Hoppa yfir valmynd

Sögulegt yfirlit

 

Matvælaráðuneyti 2022

Matvælaráðuneytið (MAR) tók til starfa 1. febrúar 2022. Ráðuneytið byggir á grunni þeirra málefna sem heyrðu undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, þar að auki bættust við málefni skógræktar og landgræðslu.

Atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneyti 2012-2022

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tók formlega til starfa 4. september 2012 við sameiningu þriggja ráðuneyta. Ráðuneytin þrjú voru efnahags- og viðskiptaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneyti. Í ráðuneytinu sameinuðust málefni sjávarútvegs, landbúnaðar, viðskipta og iðnaðar.

Efnahags- og viðskiptaráðuneyti 2009-2012

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið tók til starfa 1. október 2009. Í kjölfar bankahruns í október 2008 báðu stjórnvöld Kaarlo Jännäri, finnskan bankasérfræðing, að leggja mat á  lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur. Ein af tillögum hans var sameining helstu verkefna efnahagsmála undir eitt ráðuneyti, en þau höfðu dreifst á mörg ráðuneyti fram að því.

Til að ná þessum markmiðum og öðrum var lögum um Stjórnarráð Íslands breytt og efnahags- og viðskiptaráðuneytið varð til í núverandi mynd. Nýja ráðuneytið tók við verkefnum á sviði efnahagsmála úr forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti, þar með talið yfirstjórn Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands. Starfsemi efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytis fluttist til ráðuneytisins og hluti af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þá fluttust málefni sem varða bókhald, endurskoðendur og ársreikninga til ráðuneytisins.

Ráðuneytið erfði jafnframt flest verkefni viðskiptaráðuneytisins, meðal annars yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins, Einkaleyfastofu og Samkeppniseftirlitsins. Þó færðust verkefni sem varða umsýslu alþjóðlegra viðskiptasamninga til utanríkisráðuneytis og ýmis lög er varða verkefni á vegum Neytendastofu og talsmanns neytenda til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins (nú innanríkisráðuneytis).

Meðal helstu verkefna ráðuneytisins á upphafsárum þess voru meðal annars endurskoðun regluverks og aðhalds með fjármálastarfsemi, lagasetning í kjölfar svokallaðs gengislánadóms Hæstaréttar, endurskoðun innistæðutryggingakerfisins, áætlun um losun gjaldeyrishafta og samskipti við Eftirlitsstofnun EFTA vegna Icesave-deilunnar. Ráðuneytið hafði umsjón með efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá stofnun til loka hennar 26. ágúst 2011.  

Viðskiptaráðuneyti 1939-2009

Viðskiptaráðuneytið var stofnað 17. apríl 1939. Á starfstíma ráðuneytisins hafa viðskiptahættir í heiminum tekið stakkaskiptum og hafa verkefni ráðuneytisins í gegnum tíðina dregið dám af þeim breytingum.

Á fyrstu starfsárum ráðuneytisins í seinni heimsstyrjöldinni sinnti það aðallega verkefnum á sviði innflutnings- og gjaldeyrismála. Ráðuneytið sá um úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, en hvorttveggja var bundið höftum á þessum tíma. Að stríðinu loknu fór ráðuneytið í auknum mæli að sinna því alþjóðastarfi á sviði efnahags- og viðskiptamála sem smám saman var komið á fót í kjölfar styrjaldarinnar og á árunum 1948-1953 var ýmis konar umsýsla vegna Marshallaðstoðarinnar eitt höfuðverkefni viðskiptaráðuneytisins. Næstu árin voru helstu verkefni ráðuneytisins framkvæmd viðskiptasamninga við önnur ríki. Allt fram á miðjan níunda áratuginn voru í gildi hérlendis víðtæk verðlagsákvæði og var verðlagseftirlit á verksviði ráðuneytisins. Þá sá ráðuneytið fram til ársins 1992 um niðurgreiðslur til afurðarstöðva á landbúnaðarvörum.

Á alþjóðlegum vettvangi sinnti viðskiptaráðuneytið frá því snemma á sjöunda áratugnum samstarfi við Efnahags- og þróunarstofnunina, OECD, sem og verkefnum vegna aðildar Íslands að tolla- og viðskiptasamtökunum, GATT. Þá hafði viðskiptaráðuneytið umsjón með samningaviðræðum um aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, en Ísland varð aðili að samtökunum árið 1970. Ráðuneytið tók virkan þátt í samningagerð um evrópska efnahagssvæðið og gegndi mikilvægu samræmingarhlutverki við þá samningagerð, s.s. varðandi stefnumótun um erlendar fjárfestingar á Íslandi.

Við inngöngu Íslands í EFTA, var frelsi til innflutnings aukið til muna, gjalderyisshöft voru og smám saman rýmkuð og gjaldeyrisviðskipti að öllu leyti gefin frjáls frá og með1. janúar 1994.

Eftir að frelsi í verslun og viðskiptum hefur verið aukið og leyfi af ýmsu tagi aflögð, hefur meginverkefni ráðuneytisins verið að setja almennar leikreglur á sviði viðskipta. Ýmsir mikilvægir málaflokkar falla undir verkefnasvið þess, t.d. samkeppnismál, málefni fjármagnsmarkaðarins (banka- og verðbréfaviðskipti), félagaréttar, samninga- og kauparéttur, neytendamál og málefni verslunarinnar almennt. (sjá: Skipurit ráðuneytisins).
Iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti voru rekin með sameiginlegu starfsliði og í sama húsnæði samkvæmt bréfi forsætisráðherra, dags. 2. júní 1992, í samræmi við heimild í 10. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands til 24. maí 2007. Einn ráðherra fór með bæði ráðuneytin frá 28. sept. 1988 til 24. maí 2007.

Iðnaðarráðuneyti 1970-2007

Iðnaðarráðuneytið var stofnað 1. janúar 1970. Sumarið 1957 ákvað ráðherra, sem þá fór með iðnaðarmál, að þau bréf, reglugerðir og auglýsingar, sem frá ráðuneytinu færu, og fjölluðu um iðnaðarmál, skyldu rituð í nafni iðnaðarmálaráðuneytis. Var sá háttur hafður á til ársloka 1969 en þá voru orkumál sem heyrt höfðu undir landbúnaðarráðuneyti flutt til iðnaðarráðuneytisins. Formleg stofnun iðnaðarráðuneytisins miðast síðan við 1. janúar 1970, en þann dag öðluðust gildi lög nr. 73 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands. 

Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið skiptist í tvö ráðuneyti hinn 1. júlí 1947 og voru þá útnefndir skrifstofustjórar fyrir bæði ráðuneytin, atvinnumálaráðuneytið og samgöngumálaráðuneytið. Var aðalmálaflokkum skipt þannig að samgöngumálaráðuneytið fékk í sinn hlut öll samgöngumál á landi, sjó og í lofti, svo og iðnaðarmál. Þótt iðnaðarmálin kæmu þannig undir ráðuneytið frá upphafi skiptingarinnar var nafn þess fyrstu árin eingöngu tengt við samgöngumálin. En þar kom þó, í líkingu við það sem tíðkast hafði um skeið í öðrum ráðuneytum, að farið var að nefna ráðuneytið
iðnaðarmálaráðuneyti og ráðherrann iðnaðarmálaráðherra þegar sérstaklega var um þann flokk mála að ræða. Um eða upp úr árinu 1956 mun svo hafa verið farið að nefna samgöngumálaráðuneytið samgöngu- og iðnaðarmálaráðuneyti. 

Iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti voru rekin með sameiginlegu starfsliði og í sama húsnæði samkvæmt bréfi forsætisráðherra, dags. 2. júní 1992, í samræmi við heimild í 10. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands til 24. maí 2007. Einn ráðherra fór með bæði ráðuneytin frá 28. sept. 1988 til 24. maí 2007.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 2007-2012

Þann 13. júní 2007 samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands og voru þau staðfest af forseta Íslands 25. júní 2007. Tóku lögin gildi frá og með 1. janúar 2008. Með lögunum var ákveðið að leggja niður eigin starfsheiti og lögbundið starfssvið sjávarútvegsráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins, en þess í stað stofna nýtt ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála undir heitinu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. 

Ráðuneytisstjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins var skipaður Sigurgeir Þorgeirsson og tók hann til starfa 1. janúar 2008. Fram til þess tíma hafði hann verið framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands undanfarin tólf ár. Sigurgeir lauk doktorsprófi frá Edinborgarháskóla árið 1981 og BSc prófi frá sama skóla 1976. Hann var aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra frá 1991-1995 og áður var hann sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins um fimmtán ára skeið, þar af fyrstu fimm árin í hlutastarfi með námi.

Sjávarútvegsráðuneyti 1969-2007

Frá þjóðveldisöld og allt fram yfir siðaskipti var tæpast um að ræða eiginlega stjórnsýslu í íslenskum sjávarútvegi. Við siðaskiptin lentu sjávarútvegsmál í Danaveldi undir stofnun sem varð til sem slík á miðöldum en var endurskipulögð og skilin frá kanselíinu 1536 og oft nefnd rentukammer. Rentukammerið var formlega lagt niður 1848 og með konungsúrskurði 10. nóvember 1848 var stofnuð sérstök stjórnarskrifstofa fyrir íslensk mál, Hin íslenska stjórnardeild.

Fyrsta eiginlega skilgreining á fiskveiðilögsögu við Ísland er frá 1631.

Heimastjórn

Frá 1855 heyrði íslenska stjórnardeildin undir dómsmálaráðuneytið danska og sú skipan hélst allt til þess er Íslendingar fengu heimastjórn og stofnað var Stjórnarráð Íslands í Reykjavík hinn 1. febrúar 1904.

Með lögum nr. 1/1917 lenda sjávarútvegsmál undir atvinnu og samgönguráðuneytið skv. auglýsingu 1/1922 sbr augl. 79/1922. Árið 1947 var stofnað sérstakt samgöngumálaráðuneyti og heyrðu sjávarútvegsmál eftir það undir atvinnumálaráðuneytið. Á fimmta áratugnum voru skipaðir sérstakir sjávarútvegsmálaráðherrar og rituðu þeir gjarnan undir fyrimæli sín í "sjávarútvegsmálaráðuneytinu" Það er athyglisvert að í lögum frá þessum tíma er jafnvel gert ráð fyrir sérstöku sjávarútvegsráðuneyti, sbr. lög nr. 44/1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins en þar segir m.a. að sjávarútvegsmálaráðuneytið skuli ákveða með reglugerð takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins.

Með lögum nr 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, er sjávarútvegsráðuneytið formlega stofnað sem sérstakt ráðuneyti með þessu heiti. Jafnhliða því er landbúnaðaráðuneytið stofnað og heitið atvinnumálaráðuneyti hverfur þar með. Skv. þessum lögum skal ráðuneyti lagt óskipt til eins og sama ráðherra sem kveður á um skiptingu ráðuneytis í starfsdeildir eftir verkefnum.

Ráðherrar

Fyrsti sjávarútvegsráðherrann í eiginlegu sjávarútvegsráðuneyti var Eggert G. Þorsteinsson, hann var í stjórn Bjarna Benediktsonar (Sjálfstæðis og Alþýðuflokkur) sem var við völd frá 14 nóvember 1963 til 10 október 1970. Eggert var því starfandi sjávarútvegsráðherra áður en sérstakt ráðuneyti með því nafni var stofnað og flutti svo á Laugaveg 172 í hið nýstofnaða ráðuneyti 1969.

Eggert gengdi stöðu sjávarútvegsráðherra áfram í ráðuneyti Jóhanns Hafstein (Sjálfstæðis og Alþýðuflokkur) til 14. júlí 1971 en þá tók Lúðvík Jósepsson við embættinu jafnframt því að vera viðskiptaráðherra. Lúðvík var ráðherra í fyrra ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar (Framsóknaflokkur, Alþýðubandalag og Samtök frjálslyndra og vinstri manna) sem starfaði til 28 ágúst 1974.

Síðan þá hafa eftirtaldir gengt embættinu: Matthías Bjarnason, 28. ágúst 1974 – 1. september 1978, í ráðuneyti Geirs Hallgrímssonar (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) , Kjartan Jóhannsson, 1. september 1978 – 15. október 1979, í ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar, (Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur) og 15. október 1979 – 8. febrúar 1980 í ráðuneyti Benedikts Gröndal, (Alþýðuflokkur), Steingrímur Hermannsson, 8. febrúar 1980 – 26. maí 1983, í ráðuneyti GunnarsThoroddsens, (Sjálfstæðisflokkur (brot), Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag), Halldór Ásgrímsson, 26. maí 1983 – 16. október 1985 og 16. október 1885 – 8. júlí 1987, í ráðuneyti Steingríms Hermannssonar ( Framsóknar og Sjálfstæðisflokkur ) Þetta var fyrsta ráðuneyti Steingríms Hermannsonar og þegar ráðuneyti Þorsteins Pálssonar (Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur) tók við 8. júlí 1987 hélt Halldór sjávarútvegsráðherra embættinu.

Ráðuneyti Þorsteins starfaði til 28. september 1988 en þá tók annað ráðuneyti Steingríms Hermannssonar(Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Stefán Valgeirsson) við stjórn og var Halldór sjávarútvegsráðherra bæði í öðru og þriðja ráðuneyti Steingríms, (Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Borgaraflokkurinn og Stefán Valgeirsson) sem og því fyrsta eins og áður hefur komið fram, annað frá 28. september 1988-10. september 1989 og hið þriðja frá 10. september 1989 – 30. apríl 1991, þá hafði Halldór gengt embætti sjávarútvegsráðherra óslitið síðan 26. maí 1983.

Fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar (Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur) tók til starfa 30. apríl 1991 og þá varð Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra, hann starfaði sem slíkur einnig í öðru ráðuneyti Davíðs(Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) allt til 11. maí 1999 en þá baðst hann lausnar frá embætti og gegndi forsætisráðherra embætti sjávarútvegsráðherra þar til stjórnin fékk lausn frá störfum 28. maí 1999. Þriðja ráðuneyti Davíðs Oddsonar (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) var stofnað sama dag og þá tók Árni M. Mathiesen, við embætti. Sat hann sem sjávarútvegsráðherra allan starfstíma þriðja ráðuneytis Davíðs Oddssonar, til 23. maí 2003 og gengdi embættinu áfram í fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar (Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks) sem tók við þann sama dag. 15. september 2004 tók við fyrsta ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar þegar hann tók við forsætisráðuneytinu en Davíð Oddson varð utanríkisráðherrra.

Árni Mathiesen hætti sem sjávarútvegsráðherra 27. september 2005 þegar breytingar urðu á ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar. Við starfi sjávarútvegsráðherra tók Einar Kristinn Guðfinnsson.

Ráðuneytið

Eins og fyrr sagði var ráðuneytið fyrst til húsa á Laugavegi 172 en flutti síðan um áramótin 1971 á Lindargötu 9, þar var ráðuneytið starfrækt í um 17 ár en flutti að lokum í sitt núverandi húsnæði að Skúlagötu 4 vorið 1988, á sjöttu hæð með undurfallegu útsýni yfir höfnina og Kollafjörðinn. Starfsmenn ráðuneytisins eru um 20 talsins.

Landbúnaðarráðuneyti 1970-2007

Landbúnaðarráðuneytið á rætur að rekja til atvinnu- og samgöngumálaráðuneytisins, sem tók til starfa 1. febrúar 1904, er Stjórnarráð Íslands var fyrst sett á stofn.

Stjórnskipun landbúnaðarmála

Frá 1855 heyrði íslenska stjórnardeildin undir dómsmálaráðuneytið danska og sú skipan hélst allt til ársins 1904 er Íslendingar fengu heimastjórn.

Árið 1904, þann 1. febrúar, fengu Íslendingar heimastjórn og Stjórnarráð Íslands stofnað í Reykjavík. Á sama tíma var stofnað embætti ráðherra Íslands, og var Hannes Hafstein skipaður í þá stöðu og þar með fyrsti íslenski ráðherrann. Í Stjórnarráðinu störfuðu þrjár skrifstofur; fyrsta skrifstofa sem fór með dóms-, skóla- og kirkjumál, önnur skrifstofa sem fór með atvinnumál, samgöngumál og póstmál og þriðja skrifstofa sem sá um fjármál.

Árið 1917 var Stjórnarráðinu skipt í þrjár deildir, dóms- og kirkjumáladeild, atvinnu- og samgöngumáladeild og fjármáladeild. Deildum þessum var síðar breytt í ráðuneyti árið 1921 og tilheyrðu þá málefni landbúnaðarins atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu.

Árið 1947 var atvinnu- og samgöngumálaráðuneytinu skipt í tvennt; atvinnumálaráðuneyti og samgöngumálaráðuneyti. Landbúnaðarmálin heyrðu áfram undir atvinnumálaráðuneytið.

Árið 1970, með lögum nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, sem tóku gildi 1. janúar 1970, hvarf atvinnumálaráðuneytið af sjónarsviðinu en landbúnaðarráðuneytið var stofnað með eigin skrifstofu og lögbundið starfssvið.

Árið 2007, með lögum nr. 109/2007 um breytingu á lögum nr. 73/1969 ákvað Alþingi að sameina sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið í eitt ráðuneyti undir nafninu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Tóku lögin gildi frá og með 1. janúar 2008.

Starfssvið

Í tímans rás urðu nokkrar breytingar á starfssviði ráðuneytisins en til glöggvunar er rétt að geta þeirra málaflokka sem ráðuneytinu voru falin samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 3/2004 er það sameinaðist sjávarútvegsráðuneytinu 2008. Þá fór ráðuneytið með mál er vörðuðu:

  1. Landbúnað og starfsemi tengda landbúnaði.
  2. Menntun, rannsóknir og eftirlit í landbúnaði.
  3. Landgræðslu og skógrækt.
  4. Jarðir í eigu og umsjá ríkisins, þ.m.t. kirkjujarðir.
  5. Landnotkun í þágu landbúnaðar og önnur jarða- og ábúðarmál.
  6. Áveitur, fyrirhleðslur og framræslu.
  7. Framleiðslu- og markaðsmál í landbúnaði, inn- og útflutning landbúnaðarafurða.
  8. Inn- og útflutning dýra og plantna og erfðaefnis þeirra, varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði og yrkisrétt.
  9. Aðbúnað búfjár og heilbrigði dýra, varnir gegn dýrasjúkdómum, gæði og heilnæmi aðfanga og landbúnaðarafurða.
  10. Veiði í ám og vötnum, eldi vatnadýra og önnur veiðimál.
  11. Lán og stuðning við nýsköpun og starfsemi á sviði landbúnaðar.
  12. Hagrannsóknir og áætlunargerð í landbúnaði.

Húsnæði og innra skipulag

Lengst af var landbúnaðarráðuneytið til húsa í Arnarhvoli, eða til 23. apríl 1987 er það flutti aðsetur sitt að Rauðarárstíg 25 í Reykjavík. Þar var ráðuneytið starfrækt til 18. nóvember 1994, en þá flutti það að Sölvhólsgötu 7. Þar starfaði ráðuneytið til ársins 2008 er það sameinaðist sjávarútvegsráðuneytinu í nýtt ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðarmála með aðsetur á Skúlagötu 4.

Árið 1987 var skipulagi skrifstofu ráðuneytisins breytt og skipt niður í fimm svið og yfir hverju þeirra sviðsstjóri.  Síðar var skipulaginu breytt í skrifstofur. Fyrir sameiningu þess við sjávarútvegsráðuneytið voru starfandi í landbúnaðarráðuneytinu 5 skrifstofur auk lögfræðideildar; almenn skrifstofa, eigna- og rekstrarskrifstofa, skrifstofa markaðs- og framleiðslumála, skrifstofa rannsókna og menntamála, skrifstofa jarðarmála og lögfræðideild. Þá störfuðu þar um 25 manns.

Ráðuneytisstjórar

Árið 1970, þegar landbúnaðarráðuneytið var gert að sérstöku ráðuneyti varð Gunnlaugur E. Briem fyrsti ráðuneytisstjóri þess. Áður hafði hann lengi verið ráðuneytisstjóri atvinnumálaráðu-neytisins.

Árið 1973 tók Sveinbjörn Dagfinnsson við starfi ráðuneytisstjóra landbúnaðarráðuneytisins og gegndi því til ársins 1995. Í forföllum Sveinbjörns, var Guðmundur Sigþórsson var settur ráðuneytisstjóri, fyrri hluta ársins 1988.

Árið 1995 tók dr. Björn Sigurbjörnsson við embættinu á eftir Sveinbirni Dagfinnsyni og gengdi því til ársins 2000.

Árið 2000, þann 1. september tók Guðmundur Björgvin Helgason við ráðuneytisstjórastöðunni af dr. Birni Sigurbjörnssyni og gengdi því starfi til ársloka 2007, er landbúnaðarráðuneytið sameinaðist sjávarútvegsráðuneytinu.

Ráðherrar

Fyrsti landbúnaðarráðherrann í eiginlegu landbúnaðarráðuneyti var Ingólfur Jónsson en hann var í stjórn Bjarna Benediktssonar (Sjálfstæðis og Alþýðuflokkur) sem var við völd frá 14 nóvember 1963 til 10 október 1970. Ingólfur var því starfandi landbúnaðarráðherra áður en sérstakt ráðuneyti með því nafni var stofnað. Ingólfur gengdi stöðu landbúnaðarráðherrara og samgöngumálaráðherra og fór auk þess með orkumál fram til ársloka 1969.  Hann var áfram í ráðuneyti Jóhanns Hafstein (Sjálfstæðis og Alþýðuflokkur) til 14. júlí 1971 en þá tók Halldór E. Sigurðssonvið embætti landbúnaðarráðherra jafnframt því að vera fjármálaráðherra. Halldór var áfram ráðherra þessara málaflokka í fyrra ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar (Framsóknaflokkur, Alþýðubandalag og Samtök frjálslyndra og vinstri manna) sem starfaði til 28 ágúst 1974, og svo landbúnaðar- og samgönguráðherra tímabilið 28. ágúst 1974 – 1. september 1978, í ráðuneyti Geirs Hallgrímssonar (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur). Síðan hafa eftirtaldir gengt stöðu landbúnaðarráðherra: Steingrímur Hermannsson, var dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráherra 1. september 1978 – 15. október 1979, í ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar, (Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur); Bragi Sigurjónsson var landbúnaðar- og iðnaðarráðherra, 15. október 1979 – 8. febrúar 1980 í ráðuneyti Benedikts Gröndal, (Alþýðuflokkur), Pálmi Jónsson, 8. febrúar 1980 – 26. maí 1983, í ráðuneyti Gunnars Thoroddsens, (Sjálfstæðisflokkur (brot), Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag), Jón Helgason sem var landbúnaðar- dóms- og kirkjumálaráðherra, 26. maí 1983 – 8. júlí 1987, í ráðuneyti Steingríms Hermannssonar ( Framsóknar og Sjálfstæðisflokkur ) Þetta var fyrsta ráðuneyti Steingríms Hermannsonar og þegar ráðuneyti Þorsteins Pálssonar (Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur) tók við 8. júlí 1987 hélt Jón landbúnaðarráðherra embættinu. Ráðuneyti Þorsteins starfaði til 28. september 1988 en þá tók annað ráðuneyti Steingríms Hermannssonar (Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Stefán Valgeirsson) við stjórn og starfaði til 10. september 1989. Þá tók Steingrímur J. Sigfússon við embætti landbúnaðar- og samgönguráðherra og gegndi því sömuleiðis í þriðja ráðuneyti Steingríms, (Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Borgaraflokkurinn og Stefán Valgeirsson) sem starfaði frá 10. september 1989 – 30. apríl 1991. Fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar (Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur) starfaði frá 30. apríl 1991 – 23. apríl 1995 og var  Halldór Blöndal landbúnaðar- og samgönguráðherra í þeirri ríkisstjórn.  Í öðru ráðuneyti Davíðs(Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) sem starfaði frá 23. apríl 1995 til 28. maí 1999 var Guðmundur Bjarnason landbúnaðar- og umhverfisráðherra, en hann baðst lausnar frá embætti 11. maí 1999 og tók þá Halldór Ásgrímsson við ráðherraembættum hans og gegndi þeim út kjörtímabilið. Þriðja ráðuneyti Davíðs Oddsonar (Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur) var stofnað sama dag og þá tók Guðni Ágústsson við embætti landbúnaðarráðherra. Sat hann sem landbúnaðarráherra allan starfstíma þriðja ráðuneytis Davíðs Oddssonar, til 23. maí 2003. Hann gegndi áfram landbúnaðarráðhera embættinu í fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar (Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks) sem starfaði frá 23. maí 2003 til 15. september 2004 er við tók fyrsta ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar. Var Guðni áfram landbúnaðarráðherra þar til 24. maí 2007 er við tók ríkisstjórn Geirs H. Haarde og varð þá Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Var Einar Kristinn því síðasti landbúnaðarráðherrann í sérstöku ráðuneytið landbúnaðarmála.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum