Hoppa yfir valmynd

Algengar spurningar um jafnréttismál

Sögu kvenna- og jafnréttisbaráttunnar er að finna víðsvegar á vefnum.

The World Economic Forum er svissnesk efnahagsstofnun sem gefur út árlega skýrslu, þar sem svokallað kynjabil er mælt. Ísland hefur verið efst á listanum síðastliðin tólf ár. Í skýrslunni er kynjajafnvægi í stjórnmálum, menntun, atvinnulífinu og heilsugæslu metið. Gott gengi Íslands er byggt á velgengni okkar í að bæta kynjajafnrétti í menntunarkerfinu, pólitískri þátttöku og þátttöku íslenskra kvenna í atvinnulífinu.
Það er nauðsynlegt að kyngreina allar tölulegar upplýsingar vegna þess að tölulegar upplýsingar gegna mikilvægu hlutverki í því hvernig við sjáum heiminn. Tölulegar upplýsingar stýra pólitískum ákvörðunum, þær sýna hvað þarf að bæta og hvar gengur vel. Á kvennaráðstefnunni í Peking árið 1995 var ákveðið, að þar sem konur og karlar lifa ólíku lífi, væri nauðsynlegt að safna, greina og birta gögn í sitthvoru lagi fyrir bæði kyn. Á sumum sviðum, eins og á heilsu- og menntasviðum, gerðu kyngreindar tölulegar upplýsingar fólki kleift að stýra þjónustu og inngripum til beggja kynja á meira viðeigandi hátt. Til þess að skilja betur ójafnrétti kynjanna er mikilvægt að kyngreina tölulegar upplýsingar á öllum sviðum eins og t.d. atvinnu og kynbundnu ofbeldi. Kyngreining tölulegra upplýsinga er gott tæki til að endurspegla samband kynjanna og fá betri heildarmynd yfir stöðuna þannig að hægt sé að bregðast við og bæta þar sem þess þarf.
Í 2. gr. jafnréttislaga nr. 150/2020 eru sértækar aðgerðir skilgreindar sem tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi. Einnig sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika fólks á þeim sviðum þar sem á það hallar vegna hlutlausrar skráningar kyns í þjóðskrá í því skyni að stuðla að jafnri meðferð.
Ráðherra sem fer með jafnréttismál boðar til jafnréttisþings á tveggja ára fresti í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Þingið er öllum opið en ráðuneyti sem fer með jafnréttismál skal boða alþingismenn, fulltrúa stofnana ríkis og sveitarfélaga, þar á meðal jafnréttisfulltrúa, sem og fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem hafa jafnréttismál á stefnuskrá sinni sérstaklega. Tilgangur jafnréttisþings er að efna til umræðu á milli stjórnvalda og þjóðarinnar um kynjajafnrétti ásamt því að leyfa þeim sem hafa áhuga að hafa áhrif á stefnumótun í jafnréttismálum Íslands. Ráðuneyti sem fer með jafnréttismál skal sjá til þess að umræður þingsins verði teknar saman og afhentar ráðherra. Umræður þingsins eru síðan hafðar til hliðsjónar við gerð þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum sem lögð er fram á fjögurra ára fresti.
Samkvæmt 26. gr. jafnréttislaga nr. 150/2020 á ráðherra, sá sem fer með jafnréttismál, að leggja tillögu að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir Alþingi á fjögurra ára fresti. Framkvæmdaáætlun á að vera til fjögurra ára og ráðherra á að fá tillögur að verkefnum frá einstökum ráðuneytum og Jafnréttisstofu ásamt því að hafa til hliðsjónar umræður Jafnréttisþings. Í framkvæmdaáætluninni eiga að vera verkefni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi. Ábyrgð á verkefnum og áætlaður kostnaður þeirra skal tilgreindur í framkvæmdaáætluninni ásamt því hvernig mati á árangri aðgerða skuli háttað.

Samráðsvettvangur um jafnréttismál kynja er kallaður saman minnst einu sinni á ári. Þá fundar samráðsvettvangurinn með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðarins, fræðasamfélaginu og samtökum sem vinna að kynjajafnrétti samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Hlutverk samráðsvettvangsins er að vera ráðherra jafnréttismála til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum sem tengjast jafnrétti kynjanna og skal ráðherra funda einu sinni á ári með samráðsvettvanginum. Sjá nánar um samráðsvettvanginn.

Jafnréttisáætlun er formlega samþykkt áætlun um aðgerðir sem hafa jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla að leiðarljósi. Jafnréttisáætlanir taka fyrst og fremst á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 150/2020 ber öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Í jafnréttisáætlun þurfa að koma fram markmið og gera þarf áætlun um hvernig á að ná þeim markmiðum til að tryggja starfsfólki þau réttindi sem kveðið er á um í 6.–14. gr. jafnréttislaga. Þessi réttindi lúta t.a.m. að launajafnrétti, lausum störfum, starfsþjálfun, endurmenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.

Sögu kvenna- og jafnréttisbaráttunnar er að finna víðsvegar á vefnum.

Auður Auðuns varð fyrst kvenna ráðherra á Íslandi er hún var skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra árið 1970. Hún gegndi embættinu í eitt ár. Sjá nánar um konur í ráðherraembættum á vef Alþingis. Heimild: Kvennasögusafn.

Þegar þriggja mánaða fæðingarorlof til allra kvenna var samþykkt árið 1975 fylgdu ákvæði um að faðirinn gæti tekið einn mánuð með samþykki móður. Með endurskoðun laganna 1989 varð foreldraorlofið 6 mánuðir en einn mánuður var festur móðurinni, foreldrar gátu skipt hinum að vild milli sín. Árið 2000 var svo komið á fæðingar- og foreldraorlofi þar sem feður fengu sjálfstæðan rétt og stofnaður fæðingarorlofssjóður. Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof voru samþykkt 2020. Með þeim varð sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig 6 mánuðir en heimilt er að framselja allt að 6 vikur til hins foreldris. Heildarréttur er því nú 12 mánuðir.

Ísland var eitt fyrstu landanna í heiminum sem heimilaði fóstureyðingar. Það var árið 1935 en þær voru eingöngu leyfðar á læknisfræðilegum forsendum. Árið 1975 var sett löggjöf sem heimilaði læknum að eyða fóstri af félagslegum ástæðum en ekki aðeins heilsufarslegum. Fóstureyðingar voru engu að síður enn ekki frjálsar því kona sem æskti fóstureyðingar þurfti að leggja inn umsókn og voru aðstæður hennar metnar af lækni og félagsráðgjafa hverju sinni. Þetta breyttist með löggjöf árið 2019. Þá fengu konur sjálfsákvörðunarrétt í eigin þungun, tímaramminn var lengdur fram að lokum 22. viku og heiti aðgerðarinnar var breytt úr fóstureyðingu í þungunarrof. Í mars 1975 voru stofnuð baráttusamtök fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna til löglegrar fóstureyðingar. Skjalasafn samtakana er varðveitt á Kvennasögusafni.
Konur fengu kosningarétt til Alþingis í tveimur áföngum. Fyrri áfanginn var 19. júní 1915 er konungur staðfesti lög frá Alþingi um að íslenskar konur og vinnumenn, 40 ára og eldri, skyldu fá kosningarétt. Aldurinn átti síðan að lækka um eitt ár á ári, þannig að árið 1931 yrðu konur komnar með jafnrétti við karlmenn að þessu leyti. Í kosningunum 1916 bættust rúmlega 12.000 konur í kjósendahópinn og ætla má að um 1.500 vinnumenn hafi bæst í hóp karlkjósenda. Aðrir 1.500 karlmenn bættust í hópinn því nú var ekki lengur skilyrði að greiða 4 krónur í útsvar. Síðari áfangann má segja að Danir hafi fært íslenskum konum með Sambandslagasamningnum. Hann var gerður árið 1918. Ríkisborgararéttur varð gagnkvæmur með honum og í framhaldi af því var komið á jafnrétti karla og kvenna við kosningar á Íslandi árið 1920.
Að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu. Frekari upplýsingar má finna hér.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum