Hoppa yfir valmynd
27. mars 2023 Matvælaráðuneytið

Ávarp matvælaráðherra á ársfundi SFS 24. mars 2023

Ágætu fundarmenn.

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Þetta fyrsta ár mitt sem ráðherra sjávarútvegsmála í matvælaráðuneytinu hefur verið bæði gefandi og lærdómsríkt. Málaflokkar landbúnaðar, sjávarútvegs og fiskeldis auk landgræðslu og skógræktar mynda þungamiðju vinnunnar í mínu ráðuneyti, sem hefur nú verið starfandi í rúmt ár. Í ráðuneytinu tökumst við á við verkefni tengd innlendri matvælaframleiðslu, með sjónarmið um ábyrga umgengi við náttúru landsins og sjálfbæra nýtingu auðlinda að leiðarljósi. Þessi verkefni hafa bein og sterk tengsl við atvinnulífið í landinu.

Stöðugt er tekist á um sköpunarsögur fiskveiðistjórnunarkerfisins, bæði á vettvangi stjórnmálanna og í samfélaginu almennt. Í umræðunni takast á andstæðir pólar; annars vegar er umræðan á þá leið að fiskveiðistjórnunarkerfið hafi leitt til mikillar samþjöppunar og byggðaröskunar en hins vegar á þá leið að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sé gullinsnið, fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir um hvernig nýta eigi auðlindina á sjálfbæran hátt.
Listin hefur gert nokkrar tilraunir til þess að lýsa sögu fiskveiðistjórnunarkerfisins, nú síðast með þáttunum Verbúðinni. En eins og í svo mörgu er veruleikinn flóknari en sögurnar. Það er ekki hægt að skilja nútímasögu Íslands öðruvísi en að skilja sögu sjávarútvegsins síðustu 40 ár, en sá tími var tími mikilla breytinga, átaka og aðlögunar.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur hér; stóra verkefnið þegar kemur að stjórnun fiskveiða hér á landi er að ná fram aukinni sátt. Tilfinningin um að kerfið sé óréttlátt er yfirgnæfandi hjá stórum hluta þjóðarinnar og við verðum að horfast í augu við það. Vegna þess meðal annars setti ég af stað vinnu við verkefnið Auðlindina okkar, snemma á kjörtímabilinu.
Markmiðið með því verkefni er að stuðla að aukinni sátt, það er að stuðla að því að nýting auðlinda sjávarins sé hagkvæm og sjálfbær, en á sama tíma í sátt við umhverfi og samfélag. Vinnan er um það bil hálfnuð og starfshópar sem vinna að verkefninu munu skila lokaniðurstöðum sínum í maí 2023. Áætlað er að lagafrumvörp á grundvelli vinnunnar verði lögð fram á Alþingi vorið 2024.

Sú tilfinning að við eigum öflugan sjávarútveg sem við getum verið stolt af er líka ríkjandi. Sjávarútvegur er burðarás í íslensku atvinnulífi og framlag hans til sameiginlegra sjóða samfélagsins er myndarlegt. Ráða má af lestri ársfjórðungsuppgjöra að síðustu ár hafa verið útgerðinni hagfelld og sjávarútvegurinn má vera stoltur af því að leggja sitt af mörkum til reksturs okkar samfélags, á sama tíma og margir samkeppnisaðilar erlendis eru í raun í öfugri stöðu, ef marka má tölur OECD. Sameiginlegt markmið okkar allra ætti að vera að aukin sátt ríki um þetta framlag – að almenningur hafi þá tilfinningu að skiptingin milli arðgreiðslna til hluthafa og raunverulegra eigenda auðlindarinnar sé réttlát. Ef við náum því markmiði getur ríkt aukin samstaða um það hvernig fiskveiðistjórnunarkerfið okkar er uppbyggt.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa upp á síðkastið lagt áherslu á hagræðingu, nýsköpun og sjálfvirknivæðingu í sinni vinnu, svo nokkur dæmi séu nefnd. Allt eru það aðkallandi verkefni, en það eru ekki einu verkefnin. Mig langar að hvetja fyrirtæki í sjávarútvegi til þess að taka virkan þátt í samfélagsumræðunni. Sjávarútvegurinn er og getur verið hreyfiafl í því að takast á við áskoranir 21. aldarinnar, svo sem áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum áskoranir sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Þannig gegna sjávarútvegsfyrirtækin mikilvægu hlutverki við að stuðla að nýtingu sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag. Sagan af sjávarútvegi er nefnilega í sífelldri mótun og fyrirtækin eiga stóran þátt í því að móta hana.

Eins og allir hér vita fylgja áskoranir framleiðniaukningu, til dæmis því að hafa ekki lengur hlutverk fyrir áhafnir skipa eða þurfa ekki að ráða í störf sem vatnsskurðarvélar hafa gert óþörf. Þessar áskoranir munu í vaxandi mæli hellast yfir allt okkar atvinnulíf og þar held ég að við getum lært af sjávarútveginum. Að fjárfesta og innleiða nýja tækni er að mínu mati eina leiðin sem er fær fyrir samfélag sem vill viðhalda samkeppnishæfu atvinnulífi og auka velsæld íbúa.
Atvinnugreinar nú til dags glíma við aðrar áskoranir en áður. Það ríkir samkeppni um unga fólkið og samkeppni um mannauð. Hlaðborð valkosta bíður ungs fólks og það er ekki sjálfgefið að það velji sjávarútveg sem starfsvettvang. Einungis með því að virkja hugvitið og grípa þau tækifæri sem felast í framþróun tækninnar gerum við sjávarútveginn að spennandi starfsvettvangi í framtíðinni.
Við þurfum líka að kynna íslenskar sjávarafurðir fyrir neytendum framtíðarinnar. Þar vitum við að það er verk að vinna, en neysla á fiski hefur breyst í áranna rás og hér á landi eru nú heilu kynslóðirnar sem ekki neyta fisks í sama mæli og áður. Fiskneysla er mikilvægur hluti af heilsusamlegu mataræði, og stuðlar þar með að auknum lífsgæðum. Á tímum þar sem hreyfingarleysi og óheilbrigðir lífshættir verða því miður sífellt algengari er mikilvægt að gleyma því ekki hversu heilsusamlega fæðu við getum fengið úr sjónum við landið okkar.
En hvaða máli skiptir þetta, í ljósi þeirrar staðreyndar að 98% sjávarafurða eru flutt út og heimurinn kallar á meiri og meiri mat? Þetta skiptir máli í þeirri heildarmynd sem samfélag er. Að íslenskar sjávarafurðir séu á borðum hér á landi og við séum stolt af þeim. Það er leið fyrir sjávarútveginn að vera í beinni tengingu við fólkið í landinu – í gegnum magann, sem hluti af heilnæmu mataræði þjóðarinnar. Sá tími er liðinn, og mun líkast til ekki koma aftur, þar sem að allir landsmenn hafa tengingu við sjóinn í gegnum ættingja eða vini. Í dag er samfélagið annað og kannski er eina tengingin sem þorri landsmanna hefur við sjávarútveg þegar þeir neyta fisks.

Umræða um sjávarútveg hverfist oft um stærstu og öflugustu fyrirtækin innan ykkar raða. Á síðasta ári veiddu 10 stærstu fyrirtækin tæpan þriðjung af botnfiskafla í landinu. En það er oft minna talað um öll hin fyrirtækin sem veiða tvo þriðju af öllum botnfiskafla í landinu. Það eru gjarnan fjölskyldufyrirtæki með á bilinu 15-30 starfsmenn, sem glíma líka við stóru áskoranir samtímans; tæknibyltingar og umhverfismál. Pláss þessara hagsmuna í umræðunni er oft af afar skornum skammti. Þó að útgerðinni sem heild gangi vel, eins og hagtölur sýna. Sérstaklega hjá samþættum útgerðum í útgerð og vinnslu á botn og uppsjávarfiski þá er raunveruleikinn sá að útgerðir standa misjafnlega vel. Eðlilega spyrja eigendur þessara útgerða sig hvort það sé þess virði að fjárfesta og veðja öllu á að ná betri stöðu þegar óvissa er um hvort leikreglurnar verði óbreyttar á næstu árum. Hvenær er samþjöppunin orðin of mikil og hvað viljum við í þeim efnum? Viljum við eingöngu stór fyrirtæki í kauphöllinni eða viljum við fjölbreyttari sjávarútveg?
Þannig tel ég mikilvægt að þegar við stjórnmálamenn tölum um sjávarútveg áttum við okkur á hinum mikla fjölbreytileika hagsmuna og sjónarmiða sem fyrirfinnst. Ég hef ekki hitt þá tvo útgerðarmenn sem eru sammála um það hvernig hlutirnir eiga að vera. Rétt eins og í annarri auðlindanýtingu þá sýnist sitt hverjum. Hin pólitíska umræða er oft svarthvít, um okkur á móti ykkur. Veruleikinn er flóknari, og sagan er í mótun – eins og ég hef farið yfir hér.

Samantekið þá held ég að okkur miði ágætlega í þeirri vegferð sem ráðuneytið hóf síðasta sumar, verkefninu um Auðlindina okkar. Við erum á áætlun og þó ég geri mér ekki væntingar til þess að við munum ná punkti þar sem hægt verði að segja fullum fetum: Við erum komin á endapunkt, hér er fullkomin sátt - þá er ég viss um að opin umræða sem grundvallast á staðreyndum, þar sem þar sem við köllum sem flesta hagaðila að borðinu, muni leiða til aukinnar sáttar og þar með jákvæðra breytinga fyrir alla þjóðina. Á borðinu liggja nú 60 bráðabirgðatillögur sem verið er að fjalla um efnislega þessar vikurnar. Ég veit að þær leggjast misvel í hagsmunaaðila – enda ekki við öðru að búast, en ég hef fulla trú á því að lokaafurðin muni skila árangri.
Takk fyrir áheyrnina og gangi ykkur vel á ykkar ársfundi


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum