Hoppa yfir valmynd
07. desember 2022 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Fullveldi í breyttum heimi - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunblaðinu 1. desember 2022

Þegar fagnað var stofnun fullveldis 1. desember 1918 voru aðstæður á Íslandi krefjandi. Spánska veikin geisaði enn, Kötlugos hófst í október og veturinn áður var svo kaldur að ástæða þótti til að nefna hann frostaveturinn mikla. Þessar hamfarir stöðvuðu þó ekki baráttuhug þjóðar sem horfði fram á veginn ráðandi eigin örlögum.

Háskóli Íslands var nýstofnaður og fljótlega var hafist handa við byggingu Landspítalans. Verkalýðshreyfingin og kvennahreyfingin börðust fyrir réttindum allra og breyttu þannig samfélaginu til góðs. Síðar meir litu almannatryggingakerfið og fæðingarorlofið dagsins ljós með það að markmiði að jafna kjör fólks og auka félagslega og efnahagslega velferð.

Þegar við fögnum því í dag að vera fullvalda þjóð er rétt að spyrja sig hvaða merkingu fullveldið hefur fyrir okkur sem búum á Íslandi í nútímanum. Líklega veltum við því sjaldnast fyrir okkur hversu miklum framförum fullveldið hefur skilað – hvernig aukin verðmæti og þekking hafa orðið til einmitt vegna þess að við ráðum okkur sjálf og teljum mikilvægt að eiga hér allt sem sjálfstæð þjóð þarfnast þó að við séum fámenn þjóð.

Á tímum þar sem eitt ríki ræðst á annað fullvalda ríki – eins og við sáum fyrr á þessu ári þegar Rússar réðust inn í Úkraínu – sjáum við hversu brothætt fullveldið getur reynst. Fyrir fáeinum árum þótti fremur hallærislegt þegar við þingmenn Vinstri-grænna ræddum fæðuöryggi og matvælaöryggi – nú eru þessi orð á allra vörum. Við sjáum mikilvægi þess að við verðum í auknum mæli sjálfum okkur nóg þegar kemur að matvælaframleiðslu og þar eru sóknarfæri fyrir samfélagið. Sem dæmi má nefna grænmetisrækt en nú eru upp undir 90% af því sem neytt er af einstökum grænmetistegundum flutt inn. Hér eru tækifæri í að gera betur. Sama má segja um kornrækt þar sem tækifærin eru mikil og mikilvægt að verða óháðari brothættum aðfangakeðjum í innflutningi.

Orkukreppan í Evrópu hefur ekki snert Íslendinga á sama hátt og nágrannaþjóðir okkar. Húsin eru heit og öll rafmagnstæki í gangi. Þegar ríkisstjórnin kynnti fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina í loftslagsmálum bentum við einmitt á það að fyrir utan hin augljósu markmið að draga úr losun og leggja þannig okkar lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftslagsvána fælust líka tækifæri í því að nýta innlenda orku og verða óháðari innfluttu jarðefnaeldsneyti. Þannig erum við um leið óháðari öðrum um mikilvæga þætti daglegs lífs.

Á vettvangi þjóðaröryggisráðs höfum við beint sjónum að netöryggi og fjarskiptum. Þetta snýst um stafrænt fullveldi okkar: að við séum sjálfbjarga um hina stafrænu innviði, varaleiðir og þrautavaraleiðir séu til staðar ef eitthvað kemur upp á og gangvirki samfélagsins verði þannig varið. Undirbúningur að lagningu þriðja sæstrengsins til Íslands, Írisar, hófst 2019 og er nú á lokametrunum en með Írisi eykst fjarskiptaöryggi hér á landi tífalt. Hér er um mikilvæga innviði að ræða sem stjórnvöld hafa lagt síaukna áherslu á á undanförnum árum.

Til þess að fullveldið haldi áfram að færa okkur aukin lífsgæði og verðmæti verðum við að tryggja innviðina og að þeir mæti kröfum síbreytilegs samfélags. Við megum þó ekki heldur gleyma því sem gerir okkur að þjóð. Land, þjóð og tunga er sú þrenning sem við hugsum gjarnan um þegar rætt er um fullveldi.

Þegar rætt er um nýtingu orku til að tryggja orkuöryggi megum við samt ekki falla í þá gryfju að fórna íslenskri náttúru. Þar verður skynsemin að ráða för. Við eigum einstök verðmæti í ósnortinni íslenskri náttúru sem skiptir ekki aðeins okkur sjálf máli heldur heiminn allan. Því skiptir máli að vanda sérhverja ákvörðun á þessu sviði og gæta að viðkvæmu jafnvægi náttúru og nýtingar.

Þegar kemur að tungumálinu stöndum við einnig frammi fyrir miklum áskorunum. Þrátt fyrir miklar fjárfestingar í máltækni á síðustu árum sem voru löngu tímabærar er áreiti enskrar tungu svo yfirþyrmandi að við sjáum börn og ungmenni leika sér saman á ensku – þó að móðurmálið sé íslenska. Ráðherranefnd um íslenska tungu fundaði í fyrsta sinn í vikunni og þar verða verkefnin stór og mikilvæg. Aukin íslenskukennsla fyrir öll þau sem hafa íslensku sem annað mál, aukin áhersla á að skapa efni á íslensku og auknar kröfur til allra í samfélaginu um að nýta íslensku á öllum sviðum eru dæmi um brýn verkefni. Rétt eins og náttúran er íslensk tunga ekki aðeins okkar auður heldur menningarauðlegð fyrir heiminn allan.

Þessi dæmi sýna öll að fullveldið er ekki sjálfgefið þó að við höfum notið þess í 104 ár. Vakin og sofin eigum við öll að standa vörð um fullveldið því að úr því hefur þjóðin sótt allan sinn kraft og hamingju. Sú vaka er ekki síst mikilvæg fyrir yngsta fólkið okkar og komandi kynslóðir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum