Hoppa yfir valmynd

Gæði í forgrunni

Ábyrgð og samhæfing þjónustukerfa

Samstarf, skýr ábyrgð og samþætting innan og milli kerfa er rauður þráður menntastefnu. Heildstæð skólaþjónusta með áherslu á samábyrgð, stigskiptan stuðning í námi og stuðning við foreldra og starfsfólk skóla verður í forgrunni á öllum skólastigum. Við allan stuðning og íhlutun er mikilvægt að öll stuðningskerfi samfélagsins þjóni nemendum á heildstæðan hátt og grípi inn í eftir þörfum með samfellu í þjónustu mismunandi ábyrgðaraðila og fagstétta. Brýnt er að stjórnun og fagleg forysta sé markviss og samstarf innan menntakerfisins skilvirkt. 

Aðalnámskrár sem styðja við menntastefnu

Aðalnámskrár skulu endurspegla menntastefnu og styðja við hæfni til framtíðar. Þær verðar endurmetnar með þetta í huga og tryggt að þær styðji við alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Áhersla verður á að í boði séu fjölbreytt námsgögn sem taka mið af möguleikum stafrænnar miðlunar og margbreytileika nemenda.

Námsmat

Námsmat skal meta hæfni nemenda á gagnsæjan og leiðbeinandi hátt og taka til mismunandi hæfni hvers og eins. Sérstaklega þarf að gæta jafnréttis gagnvart nemendum með fötlun og þeim sem eiga við náms- og félagslega örðugleika að stríða. Mikilvægt er að sameiginlegur skilningur sé á áherslum námsmats og að þær samræmist áherslum aðalnámskráa. Námsmat verði sett fram þannig að það veiti reglulega skýrar upplýsingar um framvindu náms og sé fjölbreytt mat á námi, vellíðan og velferð.

Væntingar til nemenda

Auknar væntingar verða gerðar til nemenda um árangur í námi, þrautseigju og námsframvindu að teknu tilliti til þarfa og aðstæðna. Menntakerfið skal bjóða upp á sveigjanleika fyrir þá nemendur sem hann þurfa og veita öllum nemendum viðeigandi stuðning í námi og leik. Lögð skal áhersla á ábyrgðarkennd, félagsfærni og samfélags- og umhverfisvitund. Gera þarf kröfur um góða íslenskufærni barna jafnt sem fullorðinna sem hafa annað móðurmál en íslensku og að nemendur hafi möguleika á að leggja rækt við móðurmál sitt samtímis aukinni færni í íslensku.

Væntingar til foreldra

Foreldrar eru mikilvægir bandamenn menntakerfisins og búa yfir ómetanlegri þekkingu sem nýta þarf í þágu nemenda til þess að skólaganga þeirra verði farsæl. Áhersla er lögð á gott samstarf heimila og skóla þar sem gagnkvæm virðing og traust er viðhaft. Til mikils er að vinna til að efla árangur og hlúa að þekkingu, þrautseigju og hamingju nemenda. Foreldrar ólögráða nemenda bera ábyrgð á uppeldi og menntun barna sinna þó að nemendur beri ábyrgð á eigin námi með hliðsjón af aldri og þroska.

Stöðugar umbætur og gæðastarf

Efla þarf ytra og innra mat á skóla- og fræðslustarfi í samræmi við menntastefnu og samræmda árangursmælikvarða. Það skal unnið út frá skýrum og rökstuddum viðmiðum og fela í sér skipulega söfnun, greiningu og túlkun gagna. Mikilvægt er að skýr ábyrgð sé á framkvæmd og gæðum skóla- og fræðslustarfs. Menntastofnanir skulu sjálfar bera ábyrgð á innra mati en ráðuneyti og sveitarfélög á ytra mati. Ytra mat skal vera reglulegt og fylgt eftir með markvissum umbótastuðningi í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og annarra fræðsluaðila. Ráðuneytið safnar upplýsingum um skóla- og fræðslustarf, meðal annars með þátttöku í alþjóðlegum könnunum á námsárangri. Í forgangi er að niðurstöður í ytra og innra mati séu nýttar til umbóta, sjálfsmats og lærdóms. Skilgreina þarf lykilmælikvarða árangurs, birta þá reglulega og rýna þá til gagns.

Skilvirk ráðstöfun fjármuna

Ísland setur fjárfestingu í menntun í öndvegi og gerir kröfu um að sú fjárfesting nýtist vel, markmiðum menntastefnu sé náð og tryggt sé að þróun menntakerfis mæti þörfum samfélagsins. Þess vegna þarf menntakerfið að vera vel fjármagnað og fjárveitingar skýrar og unnar á faglegum forsendum eftir skilvirka greiningu. 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum