Hoppa yfir valmynd
19. júní 2017 ForsætisráðuneytiðBjarni Benediktsson, forsætisráðherra 2017

Ávarp forsætisráðherra við úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs 19. júní 2017

Innilega til hamingju með daginn!
Í dag verður úthlutað styrkjum úr Jafnréttissjóði Íslands í annað sinn. Sjóðurinn var stofnaður með ákvörðun Alþingis 19. júní 2015 þegar 100 ár voru frá því að íslenskar konur hlutu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þessum tímamótum var fagnað með myndarlegum hætti og ég vil nýta þetta tækifæri til að þakka Alþingi, nefnd um 100 ára kosningaréttarafmælið, kvennahreyfingunni og Háskóla Íslands fyrir þeirra framlag til afmælisársins. Við megum vera stolt af því hvernig til tókst.

Konur 40 ára og eldri hlutu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis með stjórnarskrárbreytingu sem samþykkt var 19. júní 1915.  Vegna þessa séríslenska aldursákvæðis í lögunum náði þessi réttur einungis til 59% kvenna. Jafnan kosningarétt á við karla fengu konur ekki fyrr en við stjórnarskrárbreytingarnar 1920, og þá að kröfu Dana. Ártölin 1915 og 1920 voru því mikilvægir áfangar í átt til jafnrar þátttöku kynjanna í lýðræðissamfélagi. Almennur kosningaréttur og jafnt kjörgengi er í dag sjálfsagður hluti af lýðræðisvitund þjóðarinnar því að í þeim felast þau grundvallarmannréttindi að geta haft áhrif.

Það er mikilvægt að halda á lofti helstu vörðunum í jafnréttissögu landsins og styrkja rannsókna- og fræðsluverkefni sem miðla þekkingu á lýðræðisþróun og baráttunni fyrir auknum borgara- og stjórnmálaréttindum. Við eigum og þurfum að kortleggja þátttöku kvenna í stjórnmálum og greina þá áhrifaþætti sem skýrt geta þá kynjaskekkju sem hefur verið áberandi á vettvangi stjórnmálanna. Þekking er undirstaða þess að við getum skilgreint og framkvæmt þau nauðsynlegu verkefni sem miða að réttlátara samfélagi. Jafnréttissjóður Íslands þjónar meðal annars þeim tilgangi að tryggja uppsprettu nýrra hugmynda og miðlun þekkingar á sviði kynjarannsókna. 

Í dag er okkur ofarlega í huga að flytja öllum þeim sem hafa rutt brautina fyrir kynjajafnrétti þakkir og minnast verka þeirra í þágu þeirra miklu framfara sem við Íslendingar höfum upplifað á skömmum tíma. Framfarir sem við sem þjóð vinnum að í sameiningu og byggjast á dugnaði, þekkingu og hugviti og ekki síst því að einstaklingar og hópar eins og kvennahreyfingin hafi haft þann kjark sem þurfti til að byggja upp samfélag jafnréttis og lýðræðis.

Það er líka ánægjulegt að sjá nýja kynslóð koma fram sem ætlar sér að halda merki jafnréttisbaráttunnar á lofti og gerir það með sínum eigin hætti. Sterkar og góðar fyrirmyndir skipta líka máli og mig langar sérstaklega til að nefna allar þær frábæru íþróttakonur sem við eigum og hafa á alþjóðavettvangi gert orðið dóttir að samheiti fyrir konur sem láta ekkert stöðva sig.

Við eigum að setja okkur háleit markmið og vinna í sameiningu að framförum á sviði jafnréttismála, af þeirri augljósu ástæðu að jafnrétti er grundvöllur lýðræðis og mannréttinda,  – en einnig vegna þess að við eigum að fjárfesta í mannauði kvenna og karla sem best við getum.

Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á jafnréttismál og starfar samkvæmt stefnuyfirlýsingu sinni að jafnréttismálum í víðum skilningi á ólíkum sviðum. Þar segir meðal annars að Ísland eigi að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar. Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum mynda þar sterkan grunn. Til að mæta þessu markmiði er lögð rík áhersla á að frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna annars vegar og hins vegar um jafna meðferð á vinnumarkaði nái fram að ganga. Um er að ræða löggjöf sem byggist á mismununartilskipunum Evrópusambandsins enda er mikilvægt að Íslands fari að fordæmi annarra Norðurlandaþjóða og flestra Evrópuríkja og setji sérstök lög sem banni mismunun. 

Stjórnarsáttmálinn segir einnig að jafnrétti á vinnumarkaði vegi þungt og var lögð á það rík áhersla að Alþingi samþykkti stjórnarfrumvarp um breytingu á jafnréttislögum sem lögfesti jafnlaunavottun. Sá áfangi náðist á síðustu dögum vorþingsins.

Þótt Ísland standi öðrum ríkjum framar um stöðu og þróun kynjajafnréttis hefur ekki náðst jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins. Á það ekki síst við um vinnumarkaðinn, en fjöldi kannana og rannsókna sýnir fram á viðvarandi kynbundinn launamun, sem almennt er konum í óhag. Þrátt fyrir skýran vilja löggjafans allt frá setningu laga um launajöfnuð kynjanna frá 1961, almenn jafnréttislög sem fyrst voru sett 1976, skuldbindingar stjórnvalda á grundvelli alþjóðlegra sáttmála og margvíslegar aðgerðir stjórnvalda til að stuðla að jafnrétti hefur ekki tekist að útrýma kynbundnum launamun hér á landi.

Þess vegna er það okkar mat að nauðsynlegt hafi verið að stuðla að launajafnrétti kynjanna með lagasetningu um jafnlaunavottun á grundvelli jafnlaunastaðalsins. Ekki verður séð að með lögfestingu skyldu til jafnlaunavottunar sé gengið lengra en nauðsynlegt er til að ná fram lögmætum markmiðum stjórnvalda. Sú staðreynd að enn hafi ekki tekist að útrýma þessum launamun er óþolandi og það er á ábyrgð okkar sem störfum á sviði stjórnmálanna að leita allra leiða til að ná þessu sjálfsagða markmiði.

Barátta fyrir jafnrétti kemur körlum ekki síður við en konum, enda snýst hún um stöðu fjölskyldna, aðstæður foreldra til að samhæfa fjölskyldu- og atvinnulíf, verkaskiptingu á heimilum, uppeldi barna, kynjahlutverk og staðalmyndir. Sú staðreynd að enn hallar á konur hvað varðar völd, áhrifastöður og laun, hefur neikvæð áhrif á stöðu kvenna og karla. 

Kynjajafnrétti verður aðeins náð með aðgerðum sem eru jákvæð fyrir bæði kynin. Stefnumótun á sviði jafnréttismála hefur góð áhrif á bæði kynin en eitt nærtækasta dæmið hvað varðar stöðu karla eru áhrif fæðingarorlofslaganna. Enn tekur mikill meirihluti nýbakaðra feðra á innlendum vinnumarkaði fæðingarorlof og nýlegar rannsóknir sýna að hlutdeild feðra í umönnun ungra barna hefur aukist verulega frá því að lögin tóku gildi –  lögin höfðu einnig mikil áhrif til að fá karla og konur til að átta sig betur á hve gjöfult og mikilvægt föðurhlutverkið er, hve brýnt það er að báðir foreldrar séu góðar fyrirmyndir fyrir börn sín og að þeir séu jafningjar í öllu tilliti. Þá sýna rannsóknir einnig að hugmyndir ungmenna um karlmennsku og kvenleika hafa tekið breytingum síðan lögin komu fyrst til framkvæmda. 

Það er mér mikill heiður að vera einn af tíu þjóðarleiðtogum sem leiða verkefni UN Women um HeforShe en verkefnið mun vonandi ekki síður hafa áhrif hér heima en utan landssteinanna. Skuldbindingar okkar beinast að því að sýna gott fordæmi þegar kemur að baráttunni fyrir launajafnrétti, auknu jafnrétti í fjölmiðlum og benda á leiðir sem fjölgað gætu þeim karlmönnum sem láta sig jafnréttismál varða. Þannig höfum við sett okkur það markmið að einn af hverjum fimm íslenskum karlmönnum gangi til liðs við átakið HeforShe. Stjórnvöld hafa staðið fyrir rakarastofuráðstefnum hjá alþjóðastofnunum með mjög góðum árangri og eru nokkrar ráðstefnur fyrirhugaðar á þessu ári og því næsta. Í mars síðastliðnum afhenti ég framkvæmdastjóra UN Women verkfærakistu sem þróuð var í utanríkisráðuneytinu og hefur að markmiði að aðstoða aðra við að skipuleggja jafnréttisviðburði sem ná til karla og drengja.

Ég er sannfærður um að okkur miðar áfram en ég veit líka að það er mikilvægt að missa aldrei sjónar á markmiðinu. Við þurfum að vera vakandi fyrir því að það er ástæða fyrir því að orðasambandið „rótgróin viðhorf“ er til og gera okkar til að uppræta þau. Jöfn réttindi, jöfn tækifæri og jöfn staða kynjanna er það sem við viljum og munum ekki gefa neinn afslátt af.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira