Hoppa yfir valmynd
31. desember 2008 ForsætisráðuneytiðGeir H. Haarde, forsætisráðherra 2006-2009

Við áramót – Áramótagrein í Morgunblaðið 2008

Ártalið 2008 verður um langan aldur greypt í sögu íslensku þjóðarinnar og ársins minnst fyrir bankahrunið mikla sem hér varð á haustmánuðum. Í hagsögu heimsins verður þetta ártal einnig áberandi fyrir þær efnahagslegu hamfarir sem riðið hafa yfir þjóðir heims á árinu. Eftir ótrúlegan uppgangstíma hefur heimshagkerfið steytt á skeri og ávinningi síðustu ára skolað fyrir borð. Hér á Íslandi, þar sem uppstreymið var hvað mest, hefur fallið orðið hvað hæst.

Frammi fyrir slíku hruni er auðvelt að fyllast vonleysi og leggja árar í bát. En íslenska þjóðin er engri lík og stendur óbuguð. Það er okkur Íslendingum í blóð borið að taka áföllum af æðruleysi og vinna okkur út úr erfiðleikum með bjartsýni og þrautseigju að vopni. Engum dylst að hrun bankakerfisins hefur þegar valdið íslenskum fjölskyldum og fyrirtækjum miklum búsifjum. Umsvif íslensku bankanna í samanburði við efnahagslífið í heild voru af slíkri stærðargráðu að hrun þeirra setti af stað höggbylgju sem skekur nú íslenskt atvinnu- og efnahagslíf frá rótum. Við Íslendingar skulum vera undir það búnir að enn eigi eftir að harðna á dalnum áður en við getum á nýjan leik sótt fram af sama krafti og áður. Næsta ár verður erfitt og þá mun reyna sem aldrei fyrr á styrk þjóðarinnar, samstöðu hennar og samhug.

Fórnir, sátt og samstaða

Þeir sem nú axla þungar byrðar eftir hrun íslensku bankanna – íslenskir skattgreiðendur og fjölskyldur þeirra, börnin okkar og ófæddar kynslóðir – eiga skilyrðislausan rétt á því að ástæður bankahrunsins komi fram. Sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis með aðild færustu sérfræðinga mun á næstu vikum og mánuðum rannsaka gaumgæfilega aðdraganda þessara atburða, hvað gerðist og hvers vegna. Mun þá verða varpað ljósi á þau álitaefni sem hafa risið og reynt að svara fjölda þeirra spurninga sem hafa vaknað vegna þessara mála. Allir hljóta að fagna slíkri rannsókn sem ætlað er að draga sannleikann undanbragðalaust fram í dagsljósið. Fyrr en niðurstöður hennar liggja fyrir verður ekki hægt að fella dóma yfir einstökum aðilum, hvorki einstaklingum, fyrirtækjum né stofnunum, fyrir þeirra hlut að málinu.

Sérstakur saksóknari með víðtækar rannsóknarheimildir mun rannsaka hvort lög hafi verið brotin í aðdraganda að hruni bankanna eða í starfsemi þeirra fram að því. Aðeins með þeim hætti er hægt að koma böndum yfir þá sem brotið hafa af sér, hreinsa þá af ásökunum sem unnið hafa störf sín af elju og samviskusemi og gera ráðstafanir til að afstýra svona atburðum í framtíðinni.

Hvernig gat þetta gerst?

Á undanförnum vikum höfum við öll spurt hvernig það gat gerst að hinir stóru og stöndugu íslensku bankar hrundu svo að segja til grunna á örfáum vikum. Við þeirri spurningu er að sjálfsögðu ekki til einfalt svar. Með nokkurri einföldun má þó segja að íslensku bankarnir hafi ekki verið nægilega sterkir til að standa á eigin fótum þegar undan fjaraði á alþjóðlegum lánamörkuðum en þeir voru samt of stórir til að ríkissjóður eða Seðlabankinn gætu varið þá falli. Stærð íslenska bankakerfisins í samanburði við þjóðarframleiðslu átti sér ekki hliðstæðu. Í venjulegu árferði hefði stærð íslensku bankanna verið styrkur þeirra og þeir hefðu staðið að sér allar hefðbundnar þrengingar en þegar heimskreppan skall á af fullum þunga varð stærð bankanna þeim að falli.

Því miður fóru íslensku bankarnir, eins og fleiri íslensk stórfyrirtæki, allt of geyst í hinni svokölluðu útrás. Bankarnir færðu sér í nyt frjálslegar reglur evrópska efnahagssvæðisins um fjármagnsflutninga sem og lántökumöguleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum þar sem um margra ára skeið var gnótt fjármagns á vildarkjörum. Þegar þetta snerist við og útsala á lánsfé breyttist í lánsfjárskort vegna erfiðleika sem upphaflega sköpuðust á húsnæðislánamarkaði í Bandaríkjunum síðsumars 2007 voru bankarnir ekki undir það búnir. Segja má að örlög íslensku bankanna hafi verið ráðin eftir að hinn risastóri fjárfestingarbanki Lehman Brothers í Bandaríkjunum fór í þrot 15. september sl. án þess að bandarísk yfirvöld reyndu að koma honum til bjargar. Í kjölfarið þornuðu upp hefðbundnar lánsfjáruppsprettur banka milli landa og bankar sem ekki gátu hlaupið í skjól ríkisvalds og almannafjár áttu eftir það litla möguleika á að bjarga sér.

Mánudaginn 6. október sl. ávarpaði ég þjóðina í beinni sjónvarpsútsendingu til þess að gera henni grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem upp var komin í fjármálakerfi okkar. Ástæður þess að staðan var orðin jafnslæm og raun bar vitni á haustmánuðum má greina í tvennt. Fyrri ástæðan er sú að alþjóðleg lausafjárkreppa skall á af fullum þunga og gerði út af við mörg fyrirtæki, banka og fjármálastofnanir í Bandaríkjunum og Evrópu. Hin ástæðan fyrir þessari erfiðu stöðu var síðan framganga bankanna sjálfra sem höfðu spilað afar djarft í sínum rekstri og fjárfestingum undanfarin ár og ekki búið sig nægilega undir breyttar aðstæður á fjármálamörkuðum. Því skal haldið til haga að uppgjör bankanna sjálfra, sem kynnt voru í sumar og staðfest af endurskoðendum, gáfu ekki tilefni til að ætla annað en að staða þeirra væri þrátt fyrir allt nokkuð sterk, enda kom þá fram að allir bankarnir væru fjármagnaðir út árið 2009 og að eignasöfn þeirra væru traust. Í maí síðastliðnum taldi Seðlabankinn að staða íslenska bankakerfisins væri í meginatriðum traust og endurtekin álagspróf Fjármálaeftirlitsins bentu til hins sama.

Eigi að síður var svo komið í lok september að óhjákvæmilegt var fyrir stjórnvöld að grípa inn í. Mikilvægi bankanna fyrir eðlilegt líf og viðskipti í landinu er slíkt að fari bankaþjónusta úr skorðum getur þjóðfélagið lamast og upplausnarástand skapast ef almenningur getur ekki nálgast fé sitt í bönkum. Því var allt kapp lagt á að tryggja óskerta grunnþjónustu og hagsmuni íslenskra skattgreiðenda og fjölskyldna umfram alla aðra hagsmuni. Með setningu neyðarlaganna svonefndu, að kvöldi dags 6. október, var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til þess að taka yfir starfsemi bankanna og stofna ný félög á grundvelli þeirra eldri.

Svo fór að stjórnvöld þurftu að taka yfir alla stóru bankana þrjá og koma nýjum á fót til að sinna eðlilegri bankaþjónustu innan lands. Lengi vel stóðu vonir til þess að Kaupþing gæti staðið af sér erfiðleikana en aðgerðir fjármálaeftirlitsins í Bretlandi urðu til þess að fella dótturfélag bankans, sem að stofni til var rúmlega eitt hundrað ára gamall breskur banki. Sú aðgerð varð síðan til þess að móðurbankinn á Íslandi fór sömu leið. Allt bendir til þess að látið verði reyna á lögmæti aðgerða breskra yfirvalda fyrir þarlendum dómstólum. Harkan í aðgerðum breskra yfirvalda vegna þessa máls sem og beiting hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum og öðrum íslenskum hagsmunum er ljótur blettur á breskum stjórnvöldum og þeim til mikillar minnkunar. Með þeim var níðst á friðsömu vina- og bandalagsríki með aðgerðum sem aldrei hefði verið gripið til gegn stærra eða voldugra ríki. Þegar frá líður er ljóst að bresk stjórnvöld munu hafa af máli þessu mikla skömm, bæði heima fyrir og með öðrum þjóðum. Alþingi samþykkti á lokadögum þingstarfa nú í desember frumvarp þingmanna úr öllum flokkum um að veita fjármuni til stuðnings við málaferli á hendur breskum yfirvöldum vegna þessara mála. Undirstrika hin nýju lög breiða samstöðu þjóðarinnar um þessi mál.

Hamfarir á heimsvísu

Í umræðum um bankamálin hér heima er stundum eins og menn átti sig ekki á því að við Íslendingar erum ekki þeir einu sem eigum í erfiðleikum. Hin alþjóðlega fjármálakreppa er einmitt það: alþjóðleg, og hefur hún valdið miklum búsifjum víða um heim. Þegar hafa tvær aðildarþjóðir Evrópusambandsins farið að dæmi okkar Íslendinga og leitað aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og sífellt bætist í hóp þeirra ríkja sem þurfa að gera slíkt hið sama. Aðildarríki ESB hafa varið tugþúsundum milljarða af skattfé almennings til að styðja við bankakerfi sitt og sömu sögu er að segja af Bandaríkjunum. Rótgróin risafyrirtæki beggja vegna Atlantsála riða til falls og enginn hefur tölu á þeim fjölda fyrirtækja sem lagt hafa upp laupana, hvað þá á þeim fjölda fólks sem misst hefur vinnuna.

Því miður eru allar líkur á því að efnahagskreppan eigi enn eftir að versna og það mun einnig hafa afleiðingar á íslenskan efnahag. Þegar sjást þess merki að verðlag á útflutningsvörum eins og fiski og áli hefur lækkað og erlent lánsfé er að heita má ófáanlegt. Gera má ráð fyrir að ferðamennska eigi á brattan að sækja alls staðar í heiminum á næsta ári. Skiptir þá miklu máli að efla þá sérmarkaði fyrir ferðamenn sem komin er nokkur reynsla á hér á landi. Á móti neikvæðum áhrifum heimskreppunnar kemur hins vegar lækkun olíuverðs og ýmissar hrávöru.

Erfitt ár framundan

Hrun bankanna mun hafa mikil og neikvæð áhrif á þjóðarbúskap okkar á árinu 2009. Ríkisstjórnin ákvað í samráði við Seðlabankann að leita samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Washington, sem Íslendingar hafa átt aðild að frá 1945, um efnahagslega endurreisn. Samvinna við sérfræðinga frá sjóðnum gekk hratt fyrir sig og í sameiningu var gerð efnahagsáætlun sem m.a. er grundvöllur lánveitinga sjóðsins og nokkurra vinaþjóða til okkar.

Samstarf okkar við sjóðinn hefur farið vel af stað, þrátt fyrir að grípa hafi þurft til harkalegra aðgerða bæði varðandi fjármagnsflutninga til og frá landinu og í ríkisfjármálum við afgreiðslu fjárlaga fyrir 2009. Við þá afgreiðslu tókst að minnka fyrirsjáanlegan halla á ríkissjóði úr 215 milljörðum króna í 153 milljarða. Er sá árangur mjög mikilvægur þótt ljóst sé að halda verður áfram á sömu braut næstu árin. Höftum á fjármagnsflutningum til og frá landinu verður aflétt jafnskjótt og hægt er.

Skili efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og AGS þeim árangri sem að er stefnt, má búast við að verðbólga lækki hratt á árinu 2009 og vextir í kjölfarið. Verður þá öðruvísi um að litast í efnahagsmálum á Íslandi við næstu áramót en nú. Að þessu marki verðum við öll að vinna.

Ríkisstjórnin hefur verið staðráðin í því frá byrjun að bregðast við þessum vanda til bæði skemmri og lengri tíma litið. Nú þegar hafa verið kynntar fjölmargar aðgerðir til að létta undir með einstaklingum og fyrirtækjum í landinu. Upplýsingar um þær og samstarfið við AGS má nálgast á vefnum island.is.

Ég nefni sérstaklega aðgerðir til þess að létta greiðslubyrði einstaklinga með verðtryggð lán með því að beita greiðslujöfnunarvísitölu og þann möguleika að frysta afborganir af lánum í erlendri mynt. Ennfremur hefur ríkisstjórnin beint tilmælum til opinberra innheimtuaðila um að milda sem kostur er innheimtuaðgerðir gagnvart einstaklingum og fellt úr gildi þá reglu að ríkissjóður geti skuldajafnað barnabótum á móti opinberum gjöldum, sem og að vaxtabótum megi skuldajafna á móti afborgunum lána hjá Íbúðalánasjóði.

Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir stofnun endurreisnarsjóðs, öflugs fjárfestingasjóðs atvinnulífsins með þátttöku lífeyrissjóða, banka og annarra fjárfesta, þ,á m. erlendra, og gera bankaráðum hinna nýju banka að setja sér skýrar viðmiðunarreglur um fyrirgreiðslu við fyrirtæki í landinu með það að markmiði að vernda störf og stuðla að áframhaldandi starfsemi lífvænlegra fyrirtækja. Þá hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að náð verði samkomulagi við kröfuhafa gömlu bankanna, enda mikilvægt að finna lausn sem svo mikilvægir lánveitendur geta sætt sig við. Skynsamleg leið til þess gæti verið að þeir gerist hluthafar í bönkunum og er sá kostur til skoðunar.

Við Íslendingar horfum nú í fyrsta sinn í langan tíma fram á versnandi lífskjör, atvinnuleysi mun aukast og kaupmáttur minnka. Samdrátturinn í efnahagslífi þjóðarinnar þýðir í raun að ávinningur síðustu tveggja til þriggja ára er fyrir bí. Við skulum þó hafa í huga að síðustu ár hafa verið okkur afar hagfelld og lífskjörin batnað með ótrúlegum hraða. Það er bæði sárt og erfitt að þurfa að hverfa til baka en staða okkar sem þjóðar og samfélags er þrátt fyrir allt afar sterk og öfundsverð í flestu tilliti.

Ísland í breyttum heimi

Í kjölfar þeirra efnahagslegu áfalla sem við Íslendingar höfum orðið fyrir er okkur sem störfum í lýðræðislegu umboði þjóðarinnar skylt að leita svara við spurningum um stöðu Íslands með tilliti til samvinnu og samstarfs við aðrar þjóðir og því hvernig samfélag við viljum byggja upp til framtíðar. Þessar spurningar eru nátengdar, því fyrir smáþjóð eins og Ísland hefur alþjóðleg samvinna grundvallarþýðingu, bæði um efnahag landsins og öryggi okkar.

Um þessi áramót eru fimmtán ár frá því að EES-samningurinn tók gildi og fáir deila um að hann hefur þjónað okkur vel. Sumir hafa viljað ganga lengra í átt til Evrópusamvinnunnar en aðrir skemur. Innan Sjálfstæðisflokksins hafa verið skiptar skoðanir um þessi mál en sú skoðun jafnan orðið ofan á undanfarin ár að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins (ESB). Í þessu felst að flokkurinn leggur hagsmuni íslensku þjóðarinnar til grundvallar afstöðu sinni en ekki pólitísk trúarbrögð eða kennisetningar.

Í umróti þess árs sem nú er senn á enda hafa aðstæður breyst til mikilla muna. Þetta á ekki einungis við um íslenskt efnahagslíf heldur jafnframt um samstarf þjóða á alþjóðavettvangi. Heimurinn hefur breyst og við Íslendingar þurfum að skoða stöðu okkur að nýju. Af þeirri ástæðu lagði ég fyrir miðstjórn Sjálfstæðisflokksins þá tillögu í nóvember að setja á laggirnar sérstaka Evrópunefnd til þess að skoða stöðu Íslands gagnvart ESB, ríkjum Evrópu og valkostum Íslands í alþjóðasamstarfinu. Evrópunefndin mun leggja tillögur sínar fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins í lok janúar á nýju ári. Endanlegt vald í þessum efnum er í höndum landsfundar og hvorki ég né aðrir segja landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir verkum.

Ég fagna þeirri miklu og gagnlegu umræðu sem nú á sér stað í Sjálfstæðisflokknum um Evrópumál og bind miklar vonir við öflugt starf Evrópunefndarinnar. Það er mikilvægt að bæði andstæðingar og stuðningsmenn aðildar að ESB leggi á vogarskálarnar alla þá kosti og galla sem fylgja slíkri aðild. Í mínum huga skiptir það okkur Íslendinga mestu að yfirráð okkar yfir auðlindum til lands og sjávar séu tryggð. ESB hefur fram til þessa ekki ljáð máls á varanlegum undanþágum frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sinni. Verði breyting á þeirri afstöðu yrði stórri hindrun úr vegi rutt fyrir aðild Íslands að sambandinu.

Sjálfgefið er að niðurstöður hugsanlegra aðildarviðræðna verði bornar undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. En vegna alvöru og mikilvægis málsins tel ég einnig koma til greina að ríkisstjórnin fái, ef til þess kemur, skýrt umboð fyrirfram í þjóðaratkvæðagreiðslu til að ganga til aðildarviðræðna við ESB. Eðlilegt væri að setja sérstök lög um slíka atkvæðagreiðslu strax í febrúar og ganga til þjóðaratkvæðis nokkrum vikum síðar að lokinni eðlilegri kynningu á málinu. Yrði niðurstaðan sú að ganga til aðildarviðræðna þyrfti þegar að hefja undirbúning þeirra með aðkomu allra stjórnmálaflokka.

Sterk þjóð er reynslunni ríkari

Í þeim erfiðleikum sem við Íslendingar tökumst á við um þessar mundir liggja margvísleg tækifæri. Erfiðleikar og þrengingar eru oft frjór akur nýrra hugmynda. Þegar við erum knúin til að bregðast við breyttum aðstæðum skapast jafnframt tækifæri til nýsköpunar og það er mikilvægt að við Íslendingar nýtum öll þau tækifæri sem við höfum til nýrrar sóknar.

Við höfum margoft áður orðið fyrir alvarlegum áföllum og hið mikla návígi okkar við náttúruöflin hefur gert það að verkum að íslenska þjóðin þekkir það betur en margir aðrir hvernig er að standa með storminn í fangið og takast á við erfiðleika. Þetta hefur þjappað okkur saman og ég er sannfærður um að sú verður einnig raunin í þetta sinn. Næsta ár verður erfiðara en mörg ár á undan en lífskjör okkar eru samt sem áður meðal þeirra bestu í heimi.

Við Íslendingar erum ung og kraftmikil þjóð. Líkt og ungu og kappsömu fólki er tamt þá hættir okkur til að færast of mikið í fang. Við erum sem þjóð reynslunni ríkari eftir örlagaríkt ár. Við skulum nýta okkur reynsluna en ekki láta hana hneppa okkur í fjötra einangrunar og fábreytni. Afturhvarf til aukinna ríkisafskipta og of mikilla hafta á frjáls viðskipti, eins og margir tala fyrir nú, er leið ótta og vonleysis. Það er ekki leiðin fram á við.

Á næstu árum munu skapast hagstæðar aðstæður til nýrrar sóknar sem byggjast mun á aukinni verðmætasköpun grunnatvinnuveganna, nýsköpun á öllum sviðum, hagnýtingu auðlinda okkar til lands og sjávar, sérþekkingu og háu menntunarstigi þjóðarinnar og síðast en ekki síst á þeim séríslensku eiginleikum sem hafa gert okkur kleift að brjótast úr örbirgð til allsnægta á fáeinum áratugum; dugnaði og bjartsýni.

Ég óska öllum landsmönnum gleðilegs nýs árs.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum