Hoppa yfir valmynd
31. desember 2015 ForsætisráðuneytiðSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra 2013-2016

Áramótaávarp forsætisráðherra 2015

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra flytur áramótaávarp - mynd

Góðir landsmenn – Gleðilega hátíð.

Á Íslandi setur veðurfar oft mark sitt á hátíðarhöld um jól og áramót. Veður hafa verið válynd nú við árslok og á undanförnum dögum hafa íbúar Austurlands tekist á við óvenju mikinn skaðræðisstorm. Veðrið olli umtalsverðu tjóni, meðal annars á heimilum, fyrirtækjum og menningarminjum í hinum gömlu bæjum Austfjarða. Ég sendi ykkur sem hafið mátt þola þessar hamfarir góðar kveðjur og fyrirheit um að stjórnvöld muni vinna með ykkur að þeirri uppbyggingu sem í hönd fer við upphaf nýs árs.

Enn á ný hefur það sýnt sig hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að hafa á að skipa einstaklega hugrökku, fórnfúsu og færu björgunarsveitafólki. Íslendingar eru stoltir af björgunarsveitunum og öllu því dugmikla og úrræðagóða fólki sem vinnur að því að verja samfélag okkar á ýmsan hátt. Þegar við fögnum áramótum með því að skjóta upp flugeldum í kvöld erum við um leið að færa þakkir fyrir þetta ómetanlega starf.

Við áramót verður okkur hugsað til þeirra sem hafa átt við erfiðleika að stríða á liðnu ári og við vonum að þau tækifæri sem nýtt ár skapar muni reynast þeim vel. En þá er líka mikilvægt að minnast þess góða og láta það verða hvatningu til áframhaldandi framfara.

Árið 2015 reyndist farsælt fyrir íslensku þjóðina. Flest hefur gengið okkur í hag undanfarin misseri og betur en víðast hvar annars staðar. Á mörgum sviðum, frá íþróttum að vísindum, stóðu fulltrúar okkar Íslendinga sig framúrskarandi vel á liðnu ári.

Hagsæld jókst til mikilla muna á árinu. Kaupmáttur – það sem landsmenn fá fyrir launin sín –hefur nú aukist um 13% á 30 mánuðum. Fáheyrt, nánast óþekkt, er að hagur fólks vænkist það hratt.

Enn merkilegra er að á tímum mikils hagvaxtar hefur jöfnuður áfram aukist. Þannig hafa laun verkafólks hækkað hlutfallslega meira en laun stjórnenda, laun kvenna hækkað hlutfallslega meira en laun karla og kaupmáttur lífeyrisgreiðslna og bóta aukist meira en kaupmáttur launa á tímabilinu.

Vel hefur tekist til með stór mál. Stutt er síðan skuldavandi stóð efnahagslegri framtíð landsins fyrir þrifum en nú hefur skuldahlutfall heimilanna lækkað það mikið og hratt að skuldir íslenskra heimila eru orðnar hlutfallslega lægri en í mörgum nágrannalöndum okkar.

Uppgjör slitabúa bankanna og losun fjármagnshafta gerbreyta efnahagslegri stöðu okkar og möguleikum til framtíðar. Vegna stöðugleikaframlaga og þess trúverðugleika sem áætlun um losun hafta hefur skapað má gera ráð fyrir að hrein skuldastaða Íslands gagnvart útlöndum fari úr því að vera hættulega neikvæð í að vera jákvæð á fáeinum árum. Þessi staða þjóðarbúsins verður þá orðin sú besta í hálfa öld. Það er ótrúlegur viðsnúningur á skömmum tíma og að mati erlendra fjölmiðla sem skrifað hafa um haftalosunina, algjörlega einstakt.

Þetta þýðir að við verðum í aðstöðu til að gera betur á komandi árum á öllum þeim sviðum sem skipta okkur mestu máli. Ef við höldum okkar striki og sameinumst um að verja efnahagslegan stöðugleika og skynsamlega uppbyggingu munum við geta haldið áfram að bæta heilbrigðiskerfið, styrkja innviðina um allt land og bæta kjör allra hópa samfélagsins.

Á nýju ári ræðst hvort okkur auðnast að byggja áfram upp á grunni þess árangurs sem þegar hefur náðst. Til þess að svo megi verða munum við þurfa samstöðu um að halda áfram á þeirri braut sem hefur reynst okkur svo vel. Hluti af því er að við viðurkennum árangurinn og látum hann þannig verða okkur að hvatningu.

Okkur gengur vel í samanburði við aðrar þjóðir og í samanburði við aðra tíma í sögu okkar. En um leið fylgjumst við með erfiðleikum annarra og viljum láta gott af okkur leiða sem víðast. Því meiri árangri sem við náum heimafyrir þeim mun betur getum við hjálpað öðrum.

En erum við að nýta þá hvatningu sem felst í árangrinum, og kunnum við að meta lífsgæði okkar hér á Íslandi og það hvað við erum lánsöm í samanburði við aðrar þjóðir?

Okkur Íslendingum hefur í gegnum tíðina líkað ágætlega við þá ímynd sem þjóðin hefur áunnið sér. Við höfum verið þekkt fyrir dugnað, þrautseigju og þolgæði. Íslendingar hafa verið taldir úrræðagóðir á raunastund, yfirvegaðir og færir um að bera harm sinn í hljóði og gefast aldrei upp.

Þessi ímynd varð áreiðanlega ekki til af ástæðulausu enda er ótrúlegt hvaða árangri Íslendingar hafa náð í þessu landi við erfiðar aðstæður um aldir. En eigum við skilið að halda þessari ímynd ef við ekki aðeins börmum okkur meira yfir áskorunum en áður heldur börmum okkur líka þegar vel gengur?

Hvað sem ímynd líður er hollt að minnast þess hugarfars sem gerði þjóðinni okkar kleift að þrauka við kröpp kjör um aldir og að nýta tækifærin þegar þau gáfust. Vinnusemi, áræðni, samkennd og trúin á framtíðina hafa sannarlega fleytt okkur langt.

Að undanförnu hefur það tekist, sem fátítt er, að bæta kjör allra hópa og auka jöfnuð samhliða miklum hagvexti. Okkur gengur vel á alla efnahagslega mælikvarða. Við stöndumst ekki bara samanburð við önnur Evrópulönd, við höfum tekist á við vandamálin og nýtt tækifærin að því marki að við höfum náð efstu sætum meðal vestrænna þjóða í aukningu verðmætasköpunar, atvinnuþátttöku, kjarabótum og öðrum lífsgæðum. Þegar samfélagi hefur tekist að ná slíkum árangri, árangri sem er um margt einstakur, þá er mikilvægt að sýna þolgæði og festu.

Þegar fólk upplifir velgengni og framfarir -og árangur næst á mörgum sviðum- dregur það athyglina að undantekningunum. Þegar nást óvenju miklar kjarabætur beinist athyglin að stöðu þeirra sem búa við lök kjör miklu frekar en á þeim tímum þegar margir búa við kröpp kjör og atvinnuleysi eykst.

Þegar hlutfall fólks sem býr við fátækt lækkar, verður jafnvel lægra en nokkru sinni fyrr, dregur það athyglina enn frekar að þeim sem ekki hafa komist úr fátækt.

En þegar það er árangurinn sem beinir athyglinni að undantekningunum væri synd að líta á undantekningarnar sem réttlætingu fyrir því að umbylta öllu, telja allt vonlaust og ætla að byrja frá grunni, gera eitthvað allt annað.

Þegar gengur vel, mjög vel, gefast menn ekki upp og segja að fyrst ekki sé búið að ná fullkomnun sé betra að gera enn eina tilraun með einhverja hugmyndafræði sem lofar fullkomnu samfélagi. Slíkt hefur alltaf endað illa.

Þvert á móti, við eigum að láta árangurinn verða okkur hvatningu til að gera enn betur. Hvatningu til að leysa enn fleiri mál farsællega. Annars vegar vegna þess að árangurinn sýnir okkur að það er hægt að gera betur og hins vegar vegna þess að sá árangur sem við höfum þegar náð gerir áframhaldandi árangur auðveldari.

Staða okkar nú er nefnilega ekki sjálfgefin, því fer fjarri eins og að minnsta kosti sex milljarðar jarðarbúa gætu sagt okkur. Erfiðleikar sem virðast nú fjarri okkur eru ekki svo fjarlægir í raun og gæði sem okkur hættir til að líta á sem sjálfgefin eru aðeins til komin vegna hugarfars, atorkusemi og skynsamlegra ákvarðana fyrr og nú.

Þegar samfélagið er á leið sem kemur því hraðar í rétta átt en nokkur önnur, leið sem virkar að því marki að það er um margt einstakt, þá höldum við áfram á þeirri leið en beygjum ekki inn í óvissuna.

Írski heimspekingurinn, Edmund Burke, einn mesti stjórnspekingur í sögu Evrópu benti á, þegar á 18. öld, að almennt væri það á tímum góðæris sem í ljós kæmi hið raunverulega geð, prinsipp og eðli mannanna.

Ég nefni þetta vegna þess að á nýju ári þurfum við að sanna að við getum þolað góða tíma og unnið vel úr þeim. Við þurfum að vinna saman að áframhaldandi kjarabótum, ekki hvað síst fyrir þá tekjulægri, eldri borgara og þá sem þurfa að reiða sig á almannatryggingar. Við þurfum líka að sammælast um að halda áfram að innleiða hvata til vinnu og verðmætasköpunar.

Fjárfesting og uppbygging sem ráðist verður í þarf að vera til þess fallin að skapa verðmæti til framtíðar. Í ferðaþjónustu, þar sem mikið er um að vera þessa dagana og mörg verkefni í bígerð, þarf uppbyggingin að vera til þess fallin að styrkja Ísland sem áfangastað til langs tíma fremur en að miða að sem mestum skammtímahagnaði.

Þar skiptir máli að við gerum hið manngerða umhverfi, bæina og sveitirnar, sífellt meira aðlaðandi og að við byggjum í auknum mæli á þeirri auðlind sem liggur í menningu okkar og sögu. Það á ekki hvað síst við um arfleifð víkingatímans sem að miklu leyti var mótuð á Íslandi og gæti ein og sér nægt til að gera landið að áfangastað ferðamanna til framtíðar.

Það helst svo í hendur að á sama tíma og við gerum sögu okkar og menningu hátt undir höfði blómstra nýsköpun, vísindi og rannsóknarstarf á Íslandi sem aldrei fyrr og við upplifum framfarir og nýjungar á ótal sviðum.

Samfélag okkar virkar vel og í krafti þess getum við haldið áfram að bæta það. Mestu hætturnar sem við stöndum frammi fyrir eru kæruleysi, það að við lítum á árangurinn sem sjálfgefinn, og neikvæðni.

Látum engan telja okkur trú um að ísland sé vonlaust og hér þurfi að snúa öllu á hvolf. Edmund Burke, sem ég vísaði til áðan, benti á að það væri algeng villa að ímynda sér að þeir sem kvarta hæst í nafni almennings séu þeir sem láta sig hag almennings mestu varða.

Margt má betur fara og mun færast til betri vegar ef við vinnum að því í sameiningu og af skynsemi. Óvenjuleg vandamál geta kallað á óvenjulegar lausnir. Við höfum séð nokkur dæmi um það á undanförnum misserum. Önnur vandamál eru þekkt og lausnirnar líka. Þá beitum við þeim leiðum sem gefið hafa góða raun og bætum þær jafnvel í leiðinni.

Framfarir byggjast á því að kunna að meta það sem gefst vel og læra af mistökunum og gera svo meira af því sem virkar og minna af hinu.

Ef okkur auðnast að fylgja þeirri leið á nýju ári getur árið 2016 orðið enn betra en árið sem nú er að ljúka. Framfarir munu þá halda þá áfram, og undantekningunum mun áfram fækka og þær sem eftir standa verða viðráðanlegri.

Við erum gæfurík þjóð í góðu landi. Við höfum náð árangri með þrautseigju og skynsemi að leiðarljósi. Þótt veður séu válynd er bjart yfir landinu okkar við þessi áramót.

Ég þakka samfylgdina á árinu sem er að ljúka og óska landsmönnum öllum farsældar á nýju ári. Gleðilegt ár.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum