Hoppa yfir valmynd
06. janúar 2023 Matvælaráðuneytið

Fyrsta ár nýs matvælaráðuneytis að baki, MBL 3. janúar 2023

Fyrsta ár nýs matvælaráðuneytis að baki, MBL 3. janúar 2023

Í byrjun árs 2022 var matvælaráðuneytið stofnsett við uppskiptingu verkefna í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Í stjórnarsáttmála eru tilgreind ýmis verkefni sem mér hafa verið falin og eru þau flest farin vel af stað. Við í matvælaráðuneytinu höfum nýtt tímann vel. Stærstu verkefnin snúa að stefnumótunarvinnu um sjávarútveg, undir formerkjunum „Auðlindin okkar“ og nú í upphafi árs munu liggja fyrir bráðabirgðatillögur. Þá setti ég af stað stefnumótunarvinnu í fiskeldi. Ríkisendurskoðun hefur unnið að því að greina lög, stjórnsýslu og eftirlit með greininni og mun sú skýrsla liggja fyrir fljótlega. Þá var fengið erlent ráðgjafafyrirtæki til þess að greina tækifæri og áskoranir í fiskeldi. Það er brýnt fyrir okkur sem samfélag að það sé skýrt hvert við viljum sjá fiskeldi þróast til lengri tíma.

Staðið með íslenskum landbúnaði

Í ráðuneytinu höfum við jafnframt unnið að undirbúningi endurskoðunar búvörusamninga. Ég hef sagt að ég muni leggja áherslu á loftslagsmál, fæðuöryggi og einföldun við þá endurskoðun. Í ljósi þess að samningurinn sem gerður var árið 2016 markar nokkuð skýran ramma verða engar kúvendingar á samningnum. Það er þó afar mikilvægt að þær breytingar sem verða gerðar séu í takti við aðra stefnumörkun stjórnvalda. Í ráðuneyti matvæla höfum við þurft að takast á við afleiðingar innrásar Rússa í Úkraínu á aðfangakeðjur landbúnaðar. Á árinu sem leið fóru 3,2 milljarðar króna í sérstakan stuðning við landbúnað vegna þessa og hækkandi áburðarverðs. Stjórnvöld hafa því sýnt í verki að þau standa með íslenskum landbúnaði.

Umbótamál í fiskveiðistjórnarkerfinu

Þingið samþykkti nokkur mál sem ég lagði fyrir á árinu 2022, flest snúa þau að umbótamálum í fiskveiðistjórnarkerfinu, t.d. veiðistjórnun hryggleysingja og bætt eftirlit með fiskveiðum. Í lok nóvember voru gerðar breytingar á lögum um veiðigjald til að bregðast við óæskilegri víxlverkun ívilnana sem gerðar voru vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Þær breytingar leiða til þess að veiðigjöld verða um 2,5 milljarði króna hærri á næsta ári en ella hefði verið.

Ár stefnumótunar runnið upp

Á nýju ári fara þau verkefni sem ýtt var úr vör á fyrsta starfsári nýs matvælaráðuneytis að bera ávöxt. Þannig verður unnið að því að skapa ramma sem almenningur og atvinnugreinarnar geta treyst á til framtíðar. Sá rammi mun hafa akkeri sitt í nýrri matvælastefnu og stefnumörkun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Ég er fullviss um að við náum enn betri árangri í þeim mikilvægu atvinnugreinum sem undir ráðuneytið heyra þegar við höfum skerpt betur á því hvert við viljum stefna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum