Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Grundvallarmannréttindi allra - grein ráðherra um vímuefnamál og skaðaminnkun

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - mynd

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2018

Í maí 2014 samþykkti alþingi ályktun um að stefna í vímuefnamálum skyldi endurskoðuð með það að augnamiði að veita ætti neytendum vímuefna aðstoð og vernd og standa vörð um félagsleg réttindi þeirra og aðstandenda þeirra. Á grundvelli tillögu alþingis var unnin skýrsla um stefnumótun á þessu sviði. Í skýrslunni komu fram tillögur að aðgerðum í tólf liðum. Í fyrsta lagi voru lagðar til breytingar á lögum sem miða að því að draga úr refsinæmi vímuefnaneyslu, í öðru lagi tillögur um skaðaminnkandi aðgerðir, í þriðja lagi tillögur um eflingu meðferðarúrræða vegna vímuefnavanda og í fjórða lagi eru tillögur sem miða að því að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur í forvarnarstarfi undanfarin ár. Aðgerðirnar sem lagðar eru til heyra undir málefnasvið nokkurra ráðuneyta, meðal annars dómsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis.

Aðgerðir í anda skaðaminnkunar fela í sér viðurkenningu þess að fjöldi fólks heldur áfram að nota vímuefni þrátt fyrir forvarnir og aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir áframhaldandi notkun vímuefna. Skaðaminnkun gagnast fólki sem notar vímuefni, fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi notandans og samfélaginu í heild og áherslan er að fyrirbyggja skaða fremur en að fyrirbyggja sjálfa notkun vímuefnanna. Markmiðið er einnig að tryggja að fólk sem notar vímuefni njóti réttarins til bestu mögulegu heilsu miðað við aðstæður, og þar með góðrar heilbrigðisþjónustu, félagslegrar þjónustu og grundvallarmannréttinda.

Ég hef nú þegar sett af stað vinnu í heilbrigðisráðuneytinu við framkvæmd aðgerða sem lagðar voru til í fyrrnefndri skýrslu og lúta að skaðaminnkun. Undirbúningur að opnun neyslurýma fyrir langt leiddar vímuefnaneytendur er til dæmis hafin, en rökin fyrir sérstökum neyslurýmum byggjast á því að þeir sem eiga við mestan vímuefnavanda að etjastunda neyslu sína oft við hættulegar og heilsuspillandi aðstæður sem valda enn meiri skaða en ella og stuðla að veikindum og jafnvel dauða. Markmiðið er því fyrst og fremst að tryggja öryggi neytenda eins og kostur er. Þá er unnið að útfærslu á þeirri tillögu sem lýtur að aðgengi að hreinum sprautubúnaði og nalaskiptaþjónustu innan ráðuneytisins, í samstarfi við sóttvarnalækni og Landspítalann, auk þess sem ég tel mikilvægt að tekin verði upp skaðaminnkandi nálgun í fangelsum.

Það er mikilvægt að tryggja að allir njóti jafns aðgangs til heilbrigðisþjónustu, burt séð frá þjóðfélagsstöðu. Sértaklega mikil hætta er á því að ýmiss konar jaðarhópar, til að mynda vímuefnaneytendur, verði undir í þessu samhengi og skaðaminnkandi aðgerðir eru til þess fallnar að tryggja betri heilbrigðisþjónustu og þar með grundvallarmannréttindi allra.

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira