Hoppa yfir valmynd
07. júlí 2022 Matvælaráðuneytið

Afnám svæðaskiptinga fullreynt - grein birt á mbl.is 6. júlí 2022

Strandveiðisumarið hófst 1. maí og er þetta fjórtánda sumarið sem strandveiðar eru stundaðar. Sennilega hefur aldrei gengið jafn vel á strandveiðum, afli á hvern róður er talsvert meiri en fyrir ári síðan. Þá hefur verð á fiskmörkuðum verið strandveiðisjómönnum afar hagfellt á vertíðinni. Frá því að strandveiðar hófust í vor hefur vegið meðalverð á kíló óslægðs afla verið rúmar fjögur hundruð krónur. Það er rúmum fjórðungi hærra en á sama tíma í fyrra og tæpum 60% hærra en sumarið 2020.

Aldrei jafn mikil verðmæti á strandveiðum

Þannig hafa sennilega aldrei verið jafn mikil verðmæti fólgin í því að stunda þessar veiðar. Aldrei hefur verið ráðstafað hærra hlutfalli af leyfilegum heildarafla í þorski til strandveiða, á sama tíma og leyfilegur heildarafli hefur minnkað. Fyrirkomulagið hefur þróast þessi fjórtán ár, nú síðast árið 2019 þegar lögunum var breytt af Alþingi. En breytingarnar fólu m.a. í sér að ráðherra var ekki lengur heimilt að skipta veiðiheimildum niður á svæði heldur væri einn pottur sem strandveiðimenn veiddu úr þangað til hann væri uppurinn.

Markmið þessara breytinga var að koma í veg fyrir að sjómenn þyrftu að keppast um að fá sem stærsta hlutdeild innan hvers svæðis áður en að veiðar væru stöðvaðar. Nú er kappið á landsvísu og því misheppnaðist breytingin. Það þýðir það að þau svæði þar sem fiskgengd er síðsumars ná ekki að veiða fiskinn á kjörtíma, þ.e.a.s. þegar fiskurinn er stærstur og verðmætastur. Þetta fyrirkomulag er að mínum dómi nú fullreynt. Í þau fjögur sumur sem þetta fyrirkomulag hefur verið viðhaft þá hefur þurft að stöðva veiðarnar áður en að tímabilið klárast í tvö skipti og nú að öllum líkindum gerist það í þriðja skipti og enn fyrr en áður.

Fyrirkomulagið hefur verið gagnrýnt

Ég hef talað við fjölda strandveiðisjómanna sem hafa gagnrýnt þetta og lýst þessu fyrirkomulagi sem ósanngjörnu. Sumir þeirra bentu á þessa hættu í upphafi. Þá hefur einnig verið bent á að ef þessu verður muni bátar halda áfram að færast frá þeim svæðum sem koma illa út úr þessu fyrirkomulagi yfir á það svæði þar sem fiskgengd er með þeim hætti að hagkvæmt er að stunda þær frá upphafi tímabils. Þannig sé fyrirkomulagið farið að vinna gegn þeim byggðum sem hún átti að treysta.

Í ljósi þessa þá hyggst ég leggja fram frumvarp í haust sem taki upp svæðaskiptingu á nýjan leik. Ég tel nauðsynlegt að Alþingi taki þetta til skoðunar því núverandi kerfi felur í sér ójafnræði sem verður að breyta. Þá hyggst ég ráðstafa því sem fékkst af skiptimörkuðum fyrir makríl til strandveiða, sem mun lengja þann tíma sem veiðar geta staðið. Auk þess að auðvelda að halda til annarra veiða eftir að strandveiðipotturinn er tómur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum