Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2022 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Traust tök - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunblaðinu 11. ágúst 2022

Enginn getur efast um þá staðreynd að staða efnahagsmála um þessar mundir er snúin. Við erum nýkomin út úr heimsfaraldri þar sem stjórnvöld gripu til stórfelldra efnahagsaðgerða til að standa með almenningi og atvinnulífi. Þær aðgerðir báru góðan árangur. Við erum því um margt í góðri stöðu og vel í stakk búin til þess að takast á við nýjar áskoranir.

Reynsla síðustu tveggja ára sýnir okkur hversu árangursríkt það var að beita ríkisfjármálunum með skynsamlegum hætti til að verja störf og tryggja afkomu heimila og fyrirtækja. Þetta sjáum við meðal annars í því að störfum hefur fjölgað og atvinnuleysi minnkar hratt, kaupmáttur hefur styrkst, skuldastaðan er góð og fjárhagserfiðleikar og vanskil hafa til þessa ekki aukist.

Vegna vel heppnaðra aðgerða stjórnvalda var atvinnulífið allt í stakk búið til að taka hratt og örugglega við sér þegar sóttvarnaráðstafanir voru felldar niður. Nýleg þjóðhagsspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði ríflega 5%. Viðspyrna ferðaþjónustunnar hefur verið öflug og veruleg stígandi hefur verið í komum erlendra ferðamanna það sem af er ári. Útlit er fyrir að komur erlendra ferðamanna í ár fari fram úr bjartsýnustu spám.

Myndin er hins vegar ekki svo einföld að við séum komin fyrir vind. Innrás Rússa í Úkraínu í vor hefur haft víðtæk efnahagsleg áhrif og þau áþreifanlegustu hafa verið hækkun á orkuverði. Aðfangakeðjur heimsins eru enn ekki komnar í fyrra horf eftir faraldur og stríðið hefur þar líka áhrif. Þessi staða veldur því að verðbólga plagar nú samfélög vestan hafs og austan og hafa viðlíka verðbólgutölur ekki sést í lengri tíð.

Við þessar aðstæður skiptir máli að stjórnvöld og Seðlabankinn séu samstillt og ríkisfjármálin og peningamálastefnan vinni í sömu átt til að auka ekki frekar á vandann. Við vitum líka að það er nauðsynlegt að horfa ekki bara á hinar stóru hagtölur sem gefa okkur almennar vísbendingar um þróunina, heldur þarf að rýna í stöðu og áhrif á mismunandi hópa og möguleika þeirra til þess að bregðast við. Það skiptir máli að stuðningur stjórnvalda beinist að þeim sem finna mest fyrir áhrifum stöðunnar nú og eiga erfiðast með að mæta henni.

Stjórnvöld brugðust strax í vor við aukinni dýrtíð með því að grípa til markvissra aðgerða til að verja hin tekjulægstu. Greiðslur almannatrygginga voru hækkaðar á miðju ári, húsnæðisstuðningur var hækkaður og barnabótaauki greiddur út. Seðlabankinn hefur gripið til þess að hækka stýrivexti – en einnig sett ákveðnar hömlur á húsnæðismarkaðinn og beitt þannig þeim stjórntækjum sem bankinn hefur til að tryggja hér stöðugleika. Þá höfum við boðað ákveðnar aðhaldsaðgerðir á árinu 2023 sem fela í sér aukna tekjuöflun, aðhald í rekstri og frestun framkvæmda til að ríkisfjármálin styðji betur við peningastefnuna.

Á vettvangi þjóðhagsráðs hefur verið unnin veruleg vinna til að kortleggja hvað stjórnvöld geta gert til að bæta lífskjör almennings á þessum tímum. Þar ber húsnæðismálin hæst en við sjáum skýr merki um jákvæð áhrif af þeim félagslegu aðgerðum á sviði húsnæðismála sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum, m.a. verulegri fjölgun almennra íbúða sem auka húsnæðisöryggi og tryggja tekjulægri heimilum hóflegan húsnæðiskostnað. Sérstakur átakshópur þjóðhagsráðs lagði fram ítarlegar tillögur að umbótum í húsnæðismálum í vor en þar var lögð áhersla á aukið framboð á íbúðarhúsnæði, aukið húsnæðisöryggi, ekki síst þeirra sem eru á leigumarkaði, og endurbættan húsnæðisstuðning.

Vinna er nú í fullum gangi við að koma þessum tillögum í framkvæmd enda er öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði lykilþáttur í lífskjörum og velferð almennings. Mikilvægur áfangi til að ná þessum markmiðum var undirritun rammasamnings um húsnæðisuppbyggingu til næstu 10 ára en þetta samkomulag er nýlunda og snýst um að ríki og sveitarfélög leggi sameiginlega sitt af mörkum til að tryggja nægjanlegt framboð á húsnæði. Markmið samkomulagsins er að byggja 35.000 íbúðir fram til ársins 2032 til að mæta íbúðaþörf en lögð verður sérstök áhersla á uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði sem verði að jafnaði um 30% nýrra íbúða.

Þessar aðgerðir munu ekki aðeins auka húsnæðisöryggi heldur einnig draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði en húsnæðisverð er einn af þeim þáttum sem oft og tíðum hafa ýtt undir óstöðugleika í verðlagsmálum hér á landi. Því er til mikils að vinna í þessum efnum til að auka lífsgæði almennings og tryggja velferð og jöfnuð, bæði í upp- og niðursveiflum efnahagslífsins.

Þegar kemur að kjarasamningum skiptir að sjálfsögðu máli að stjórnvöld hugi að því sem þau geta gert til að bæta lífskjör fólksins í landinu. Samningar eru ekki gerðir í tómarúmi, heldur skiptir sú félagslega og efnahagslega umgjörð sem launafólk býr við máli þegar samið er um kaup og kjör. Hins vegar eru það fulltrúar launafólks og atvinnurekenda sem sitja við samningaborðið og hafa það verkefni að ná kjarasamningum. Ég hef fulla trú á því að þessir aðilar nái góðum samningum í vetur fyrir íslenskt samfélag og íslenskan almenning. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum