Hoppa yfir valmynd
15. september 2023 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Árangur fyrir almenning - Grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunblaðinu 14. september 2023

Alþingi var sett í vikunni og fjármálaráðherra mælir fyrir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í dag. Í stefnuræðu minni í gær gerði ég efnahagsmál og kjarasamninga að sérstöku umtalsefni. Það hefur blásið á móti undanfarin misseri; fyrst í heimsfaraldri með tilheyrandi efnahagslegum afleiðingum og síðan í verðbólgu og vaxtahækkunum. Þjóðin hefur siglt mótbyrinn af staðfestu og reynst vandanum vaxin. Ríkisstjórnin hefur tekið forystu í þessum málum og gripið til aðgerða í ríkisfjármálum til að styðja við peningastefnuna.

Efnahagslegar vísbendingar vísa nú í rétta áttAfkoma ríkissjóðs hefur batnað langt umfram bjartsýnustu spár en gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs í ár verði um 100 milljörðum betri en áætlað var við samþykkt fjárlaga 2023 í lok síðasta árs. Þannig verði hann jákvæður um 50 milljarða, í stað þess að vera neikvæður um sömu fjárhæð. Undirliggjandi verðbólga stefnir nú niður á við og við munum sjá verðbólgumælingar ganga niður. Þetta mun skapa forsendur fyrir lækkun vaxta sem eru farnir að bíta verulega, bæði almenning og atvinnulíf.

Við höfum sýnt gott fordæmi með því að miða launahækkanir æðstu ráðamanna við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Við höfum varið kaupmátt öryrkja þannig að kaupmáttur þess hóps hefur ekki minnkað frá því sem var áður en verðbólgan fór af stað. Viðbótartekjuskattur verður lagður á fyrirtækin í landinu til að veita viðnám gegn þenslu og verðbólgu og fjármálaráðherra hefur kynnt umtalsvert aðhald í ríkisrekstri en áfram leggjum við áherslu á að verja grunnþjónustuna. Allar þessar aðgerðir og margar fleiri til styðja við okkar sameiginlega markmið um að ná niður verðbólgu og vöxtum.

Öruggt húsnæði og bætt kjör

Miklu mun skipta að aðilar vinnumarkaðarins fái ráðrúm til að ná saman um farsæla kjarasamninga til að tryggja að lífskjör hér á Íslandi verði áfram með því besta sem þekkist. Þar munu stjórnvöld hér eftir sem hingað til greiða fyrir samningum eins og hægt er. Miklu skiptir að áætlanir stjórnvalda í húsnæðismálum gangi eftir sem og þátttaka sveitarfélaganna í framkvæmd rammasamkomulags um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til að mæta fyrirsjáanlegri þörf allra hópa fyrir íbúðarhúsnæði. Í vor tilkynnti ríkisstjórnin um tvöföldun framlaga til að tryggja framboð af hagkvæmu húsnæði. Þessi aukning gerir það að verkum að unnt verður að byggja 2000 almennar íbúðir til langtímaleigu fyrir tekjulægri heimili á næstu tveimur árum í stað 1000. Þá verður unnið að bættri réttarstöðu leigjenda á grundvelli tillagna starfshóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins auk þess sem vinna stendur yfir við skoðun á beinum húsnæðisstuðningi við leigjendur og hvernig betur megi tryggja samræmi og sanngirni í honum. Öruggt húsnæði er lykill að lífsgæðum og þar mun ríkisstjórnin leggja sitt af mörkum. Frá upphafi hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á bætt kjör barnafjölskyldna. Úttekt á stöðu ungbarnafjölskyldna stendur nú yfir á vegum þjóðhagsráðs og verða niðurstöðurnar nýttar til að bæta kjör þeirra. Þegar hafa stór skref verið stigin til að efla barnabótakerfið og hefur foreldrum sem eiga rétt á barnabótum fjölgað um tíu þúsund á fimm árum.

Í forsætisráðuneytinu vinnum við nú að aðgerðaáætlun til að draga úr fátækt í kjölfar skýrslu sem ég lét vinna að beiðni Alþingis. Þar kom fram að dregið hefur úr fátækt á undanförnum tuttugu árum og staðan á Íslandi er með því besta sem þekkist. Það er gott að okkur hefur miðað áfram og það gefur okkur trú á verkefnin en það breytir því ekki að fátækt er enn til staðar og þar standa einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur verst. Við þurfum áfram að grípa til markvissra aðgerða á grundvelli greininga.

Árangur í baráttunni gegn fátækt er lykilatriði þegar horft er til almennrar velsældar. Heildarendurskoðun og umbætur á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga sem nú er unnið að í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu vegur þungt í þessu samhengi. Í vetur voru fyrstu skrefin tekin þegar 14 ára kyrrstaða í frítekjumarki vegna atvinnutekna hjá örorkulífeyrisþegum var rofin og upphæðin nær tvöfölduð. Á næstu árum verður nýtt kerfi með frekari umbótum innleitt í áföngum og þegar þessar breytingar hafa náð fram að ganga verða þær eitt stærsta skref sem lengi hefur verið tekið af hálfu Alþingis til að draga úr fátækt – og okkur öllum til sóma.

Sameiginleg markmið fyrir samfélagið

Núverandi ríkisstjórn er vissulega óvenjuleg vegna þess að það er sjaldgæft að ólíkir flokkar taki sig saman um að byggja brýr á milli gagnstæðra póla með velsæld fólksins í landinu að leiðarljósi. Öll slík verkefni byggja á því að skilgreina markmið sem eru samfélaginu til hagsbóta og finna svo leiðir að þeim – og það getur kallað á málamiðlanir um leiðina og hversu hratt markmiðum verður náð. Ríkisstjórnin hefur tekist á við mörg stór mál með þessum hætti með góðum árangri. Það stærsta án efa heimfaraldurinn en einnig má nefna breytingar á skattkerfinu, stuðning við kjarasamninga og kaupmáttaraukningu og fleira mætti telja.

Það eru mörg mikilvæg mál sem við þurfum að takast á við. Ég hef enn trú á að besta pólitíkin sé að vinna að sátt um lausnirnar frekar en pólitík sem snýst um að herða pólana og færa þá lengra í sundur. Og ég er viss um að við sem byggjum þetta land erum langflest sammála um það. Verkefnin fram undan eru skýr. Meginviðfangsefnið er að ná niður verðbólgu og vöxtum og byggja ofan á þann góða árangur sem náðst hefur í efnahags- og velferðarmálum þrátt fyrir áhlaup síðustu ára. Við erum á réttri leið og nú þarf að tryggja að batinn sem fram undan er skili sér inn í íslenskt samfélag og efnahagslíf.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum