Hoppa yfir valmynd

Síðasta síldartunnan til Íslands frá Dale

Síðasta síldartunnan verður afhent Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði þann 31. maí og mun sá dagur marka tímamót í sögu Noregs og Íslands. Tunnan sem um ræðir féll frá borði Suðurlands, síðasta flutningaskipsins sem náði fram til Íslands fullfermt nýsmíðuðum tunnum frá Dale. Íslandsvinurinn Petter Jonny Rivedal bjargaði tunnunni árið 1986 þegar hana rak á land nálægt heimkynnum hans við Hrífudal, handan fjarðarins við Dale, og hefur hann varðveitt hana síðan. Árum saman hefur Petter Jonny einnig haft umsjón með styttunni af Ingólfi Arnarsyni sem stendur í Hrífudal og því tekið á móti fjölda íslenskra ráðamanna, sendiherra og annarra sem heimsótt hafa styttuna og sagt þeim sögur af Ingólfi og frá tunnunni. Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra kveikti í hugmyndinni um að koma síðustu síldartunnunni til Íslands í heimsókn sinni árið 2008, en hann var einnig með í för árið 1961 þegar að faðir hans Bjarni Benediktsson, fyrrum forsætisráðherra, afhjúpaði styttuna af Ingólfi. Sendiráð Íslands í Osló átti síðar frumkvæði að því að fá til liðs við sig ýmsa samstarfsaðila og koma hugmyndinni í framkvæmd.

Stytta Ingólfs Arnarsonar í Rivedal 17. maí 2022

Bernskuslóðir Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns Íslands, eru taldar vera Hrífudalur (Rivedal) sem liggur norðanmegin í Dalsfirði á vesturströnd Noregs. Á siglingu um Dalsfjörðinn í opinberri heimsókn forseta Íslands til Noregs árið 1955 heyrði Ásgeir Ásgeirsson, fyrrum forseti, söng óma frá bökkum Hrífudals: „Mellom Bakkar og Berg“ fylgt á eftir með þjóðsöngnum „Ó, guð vors lands“ á íslensku. Varð forsetinn svo hrifnuminn að hann braut upp skipulagða dagskrá og krafðist þess að skipið stoppaði til að hann gæti gengið á land, sem hann gerði við mikinn fögnuð íbúa Hrífudals. Í landi hélt kennari í þorpinu þrumuræðu um norsk-íslensk tengsl og „haf vonarinnar“. Forsetinn fyllti öskjur með mold til að flytja með sér heim til Íslands og lofaði hann því að snúa aftur og reisa þar styttu af Ingólfi Arnarssyni. Í dag stendur þar afsteypa af styttu Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli sem var afhjúpuð árið 1961 af Bjarna Benediktssyni, þáverandi forsætisráðherra, að viðstöddum m.a. Haraldri Guðmundssyni, þáverandi sendiherra Íslands í Noregi. Á fótstalli styttunnar er letrað á vinstri hlið: „Ingólfur Arnarson frá Dalsfirði, fyrsti landnámsmaður á Íslandi“ og á hægri hlið: „Gjöf frá Íslendingum. Vin sínum skal maðr vin vera“.

Árum saman hefur maður að nafni Petter Jonny Rivedal haft umsjón með styttunni af Ingólfi Arnarsyni og umhverfi hennar og flaggað fána Íslands og Noregs á hátíðisdögum. Hann hefur sagt gestum og gangandi sögur af þeim fóstbræðrum Ingólfi Arnarsyni og Hjörleifi Hróðmarssyni, heiðrað minningu Ingólfs og haldið á lofti sögulegum tengslum Íslands og Noregs. Petter Jonny hefur í gegnum árin tekið á móti fjölda íslenskra ráðamanna, sendiherra og annarra sem heimsótt hafa styttuna af Ingólfi í Hrífudal. Fleirum hefur hann sagt sögu sína um síldartunnuna, en handan Hrífudals sunnanmegin í Dalsfirði liggur bærinn Dale. Dale hefur sérstaka tengingu við síldarsögu Íslands því þar voru síldartunnur framleiddar og seldar til Íslands áratugum saman, fram á níunda áratug síðustu aldar. Árið 1986 þegar flutningaskipið Suðurland, síðasta flutningaskipsins sem náði fram til Íslands fullfermt nýsmíðuðum tunnum frá Dale, sigldi úr höfn þá féll tunna fyrir borð og hafnaði í sjónum. Tunnuna rak í land við Hrífudal þar sem Petter Jonny bjargaði henni og hefur varðveitt hana á öruggum stað á heimili sínu síðan, nú í nær fjóra áratugi.

Greftruð merking á tunnunni.


Petter Jonny segir að það hafi verið árið 2008 í heimsókn Björns Bjarnasonar, fyrrum ráðherra, að fyrst hafi kviknað hugmyndin um að koma síðustu síldartunnunni frá Dale til Íslands. Sendiráð Íslands í Osló átti síðar frumkvæði að því að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og fá til liðs við sig ýmsa samstarfsaðila. Árið 2019 afhenti Hermann Ingólfsson þáverandi sendiherra Íslands í Noregi Petter Jonny viðurkenningarskjal við styttuna af Ingólfi að viðstöddum m.a. sveitarstjóra Askvoll, Ole André Klausen. Í viðurkenningarskjalinu er honum þakkað fyrir framlag sitt í að varðveita söguleg tengsl Íslands og Noregs og var honum og fjölskyldu hans jafnframt boðið til Íslands í samstarfi við íslensk fyrirtæki með starfsemi bæði á Íslandi og í Noregi. Sjá umfjöllun á Facebooksíðu sendiráðsins.

Fylgist nánar með verkefninu á Facebook-síðu sendiráðs Íslands í Osló.

Umfjöllun um verkefnið

Umfjöllun um verkefnið

Fróðleiksmolar

Myndir

Samstarfsaðilar

Norska sendiráðið

Icelandair

 

Sigló hótel

 

Eimskip

 

Arctic trucks

 

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi

Síldarminjasafn

Markaðsstofa Norðurlands

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum