Hoppa yfir valmynd
17. júní 2015 ForsætisráðuneytiðSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra 2013-2016

Ávarp forsætisráðherra á Austurvelli 17. júní 2015

Góðir Íslendingar, gleðilega hátíð.
Þjóðhátíðardagurinn 17. júní hefur átt sess í hjörtum Íslendinga í rúm hundrað ár. Fæðingardags Jóns Sigurðssonar var fyrst minnst með opinberum samkomum árið 1907 og á aldarafmæli Jóns 1911 var fyrst haldinn almennur þjóðminningardagur – sama ár og styttan af Jóni var afhjúpuð við Stjórnarráðshúsið.

20 árum síðar var hún flutt hingað á Austurvöll og hefur á þessum stað orðið vitni að fjölmörgum merkisviðburðum í sögu þjóðarinnar.

Það er fastur liður í hátíðahöldum þennan dag að minnast mannsins sem leiddi sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og þakka fyrir það sem sú barátta hefur skilað okkur í gegnum tíðina og gerir enn þann dag í dag.

En um hvað snýst þessi hátíðisdagur annað en að minnast afmælisbarnsins Jóns Sigurðssonar?

Flestir geta líklega sammælst um að 17. júní sé dagur til að gleðjast.

Við höldum hátíð og gleðjumst yfir því að vera hluti af þeirri margbreytilegu stórfjölskyldu sem kallar sig Íslendinga. Þannig snýst dagurinn líka um samheldni, hann minnir okkur á að við séum öll einn hópur, hópur með sameiginlega sögu og menningu og hópur sem tekst í sameiningu á við raunir og tækifæri.

En dagurinn snýst líka um sjálfstraust. Hann snýst um að við minnumst þess að við höfum ástæðu til að hafa trú á okkur sjálfum sem þjóð, hafa trú á því að í sameiningu getum við náð miklum árangri.

Við lýðveldisstofnun árið 1944 skorti Íslendinga ekki sjálfstraust og samheldni, ekki frekar en þegar þeir ákváðu að verða fullvalda þjóð, um aldarfjórðungi fyrr.

En þrátt fyrir áræði og trú á landinu þorðu líklega fáir að vona, að fáeinum áratugum seinna yrði Ísland orðið að fyrirmynd í samfélagi þjóðanna. Að velferðarmælikvarðar sýndu framúrskarandi árangur á flestum sviðum; að almennt heilbrigði hefði aukist stórkostlega, að hér væru lífslíkur einar þær bestu í veröldinni, atvinnuleysi minna en annars staðar og kynjajafnrétti hvergi meira.

Að í alþjóðlegum samanburði væri Ísland talið öruggasta land í heimi, Ísland væri í þriðja sæti á lista yfir þau lönd þar sem best þætti að búa , að jöfn réttindi allra væru betur tryggð en annars staðar og að Íslendingar væru að mati Sameinuðu þjóðanna sú þjóð sem, fremur en nánast allar aðrar þjóðir heims, hefði ástæðu til að vera hamingjusöm, sama til hvaða mælikvarða væri litið.

Þessar staðreyndir alþjóðlegs samanburðar sýna að trúin á framtíðina hefur skilað okkur langt.

Þær sýna að þjóðin hefur í áranna rás horft til framfara og byggt samfélagið skynsamlega upp á grunni þess sem gengnar kynslóðir veittu í arf.

Það er hlutverk okkar sem nú byggjum landið að skrifa næstu kafla þeirrar framfarasögu.

Óþrjótandi  metnaður þjóðarinnar, og löngun til að gera sífellt betur, hefur reynst gott veganesti. Það er mikilvægt að okkur auðnist að viðhalda þeim metnaði og nýtum um leið árangurinn til að minna okkur á að við höfum ástæðu til að þakka  fyrir það sem fyrri kynslóðir hafa gert og láta það verða okkur hvatningu til að gera enn betur fyrir kynslóðir framtíðar.  

Síðustu misseri hafa gefið okkur enn frekari ástæðu til að líta björtum augum fram á veginn. Ísland stendur nú á ný upprétt í samfélagi þjóða eftir að hafa sigrast á mestu efnahagserfiðleikum síðari tíma með elju og einlægum ásetningi. 

Búið er að lækka skuldir heimilanna, störfum hefur fjölgað og  hafa aldrei verið fleiri, kaupmáttur eru orðinn meiri en hann hefur áður verið í landinu, verðbólga er lág og nú blasir við að hægt verði að lækka skuldir ríkisins vegna fjármagns sem renna mun í ríkissjóð til að gera afnám hafta mögulegt. Það kemur samfélaginu öllu til góða.

Þessi vatnaskil þýða að við getum einbeitt okkur að því að horfa fram á við. Nýtt tækifærin sem bíða og þær áskoranir sem felast í því að gera gott samfélag betra. Þar verður alltaf af nógu að taka – bæði til að viðhalda og styrkja innviðina og bæta kjörin, ekki hvað síst þeirra sem minnst hafa.

Góðir landsmenn.
Þjóðhátíðardagurinn 17. júní skipar margs konar sess í hugum okkar. Hann er dagur til að gleðjast yfir því sem vel hefur tekist við uppbyggingu samfélagsins, dagur til að minnast þeirra brautryðjenda sem fyrr á tíð skópu framtíð þjóðarinnar með baráttu sinni og dagur til að virkja samtakamátt okkar og setja markið enn hærra en áður til heilla fyrir framtíðarkynslóðir landsins.

Íslendingar hafa þegar náð árangri sem hlýtur að teljast  merkilegur. Það er nánast sama um hvaða svið er að ræða, hvort sem það er keppni í íþróttum, listir eða vísindi, okkar litla samfélag á fjölda fulltrúa sem skara fram úr á heimsvísu. Og það er mikilvægt að muna að við getum nýtt sama drifkraft til framfara innanlands.

Á Íslandi hefur okkur auðnast að taka stórar ákvarðanir og fara nýjar leiðir, jafnvel þegar við höfum ekki haft mörg - og stundum engin - fordæmi til að styðjast við. Íslendingar hafa fyrir vikið verið í fararbroddi í mörgum framfaramálum.

Nú eru liðin hundrað ár frá því að íslenskar konur öðluðust rétt  til að kjósa í alþingiskosningum.

Þessum 100 ára áfanga verður sérstaklega fagnað þann 19. júní - eftir tvo daga - með margvíslegum hætti víða um land, hátíðahöldum og  viðburðum þar sem menningararfi þjóðarinnar verður gerð skil.

Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir hafa tekið vel í þá hvatningu ríkisstjórnarinnar að starfsmenn fái eftir því sem kostur er frí frá  hádegi  á föstudaginn í tilefni þessa merka dags.

Það er vert að minnast þess að árið 1915 fengu ekki aðeins konur kosningarétt í alþingiskosningum heldur einnig verkamenn og verr stæðir karlmenn sem ekki höfðu haft kosningarétt fram að því.

Þá var fyrst fært í lög á Íslandi að kosningaréttur skyldi vera almennur og miðaður við ákveðinn aldur, þó enn væru undanskildir þeir sem skulduðu sveitarstyrk. Þessi tímamót mörkuðu afar mikilvægt skref í lýðræðisþróun samfélagsins og í þeirri mikilvægu hugsjón að á Íslandi skuli allir þegnar samfélagsins njóta jafnra réttinda.

Við munum áfram vinna að auknu jafnrétti og jafnræði í íslensku samfélagi en í þeirri vinnu er mikilvægt að minnast þess árangurs sem þegar hefur náðst og láta hann verða hvatningu til að gera enn betur.

Ísland hefur um langt árabil verið leiðandi í jafnréttismálum og undanfarin sex ár hefur landið skipað efsta sæti lista árlegrar skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins um kynjajafnrétti. Sá listi og annar alþjóðlegur samanburður staðfestir þann góða árangur sem náðst hefur á sviði jafnréttismála á liðnum árum.

Það er afar ánægjulegt og við eigum að vera stolt af því. Við höfum mikið fram að færa á þessu sviði á heimsvísu og eigum að styðja við jafnréttisverkefni í öðrum heimshlutum. 

En okkur hefur ekki aðeins miðað áfram í jafnrétti kynjanna.

Við höfum náð árangri á ótal sviðum við að auka jöfnuð og jafnrétti í samfélaginu. Á meðan aðrar þjóðir standa frammi fyrir verulega aukinni misskiptingu hefur efnahagslegur jöfnuður verið að aukast á Íslandi.

Fyrir fáeinum dögum birtust niðurstöður alþjóðlegs samanburðar sem sýnir að tekjujöfnuður hefur aldrei verið jafnmikill á Íslandi og nú. Misskipting hefur aldrei verið minni, en auk þess er hlutfall fátæktar lægst hér og hefur aldrei verið lægra.

Það ættum við að líta á sem góða hvatningu til að gera enn betur.

Góðir landsmenn.
Ég minntist á að Sameinuðu þjóðirnar telji Íslendinga hafa fleiri tilefni til að vera hamingjusamir en nánast allar aðrar þjóðir heims. Raunar er bara eitt land annað sem telst búa við jafn mikil lífsgæði og Íslendingar. En hvað finnst okkur sjálfum?

Stundum virðist sem fremur sé lögð áhersla á  hið neikvæða en að meta það sem vel hefur reynst og nýta þann árangur til að gera enn betur. Við getum vissulega gert betur á mörgum sviðum en besta leiðin til þess er sú að meta það sem vel hefur reynst og gera enn meira af því en minna af hinu.

Við eigum líka að leyfa okkur að gleðjast yfir því góða á hátíðlegri stund eins og þessari og láta gleðina veita okkur hvatningu til áframhaldandi framfara.

Við vitum auðvitað öll að raunveruleg hamingja verður aldrei mæld í tölum. En samt er rétt að minnast þess gamla vísdóms að glöggt er gests augað. Þessi samanburður segir okkur að hér á landi séu rík tilefni til hamingju. Það er svo okkar að nálgast þau með opnum huga, sjá þau og nýta.

Eins og ég hef rakið hefur Ísland spjarað sig vel frá því að landið varð sjálfstætt og fullvalda ríki. Það er ánægjulegt að sjá að Danir hafa líka spjarað sig ljómandi vel eftir aðskilnaðinn, en Danmörk fylgir raunar næst á eftir Íslandi á hamingjulista Sameinuðu þjóðanna.

Á morgun fara fram kosningar í Danmörku. Þegar forsætisráðherra landsins boðaði til kosninga hafði hann á orði að Danmörk væri besta land í heimi. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar gerði engan ágreining um það. Danmörk væri svo sannarlega besta land í heimi ... en það gæti orðið enn betra.

Í heildarsamhengi hlutanna hljótum við Íslendingar að geta verið sammála um að Ísland sé að minnsta kosti nokkuð gott land og líklega bara mjög gott land ... þótt það geti vissulega orðið enn betra.

Góðir Íslendingar, kæru  þjóðhátíðargestir.
Þjóðhátíðardagurinn minnir okkur á að við eigum öll að minnsta kosti eitt sameiginlegt: Við viljum öll bæta landið okkar, bæta samfélagið og búa framtíðarkynslóðum örugga framtíð í góðu landi. Hvort sem við lifum og störfum í höfuðborginni, ræktum landið, sækjum sjóinn, tökum á móti ferðamönnum eða sinnum öðrum störfum þá erum við öll að vinna í þágu samfélagsins. Árangur okkar byggist á því að við skiptum með okkur verkum en vinnum þó öll saman. 

Þessi dagur minnir okkur því fyrst og síðast á þá sameiginlegu skyldu okkar og hugsjón sem þjóð, að standa vörð um árangur fyrri kynslóða sem við njótum í dag, og að skila komandi kynslóðum enn betra samfélagi, svo gott verði að búa á Íslandi til framtíðar.

17. júní er dagur til að gleðjast, dagur til að efla samheldni okkar, dagur til að minnast hins liðna og dagur til að minna okkur á hvers við erum megnug og búa okkur undir að sækja fram.

Daginn sem íslenskar konur og verkamenn fengu kosningarétt árið 1915 gerðist fleira sögulegt. Þann sama dag fengum við Íslendingar eigin þjóðfána. Fánann sem við flöggum stolt á þessum degi um land allt.

Það er vel við hæfi að þetta hafi gerst sama dag. Fáninn táknar náttúru landsins og trúna og menningararfinn en hann er líka merki frelsis, lýðræðis og jafnræðis.

Á hundrað ára afmælisári þjóðfánans taka gildi ný lög um notkun fánans. Við skulum temja okkur að nota þennan fallega fána meira en um leið vinna áfram að meira jafnrétti, meira lýðræði og meiri framförum. Meira af því sem á að gera okkur stolt á þessum degi og alla aðra daga, meira af því sem gerir okkur stolt af Íslandi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum