Hoppa yfir valmynd

Endurmat útgjalda

Rekstur ríkisins er umfangsmikill og áskoranirnar margar. Mikilvægt er að skipulag starfsemi ríkisins sé með þeim hætti að hægt sé að bregðast við nýjum aðstæðum og að stuðlað sé að bættri nýtingu fjármuna. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins var gripið til til nauðsynlegra aðhaldsráðstafana en undanfarin ár hafa útgjöld hins opinbera aukist mikið. Sífelldur vöxtur útgjalda getur ekki verið markmið í sjálfu sér heldur þarf að tryggja að takmarkaðir fjármunir nýtist til brýnna verkefna sem skila árangri fyrir samfélagið. Haustið 2018 var ákveðið að innleiða endurmat útgjalda (e. spending reviews) í árlega áætlanagerð ríkissjóðs. Tilgangurinn með endurmatinu er að greina kerfisbundið útgjöld til tiltekinna verkefna eða málaflokka. Reynsla annarra er góð og ef vel tekst til mun endurmatið skila hagræðingu, bættri forgangsröðun í samræmi við pólitískar áherslur og gleggri yfirsýn yfir verkefni hins opinbera.

Hvað er endurmat útgjalda?

Skilgreining Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, á endurmati útgjalda er ferli við að þróa og innleiða hagræðingu með kerfisbundnum greiningum á viðvarandi útgjöldum. Viðvarandi útgjöld þýða í þessu samhengi útgjöld sem eru þegar til staðar eða eru varanleg. Endurmat útgjalda krefst greiningar á sambandi aðfanga og afurða og mögulegum áhrifum útgjaldabreytinga á veitta þjónustu. Í því efni er mikilvægt að gera skýran greinarmun á aðgerðum til að breyta umfangi og inntaki þjónustu og aðgerðum til að lækka aðfangakostnað. Aðalatriðið í báðum tilvikum er að mögulegum aðgerðum fylgi ávinningur umfram tilkostnað.

Í takti við lög um opinber fjármál

Innleiðing á endurmati útgjalda hérlendis er í takt við þær breytingar sem hafa átt sér stað undanfarin ár með gildistöku laga um opinber fjármál. Í lögunum er kveðið á um áætlanagerð til meðallangs tíma, stefnumótun fyrir málefnasvið og málaflokka, og umgjörðin í kringum hagstjórn og eftirfylgni styrkt. Almennt er talið að greining eða endurmat á útgjöldum sé góð viðbót við þessa nálgun og geri stjórnvöldum betur kleift að taka ákvarðanir um stefnumið og fjárhagsramma málefnasviða og málaflokka, auk þess að setja aukna áherslu á árangursmiðaða áætlanagerð. Aðalástæðan fyrir því að Ísland hefur ákveðið að innleiða verklag við útgjaldaendurmat er að styrkja áætlanagerðina og vandaða forgangsröðun.

Vinnan framundan

Ráðherranefnd um ríkisfjármál samþykkti í árslok 2018 að ráðast í tvö endurmatsverkefni og lutu þau að endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og rekstri sýslumannsembættanna. Verkefnin voru ákveðin sem reynsluverkefni eftir söfnun tillagna frá ríkisstjórn og ráðuneytum og var lokið á árinu 2019. Hugmyndir um útgjaldaendurmat voru einnig til umræðu í aðdraganda fjármálaáætlunar 2020-2024.

Í nóvember 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðuneytið stýrihóp til að undirbúa og fylgja eftir verkefnum sem lúta að endurmati útgjalda. Stýrihópinn skipa sex starfsmenn af fjórum skrifstofum ráðuneytisins. Verkefni hópsins er nánar tiltekið að kalla eftir og safna hugmyndum um áhugaverð endurmatsverkefni. Í þeim tilgangi þarf að hafa skipulegt samráð við fagráðuneytin og eftir atvikum vera í sambandi við aðra aðila. Stýrihópnum er jafnframt ætlað að fylgja eftir hugmyndum og afla upplýsinga um veitta þjónustu og fjárveitingar, s.s. um þróun umfangs og kostnaðar og um mögulegar hagræðingaraðgerðir hvort sem þær lúta að sjálfri þjónustunni eða aðföngum hennar.

Stýrihópurinn mun kynna viðkomandi fagráðuneyti niðurstöður frumathugana sinna og skila ráðherrum verk- og tímaáætlun fyrir framhaldið. Miðað er við að verkstjórn hins eiginlega útgjaldaendurmats verði eftir atvikum á vegum fjármála- og efnahagsráðherra eða viðkomandi fagráðherra.Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira