetta er það að segja að öll lán sem eru með veði í kvóta lenda, eðli máls samkvæmt, í nýju bönkunum, bæði vegna þess að öll lán til innlendra aðila lenda þar en auk þess eru kvaðir á kvótaeign sem útiloka útlendinga frá henni. Því hljóta lán með kvótaveði að lenda í nýju bönkunum, eins og ég hygg að flestum ykkar sé kunnugt.

 

Stóra málið varðandi sjávarútveginn gagnvart bönkunum er hins vegar staða framvirkra samninga eftir að bankarnir fóru í þrot. Allir afleiðusamningar voru settir í gömlu bankana og þar meðtaldir afleiðusamningar sjávarútvegsfyrirtækja. Þau hafa á undanförnum árum gert töluvert af því að verja sjóðstreymi sitt með því að selja tekjur sínar framvirkt til að tryggja sig gegn tapi ef gengi krónunnar styrktist. Nú hefur hið gagnstæða gerst og gengið hefur veikst gífurlega, eins og ég rakti. Við þessa breytingu myndast mikið tap á þessum framvirku samningum sem nú gæti numið 25-30 milljörðum fyrir sjávarútveginn í heild. Þessa stöðu þarf að leysa og um það hafa verið viðræður milli bankanna, hagsmunaaðila í sjávarútvegi og stjórnvalda en endanlegar ákvarðanir liggja ekki fyrir frekar en í mörgum öðrum brýnum úrlausnarefnum sem tengjast hruni bankanna.

 

Síðustu vikur hafa þær raddir gerst háværari en áður sem segja að nýta beri tækifærið núna til að breyta úthlutun aflaheimilda. Kalla eigi veiðiheimildir inn, eins og menn orða það, og úthluta upp á nýtt með gjörbreyttu sniði. Þetta er fullkomlega óábyrgt tal eða finnst mönnum ekki nóg um ástandið þótt ekki bættist við að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar væri teflt í tvísýnu? Það þarf ekkert að orðlengja það að þetta kemur ekki til greina. Ekki frekar en að þegar þorskkvótinn verður aukinn á nýjan leik þá verði þeim aflaheimildum ráðstafað með einhverjum öðrum hætti en hingað til. Þeir sem urðu fyrir þeim niðurskurði eiga að njóta ávaxtanna þegar þar að kemur eins og margoft hefur komið fram í máli mínu og sjávarútvegsráðherrans.

 

Ágætu fundarmenn.

 

Eins og ég hef rakið hér að framan þá höfum við að undanförnu farið út í afar sársaukafullar en að sama skapi nauðsynlegar aðgerðir til þess að lágmarka það tjón sem íslenskt samfélag verður fyrir vegna lausafjárkreppunnar og þeirra erfiðleika sem komið hafa til okkar vegna þess að yfir heiminn ríður nú stærsta fjármálakreppa og mesta bankakreppa, sennilega síðustu 80 ára eða svo.

 

Og ríkisstjórnir um allan heim eru að verja fjármálastofnanir sínar eftir bestu getur þó að margar hafi nú fallið og miklu fleiri en kemur fram í fréttum hér og það er verið að verja stórkostlegum fjármunum af almannafé út um allan heim til að verja fjármálastofnanir og bankakerfi. Og það mál er ekki búið, við vitum ekkert hvernig það endar þegar upp er staðið.

 

Við þurftum að ráðast í þessar aðgerðir af ástæðum sem ég fór yfir hér áðan. Það var auðvitað mjög miður. Það er þess vegna mjög óheppilegt þegar einhverjir gera því skóna að ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafi ekki verið að vinna að því af fullum heilindum að bjarga bankakerfinu eftir því sem frekast er kostur og mér þykir miður þegar slíkt er gefið í skyn.

 

Kannski er að að vissu marki skiljanlegt að menn vilji benda á flesta aðra en sjálfa sig þegar leitað er að ástæðu fyrir vandamálum.

 

Við þekkjum það að þegar einstaklingar verða gjaldþrota þá kenna þeir gjarnan bankanum sínum um og segjast ekki hafa fengið nógu mikla fyrirgreiðslu, nógu mikinn skilning eða næga þjónustu.

 

Á sama hátt kenna bankar, sem lenda í þroti Seðlabankanum um. Það er alþekkt. Málið er hins vegar að á sama hátt og bankar þurfa á einhverjum tímapunkti að setja niður fótinn gagnvart sínum viðskiptavinum og segja, það er því miður ekki hægt að lána ykkur meir, þá verða seðlabankar einhvern tímann að segja stopp.

 

Í aðdraganda þess að bankarnir fóru í þrot var unnið myrkanna á milli við að ná utan um stöðuna og leita hugsanlegra leiða út úr vandanum. Margir voru kallaðir til og hlustað á menn, hugmyndir og tillögur frá fjölda manna athugaðar en auðvitað var það þannig að það var ekki hægt að fara eftir þeim öllum.

 

Margar þeirra hugmynda sem fyrir okkur voru lagðar fólu í sér að ríkissjóður varð að leggja út tugi og jafnvel hundruði milljarða af almannafé í lausnir sem alls óvíst var að myndu virka og kynnu að verða að engu. Þessar hugmyndir fólu reyndar gjarnan í sér að sá sem átti tillöguna myndi lifa af en hinir ekki en aðalatriðið er að við gátum ekki teflt í tvísýnu hundruðum milljarða af almannafé í áhættuspili gagnvart því að leysa vanda eins af bönkunum.

 

Mikið hefur verið rætt um hugmynd sem forsvarsmenn Landsbankans komu með á okkar fund sunnudaginn örlagaríka í lok september. Sú hugmynd gekk út á að sameina Landsbankann og Glitni – ríkið myndi afhenda nýja bankanum 200 milljarða – 1/3 af gjaldeyrisvaraforða landsins – en eigendur Landsbankans myndu þá eignast 2/3 í nýja bankanum en hluthafar Glitnis ekki neitt. Það lá fyrir að þessar hugmyndir voru fjarstæðukenndar og gengu ekki upp og mönnum var sagt það þó að þeim væri ekki sent skriflegt var.   

 

En ummæli þeirra sem nú koma fram og gagnrýna af mikilli hörku verður að meta í því ljósi að þar bera menn saman þá niðurstöðu sem varð við atburðarás sem ekki varð. Sá samanburður er hagstæður fyrir þann sem dregur hann upp en segir ekki alla söguna eins og gefur augaleið.

 

Ágætu fundarmenn.

 

Öll gerum við okkur grein fyrir því að framundan eru erfiðir tímar en ég er þess fullviss að íslenska þjóðin mun standa þá erfiðleika af sér og sigrast á þeim, eins og hún hefur alltaf gert. Þar mun íslenskur sjávarútvegur leika stórt hlutverk sem fyrr og ég vonast eftir góðri samvinnu við ykkur og ykkar samtök á næstu mánuðum og misserum við að byggja upp til framtíðar í íslenska þjóðfélaginu. Einhvern tíma var þörf en nú er svo sannarlega nauðsyn.

 Þakka ykkur fyrir.

 

Reykjavík 31. október 2008

 Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira