Hoppa yfir valmynd
31. október 2022 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Baráttan sem flytur fjöll - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunblaðinu 24. október 2022

Kvennafrídagurinn árið 1975 markaði tímamót í jafnréttisbaráttunni hér á landi. Konur voru orðnar langþreyttar á misrétti á öllum sviðum samfélagsins og því hversu hægt málin þokuðust í átt að jafnrétti. Með fáheyrðum samtakamætti fluttu þær fjöll, mynduðu samstöðu þvert á póltíska flokka, stétt og stöðu og vakti það heimsathygli þegar 90% íslenskra kvenna gengu út af vinnustöðum og heimilum 24. október 1975.

Á þessum degi flutti Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir baráttukona fyrir réttindum verkakvenna og síðar þingmaður ávarp og sagði að ástæðan fyrir þessari einstöku samstöðu væri „launamisrétti sem konur væru beittar og vanmat á störfum kvenna yfirleitt“.

Störf kvenna voru ekki metin til jafns við störf karla og nú, áratugum eftir að lög um launajafnrétti voru sett, sjáum við konur enn bera skarðan hlut frá borði þegar borin eru saman laun fyrir sömu og jafn verðmæt störf. Í launarannsókn Hagstofunnar fyrir árið 2019 mældist leiðréttur launamunur kynjanna 4,3%. Ef horft er til óleiðrétts launamunar er munurinn 13,9% konum í óhag en óleiðrétti launamunurinn skýrist að mestu leyti af kynjaskiptum vinnumarkaði og mismunandi verðmætamati starfa.

Verðmætamat starfa er ekki náttúrulögmál heldur er það mótað af áratuga- og aldagömlum viðhorfum í samfélaginu. Störf við umönnun, hjúkrun og kennslu á öllum skólastigum eru í sögulegu samhengi störf sem konur sinntu lengst af og gera víða enn í töluverðum mæli, inni á heimilum og án launa.

Heimsfaraldurinn setti þetta verðmætamat í nýtt samhengi þegar þær aðstæður sem sköpuðust í faraldrinum drógu veruleika starfsfólks við hjúkrun, umönnun og kennslu fram í dagsljósið. Á meðan margar starfsstéttir gátu unnið sína vinnu í öruggu umhverfi heimavinnunnar með aðstoð tækninnar þurfti fólk sem sinnti hinum hefðbundnu kvennastörfum að mæta á vinnustað og vera í miklum samskiptum við sjúklinga, aldraða, börn og ungmenni.

Það er löngu orðið tímabært að leita svara við spurningunni um hvers vegna hæfni, menntun og eiginleikar starfsfólks í þessum mikilvægu störfum hafi ekki verið metin að verðleikum og til jafns við eiginleika og hæfni sem krafist er vegna starfa í tæknigreinum og viðskiptum.

Aðgerðarhópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem ég skipaði nýverið er ætlað að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun kynjanna sem skýrist af kynjaskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Hópurinn vinnur nú að tilraunaverkefni með fjórum ríkisstofnunum þar sem verðmætamat starfa er tekið til skoðunar og þróaðar verða aðferðir sem styðja við jafnvirðisnálgun jafnréttislaga. Með verkefninu er sleginn nýr tónn í baráttu fyrir launajafnrétti og niðurstaðan mun vonandi skila okkur áfram í því verkefni að útrýma kynbundnum launamun.

Þó að mikill árangur hafi náðst í jafnréttisátt síðan konur lögðu niður störf árið 1975 þá lýkur baráttunni aldrei. Jafnrétti á vinnumarkaði snýst nefnilega ekki eingöngu um jöfn laun og kjör en undanfarin ár höfum við ítrekað verið minnt á að kynferðisofbeldi og kynferðisleg áreitni standa í vegi fyrir jafnrétti bæði í atvinnulífinu og annars staðar í samfélaginu.

Baráttan gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni skiptir öllu máli við að búa til samfélag jafnréttis og virðingar til hagsbóta fyrir okkur öll. Og enn og aftur sjáum við fjöll verða flutt af fólki sem leggur sig af heilum hug og miklum krafti fram í baráttunni fyrir betra samfélagi. Gleðilegan kvennafrídag!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum