Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2015 ForsætisráðuneytiðSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra 2013-2016

Ræða forsætisráðherra á ársfundi Samtaka atvinnulífsins

Fundarstjóri, formaður Samtaka atvinnulífsins, Göran Persson og aðrir góðir gestir.

Mig langar til að byrja á smá upprifjun og líta aftur til ársins 1986. Árið 1986 var um margt ágætt ár. Þrennt bar þar líklega hæst. Reagan og Gorbachev hittust í Reykjavík til að ljúka kalda stríðinu og koma á heimsfriði.

Íslendingar tóku þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í fyrsta sinn með lagi um banka og töldu sigurinn vísann og Framarar urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu. 
En fleira gerðist það ár. 

Í byrjun ársins var lögð fram hugmynd um hvernig stöðva mætti víxlhækkanir launa og verðlags og freista þess i staðinn að halda gengi krónunnar og verðlagi stöðugu, en stefna að framleiðniaukningu í þjóðfélaginu og bættum lífskjörum á grunni aukinnar verðmætasköpunar. 

Aðilar vinnumarkaðarins féllust á að fara þessa leið og strax á því ári varð ljóst að árangur myndi nást. Aðstæður á vinnumarkaði bötnuðu og grunnur var lagður að auknum kaupmætti. 

Margir hömruðu á því að þetta væri vænlegri leið til kjarabóta en launahækkanir án framleiðniaukningar sem engu skiluðu þar sem gengi og verðlag fylgdu í kjölfarið. 
Árangurinn sem skilaði sér strax jók bjartsýni, og e.t.v. aðeins of mikið, því að strax um haustið voru gerðar kröfur um gífurlegar launahækkanir á grundvelli þess að efnahagsástandið væri orðið allt annað og betra. 

Þegar leið á árið 1986 var hugarfarið orðið einhvern veginn svona: Úr því að efnahagslífið hefur loksins náð jafnvægi þá er allt hægt. 

Á endanum var samið um yfir 40% hækkun lægstu launa. Önnur laun skyldu að mestu hækka um hliðstæða krónutölu, en yfirgreiðslur falla inn í launin.  

Stórir hópar vildu hins vegar ekki una þessu og síðari hluta vetrar fengu þeir launahækkun sem var hlutfallslega svipuð þeirri sem þeir lægst launuðu fengu. – Sem sagt, prósentuhækkun. 

Kaupmáttur þessara launahækkana byrjaði þegar að falla og í árslok komu enn á ný kröfur um launahækkanir, sem ljóst var að engin leið yrði að standa undir.

Við blasti stöðugt rýrnandi kaupmáttur og stóð svo þangað til þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir í ársbyrjun 1990. 

Þeir samningar voru gerðir á sama grunni og lagður var 1986, en í þetta skiptið var hugmyndinni fylgt eftir um árabil, með þeim árangri sem allir þekkja.

II.
Nú tæpum þremur áratugum síðar er margt breytt en annað við það sama.

Samskipti Vesturveldanna og Rússlands hafa færst í öfuga átt. Væntingarnar til Eurovision eru hófstilltari og Frammarar vænta þess að þeir geti þurft að bíða a.m.k. eitt ár í viðbót með að verða Íslandsmeistarar ... í ljósi þess að liðið spilar ekki í efstu deild þetta árið. 

Hins vegar er þróunin á vinnumarkaði ískyggilega farin að líkjast því sem gerðist árið 1986.
Nýverið var bent á það í fréttum að nú væri engin verðbólga og enginn skortur á peningum.
Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð lýsti hún því yfir að unnið yrði að kaupmáttaraukningu með aukinni framleiðslu og aukinni framleiðni atvinnuveganna. Það er augljóslega langtímaverkefni. 

Ríkisstjórn getur stutt við slíka þróun, en fyrst og fremst er það í valdi aðila vinnumarkaðarins að ná því fram. Það ætti flestum að vera ljóst að á þennan hátt, og þennan hátt einan, er hægt að bæta lífskjör varanlega. 

Við getum ekki rifið okkur upp á hárinu og við einfaldlega meiðum okkur  ef við reynum.  
Ríkisstjórnin er til í að taka þátt í að móta skynsamlegar aðgerðir með aðilum vinnumarkaðar sem leitt geti til kjarasamninga sem ógna ekki stöðugleika. 

Það segir sig sjálft að ríkisstjórnin getur ekki stutt verðbólguhvetjandi kjarasamninga og mun leggjast á árarnar með aðilum vinnumarkaðarins svo niðurstaðan verði til þess að skapa Ávinning, en ekki Óvinning!  

Verðbólgu samningar leiða til minni kjarabóta fyrir launþega, meiri og síendurtekinna átaka og endurtekinna leiðréttinga á vinnumarkaði, hækkunar verðtryggðra skulda og gengislækkunar. 

Allt bitnar þetta á samfélaginu öllu en verst á fólki með lægri- og millitekjur.
Við yrðum mörg ár að vinna okkur út úr slíkum vanda og því megum við ekki kalla hann yfir okkur.  
Við þekkjum þessa sögu og höfum reynt þetta allt of oft áður. Allir sem koma að gerð kjarasamninga á vinnumarkaði, bæði fyrir opinbera og almenna markaðinn, vita þetta. 
Allir eru upplýstir og þekkja afleiðingarnar. Við hljótum því að vera í stakk búin að finna lausn sem er launþegum hagstæð til lengri tíma litið. 
Norræna vinnumarkaðsmódelið svo kallaða er ekki fyrir bí þó átök hafi nú blossað upp. Margt hefur gengið vel frá því að undirbúningur fyrir slíka hugsun í kjarasamningagerð hófst árið 2013. 

Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið og BSRB eiga þakkir skildar fyrir samningana í lok árs 2013 sem eiga stóran þátt í því að verðbólga hefur verið lægri en um áratuga skeið og kaupmáttur aldrei meiri.

Ekki vildu þó allir vera með í þessari vegferð og því náðist ekki sú þjóðarsátt sem að var stefnt árið 2013. Margir minni samningar sem fylgdu í kjölfarið voru með hærri launahækkunum. Samningar ríkisins við lækna og framhaldsskólakennara, sem samtals eru um 10% starfsmanna ríkisins og 1,5% af vinnumarkaði í heild, voru um margt sér á parti. 

Í þeim samningum voru gerðar verulegar breytingar á vinnufyrirkomulagi og launauppbyggingu þessara stétta. 

Þeir samningar eru einnig til mun lengri tíma, eða tæpra þriggja ára. Þrátt fyrir það standa þessar stéttir ekki hlutfallslega betur nú en þær gerðu fyrir áratug síðan.
Ástæðan er sú að þær njóta minna launaskriðs utan kjarasamninga heldur en flestar aðrar stéttir. Ríkið samdi við tæp 90% starfsmanna ríkisins með líkum hætti og almenni vinnumarkaðurinn hafði áður gert. 

Almennt hækkuðu laun ríkisstarfsmanna heldur meira á árinu 2014 en laun á almenna vinnumarkaðnum. En ef litið er til síðustu tíu ára er staðan hins vegar sú að laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað heldur meira en laun ríkisstarfsmanna.  

Nú þegar ný kjarasamningalota er að hefjast er þó mikilvægt að gleyma ekki þeim gömlu sannindum, sem þó oft vilja gleymast, að tekjur ríkisins eru að langmestu leyti háðar verðmætasköpun á almennum markaði. 

Það á því að vera algild regla, hér sem annars staðar, að verðmætasköpun á almennum markaði myndar það svigrúm sem kjarasamningar, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, taka mið af. 

Það er tímabært að skoða framtíðarfyrirkomulag kjarasamninga á Íslandi og aðlaga það betur að bestri framkvæmd í öðrum löndum. 

Margt þarf að skoða í því sambandi. Það er hins vegar verkefni sem verður ekki leyst á einni nóttu.

III.
Staða efnahagsmála er góð og möguleikar til áframhaldandi kaupmáttaraukningar eru miklir. 

Erlendir blaðamenn, fulltrúar alþjóðastofnana og aðrir erlendir gestir sem hingað koma til að kynna sér stöðu efnahagsmála klóra sér mjög í höfðinu yfir stöðunni á vinnumarkaði.
Þegar búið er að fara yfir kaupmáttaraukningu síðustu ára, tekjudreifingu, hlutfall launa af verðmætasköpun og spár um framtíðarhagvöxt spyrja menn hvert sé eiginlega vandamálið?

Þegar litið er á launaþróun á síðustu árum kemur í ljós að hún er merkilega lík á milli stétta þrátt fyrir að tekið sé tillit til þeirra hækkana sem einstaka stéttir hafa náð á síðastliðnum tólf mánuðum. Helstu breytingarnar eru þær að lægri laun hafa hækkað meira en meðallaunin, laun verkafólks hafa hækkað meira en stjórnenda og laun kvenna hafa hækkað meira en laun karla. 

Fá lönd eru nú með meiri tekjujöfnuð en Ísland. Hlutfall launa af verðmætasköpun var hið þriðja hæsta í heiminum árið 2013. 

Þrátt fyrir þessar staðreyndir ríkir mikil ólga á vinnumarkaði. 

Reikna má með að þetta stafi af þeirri jákvæðu breytingu að nú loksins sé eitthvað til skiptanna og allir vilji fá sinn réttmæta hlut af nýrri verðmætasköpun. 

Það er eðlilegt, enda upplifum við nú uppgang í fyrsta sinn í langan tíma og veiðimannseðlið segir til sín. En það verða samt allir að sýna ábyrgð. Tugprósenta hækkun stjórnarlauna í fyrirtækjum eru kolröng og óábyrg skilaboð inn í samfélagið á þessum tíma. Við þurfum sameiginlega að byggja upp þjóðfélag festu og stöðugleika og slíkar hækkanir hjálpa ekki til við það.  

Óskir um fjórfalda hækkun bankabónusa er af sama meiði. Bankakerfi í höftum, varið að mestu fyrir erlendri samkeppni, býr ekki til slík verðmæti að það réttlæti að launakerfi þess séu á skjön við aðra markaði og réttlætiskennd almennings. 

IV.
Góðir fundargestir. Reynsla Svía síðustu tuttugu árin er eftirtektarverð. Svíum hefur vegnað nokkuð vel með fljótandi gengi jafnvel þótt þeir hafi dottið inn í Evrópusambandið. 

Sagan sýnir þó að ýmsir aðrir þættir en gjaldmiðlamál spila veigamikið hlutverk um efnahagslegan árangur. 

Sá agi og festa sem ríkir í sænska vinnumarkaðslíkaninu er mikilvægur þáttur í efnahagslegri velgengni Svía og okkur til eftirbreytni. Það er því vel til fundið hjá Samtökum atvinnulífsins að fá Göran Persson hingað til lands. 

Göran. Du skal inte vara förvånat att höra ditt namn här ibland med ord sem du troligen inte förstår. Jag skulle bara vilja berätta här för publiken hur väl den svenska arbetslivsmodellen har funkerat och vad vi Islänningar kan lära av våra svenska vänner i det sammanhänget. 

Selv om jeg inte var överens med dej när du kom hit i 2012 och sa att vi skulle förhandla með EU och ta upp euron. Ditt tal under 2009 var mycket brå och jag ser fram emot att höra vad du har att säga här efteråt.

V.
Góðir fundargestir. Ég vil ljúka þessu á jákvæðum nótum að vanda. 
Ég var mjög ánægður að sjá þá nálgun sem Samtök atvinnulífsins lögðu til fyrir skemmstu til lausnar kjaradeilunni þar sem áherslan var á hækkun grunnlauna sem hlutfall af heildarlaunum. 

Slík uppstokkun launakerfa gæti komið til móts við kröfur um betri framfærslumöguleika dagvinnulauna og styttri vinnutíma án þess að raska verðstöðugleika. Ég vona að þessi nálgun verði að veruleika á náinni framtíð. „Er lægð yfir landinu?“ spyr Ólafur Ragnar jafnan þegar honum finnst fólk eitthvað þungbúið. 

Reyndar ekki sá Ólafur Ragnar sem situr á Bessastöðum heldur nafni hans sem var umboðsmaður Sólarinnar frá Sandgerði í Næturvaktinni. 

Þær hafa reyndar komið nokkrar lægðirnar í vetur og sjálfsagt hefur fólk orðið eitthvað þyngra í skapi af þeim sökum. En það ríkir engin efnahagslægð á Íslandi. 
Ég þreytist aldrei á að minna fólk á hvílík gnægð tækifæra bíða okkar Íslendinga og hversu gott samfélag okkar getur orðið auðnist okkur að nýta tækifærin og skipta gæðunum á sanngjarnan og hvetjandi hátt. 

Það er úrlausnarefnið sem blasir við í komandi kjarasamningum. Ég óska öllum aðilum vinnumarkaðarins góðs gengis við að grípa tækifærin í sameiningu. 

Ég þakka fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum