Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2023 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Ræða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við opnun Eddu - húss íslenskunnar, 19. apríl 2023

Forseti Íslands, ráðherrar og kæru gestir sem ég veit að bera allir hag tungumálsins okkar fyrir brjósti,

Þetta barn sem við tökum á móti í dag er sannarlega búið að dvelja lengi í móðurkviði og á að minnsta kosti níu mæður eins og guðinn Heimdallur mun hafa átt. Ég held að sonum mínum finnist ein kappnóg þegar sú er komin í ham; við getum öll ímyndað okkur hvernig líf brúarvarðar ásanna hefur verið.

En það er mörgum að þakka þegar kemur að sögu þessarar byggingar. Þegar ég horfi yfir salinn sé ég Björn Bjarnason sem skipaði nefnd árið 2000 til að móta tillögur um byggingu sem átti að hýsa stofnun Árna Magnússonar og fleiri háskólatengdar stofnanir sem fást við rannsóknir á íslenskri tungu og bókmenntum og vinna að viðgangi þeirra. Tómas Ingi Olrich tók við af Birni og næst kom svo Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Það var í hennar tíð var haldin samkeppni um hönnun þessa húss og voru niðurstöður hennar kynntar í ágúst 2008. Við munum líklega öll hvað gerðist skömmu síðar. Á einum af mínum fyrstu fundum sem mennta- og menningarmálaráðherra fékk ég kynningu á vinningstillögunni. Það liðu ár uns fé fannst í verkefnið – en síðasta vetur þeirrar ríkisstjórnar var kynnt sérstakt fjárfestingaátak þar sem ráðast átti í byggingu hússins. Og fyrir tíu árum var eitt síðasta verk mitt í starfi að taka skóflustungu að þessu húsi.

Síðan tóku við við hagræðingaraðgerðir og Húsi íslenskunnar var slegið á frest. Til varð brandarinn góði um holu íslenskra fræða því að Íslendingum finnst gaman að búa til brandara og einmitt þess vegna þurfum við þetta hús til að rannsaka íslenska tungu. En næsti menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, hóf á ný að safna liði og húsið komst aftur á dagskrá. Og þá tók Kristján Þór Júlíusson við og á eftir honum kom Lilja Alfreðsdóttir. Það var svo fyrir tveimur árum að forseti Íslands og núverandi menningar- og viðskiptaráðherra lögðum hornsteininn að húsinu og nú er hátíðleg stund runnin upp: Við vígjum Hús íslenskunnar.

Halldór Laxness orti í orðastað Bjarts í Sumarhúsum:

Því er mér síður svo stirt um stef
ég stæri mig lítt af því sem ég hef
því hvað er auður og afl og hús
ef engin jurt vex í þinni krús.

Á þessum gleðidegi þegar við fögnum nýju húsi íslenskunnar er gott að hafa í huga að eftir sem áður er húsið sjálft, þótt glæsilegt sé og fagurt, ekki aðalatriðið heldur fólkið sem þar mun eiga sumar sínar bestu stundir við rannsóknir, kennslu og nám. 

Auðurinn í mannfólkinu er mikilvægasti auðurinn. Eins auðurinn í mannlegu tungumáli, hugsunum mannanna, samtali mannanna, heilsum okkar og kveðjum, gleði okkar og sorgum sem við reynum stundum að fanga með orðum. Orðum sem ekki eru alltaf auðfundin en sem fólkið sem hér mun dvelja, þroskast og dafna mun hjálpa okkur að finna. 

Auðlegðin í manninum og máli hans er sú eina sanna jurt sem mun vaxa í krús þeirra sem hér munu rækta garð íslenskra fræða. Í þessu húsi munu kynslóðir ræðast við og auðga andann, ungt fólk mun kynnast íslenskum bókmenntum, íslenskri tungu og íslenskum menningararfi og heyja glímuna við tungumálið, búning hugsunarinnar sem mótar okkur og rammar inn alla tilvist okkar. 

En þjóðin mun líka eiga leið í þetta hús til að sjá íslensku handritin sem Árni Magnússon og fleiri björguðu frá glötun, handrit sem eru fyrst og fremst merkileg vegna þess að á þeim standa orð, íslensk orð sem víða um heim vekja athygli og aðdáun.

Ég á sjálf góðar minningar úr Árnagarði sem hýsti íslensk fræði áratugum saman og var upphaflega reist til að hýsa handritin. Í hverju húsi býr andi og ég á þá ósk heitasta að andinn í þessu húsi verði góður og verða allri þjóðinni mikilvægur styrkur þegar þörfin er mest. 

Júlíana Jónsdóttir skáldkona sem bjó síðustu ár sín vestanhafs orti um íslenska tungu svo að ég get ekki orðað það betur:

Lifi íslenska móðurmálið
á meðan stendur himinn blár,
hreint eins og gull og hart sem stálið
hljómi það skært um gjörvöll ár.

Megi ósk fyrstu konunnar sem sendi frá sér bók með eigin ljóðum verða árnaðarorðum fyrir þetta nýja hús. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum