Hoppa yfir valmynd

Endurmat útgjalda

Rekstur ríkisins er umfangsmikill og áskoranirnar margar. Mikilvægt er að skipulag starfsemi ríkisins sé með þeim hætti að hægt sé að bregðast við nýjum aðstæðum og að stuðlað sé að bættri nýtingu fjármuna. Í kjölfar hruns fjármálakerfisins var gripið til til nauðsynlegra aðhaldsráðstafana en undanfarin ár hafa útgjöld hins opinbera aukist mikið og áframhaldandi vöxtur verið boðaður næstu árin. Sífelldur vöxtur útgjalda getur ekki verið markmið í sjálfu sér heldur þarf að tryggja að takmarkaðir fjármunir nýtist til brýnna verkefna sem skila árangri fyrir samfélagið. Á árinu 2018 var ákveðið að innleiða endurmat útgjalda (e. spending reviews) í árlega áætlanagerð ríkissjóðs. Tilgangurinn með endurmatinu er að greina kerfisbundið útgjöld til tiltekinna verkefna eða málaflokka svo að skoða megi hvaða undirliggjandi þættir valda því að útgjöld hafa þróast með tilteknum hætti. Reynsla annarra er góð og ef vel tekst til mun endurmatið skila sér í lægri grunnútgjöldum, bættri forgangsröðun í samræmi við pólitískar áherslur og gleggri yfirsýn yfir verkefni hins opinbera.

Hvað er endurmat útgjalda?

Skilgreining Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, á endurmati útgjalda er ferli við að þróa og innleiða hagræðingu með kerfisbundnum greiningum á viðvarandi útgjöldum. Viðvarandi útgjöld þýða í þessu samhengi útgjöld sem eru þegar til staðar eða eru varanleg. Endurmatið nær því ekki til nýrra útgjalda, en almennt koma tillögur að nýjum útgjöldum ekki til skoðunar þegar ráðist er í endurmat útgjalda með sama hætti og viðvarandi útgjöld. Endurmatið er því skilgreint ferli þar sem viðvarandi útgjöld tiltekins málaflokks eða verkefnis eru greind í þeim tilgangi að ná fram hagræðingu sem flæðir inn í fjárlagaferlið.

Í takti við lög um opinber fjármál

Innleiðing á endurmati útgjalda hérlendis er í takt við þær breytingar sem hafa átt sér stað undanfarin ár með gildistöku laga um opinber fjármál. Í lögunum er kveðið á um áætlanagerð til meðallangs tíma, stefnumótun fyrir málefnasvið og málaflokka, og umgjörðin í kringum hagstjórn og eftirfylgni styrkt. Almennt er talið að greining eða endurmat á útgjöldum til tiltekinna verkefna eða málaflokka sé góð viðbót við þessa nálgun og geri stjórnvöldum betur kleift að taka ákvarðanir um stefnumið og fjárhagsramma málefnasviða og málaflokka, auk þess að setja aukna áherslu á árangursmiðaða áætlanagerð. Aðalástæðan fyrir því að Ísland hefur ákveðið að bætast í hóp þeirra fjölmörgu OECD-ríkja sem hafa innleitt verklag við útgjaldaendurmat er að vanda betur til ákvarðanatökunnar og styrkja áætlanagerðina, þ.e. að huga að því að það fjármagn sem þegar er til staðar nýtist sem best frekar en að horfa sífellt á viðbótarútgjöld.


Tvö verkefni unnin á árinu 2019 

Tvö verkefni eru þegar farin af stað og er gert ráð fyrir að niðurstöður þeirra liggi fyrir síðar á þessu ári. Annað verkefnið snýr að endurskipulagningu á starfsemi sýslumannsembætta á landsvísu með það að markmiði að laga hallarekstur embættanna. Þá verður horft til þess hvort hægt sé að stuðla að bættri þjónustu við notendur með því að nýta rafræn samskipti hjá embættunum. Hitt verkefnið felur í sér endurmat á umgjörð um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Skoðað er hversu skilvirkt endurgreiðslukerfið er m.t.t. skilgreindra markmiða sem fram koma í lögum nr. 43/1999 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og hvort endurskoða þurfi kerfið með hliðsjón af þeim árangri sem náðst hefur. Bæði verkefnin eru unnin í nánu samstarfi annars vegar dómsmálaráðuneytis og hins vegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis og eiga þau að skila hagræðingu og bættri nýtingu fjármuna á þessum sviðum.Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira