Hoppa yfir valmynd

Hæfni fyrir framtíðina

Læsi

Það er hluti þjóðmenningar okkar að allir geti lesið sér til gagns og gamans. Læsi er lykill að lífsgæðum og endurspeglar hæfni fólks til að skynja og skilja umhverfi sitt, náttúru og samfélag á gagnrýninn hátt og eflir það til virkar þátttöku í mótun þess. Lestur er öflugasta tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti er forsenda þátttöku í lýðræðissamfélagi. Þess vegna leggur menntastefna sérstaka áherslu á málskilning, lesskilning, tjáningu, ritun og hlustun og aðgerðir sem miða að því að mæta þeim sem glíma við lestrarörðugleika. Leitast verður við að tryggja virkni alls samfélagsins við að bæta læsi og þá sérstaklega aðkomu heimila, bókasafna, rithöfunda og fjölmiðla.

Framþróun íslenskunnar

Við stöndum vörð um og aukum áhuga á íslenskri tungu og menningu hjá öllum kynslóðum. Tryggja þarf að íslenska og íslenskt táknmál verði notað á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.

Vísindi og rannsóknir

Vísindi og rannsóknir eru grunnur öflugs þekkingarsamfélags sem leggur rækt við menntun, nýsköpun, menningu, velferð, lýðræði og mannréttindi. Frjáls þekkingarleit sem byggist á áhuga, fróðleiksfýsn og sköpunargleði vísindafólks er lykilþáttur í framþróun auk þess að vera grundvöllur samfélagsbreytinga. Stuðla þarf að öflugri miðlun vísindalegrar þekkingar til fólks á öllum aldri.

Starfs-, iðn- og tækninám

Hugvitsdrifið samfélag framtíðarinnar kallar á aukna áherslu á starfs-, iðn- og tækninám. Slíkt nám verður eflt með það að leiðarljósi að færni þróist í takt við þarfir samfélagsins og áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Ungu fólki, óháð kyni, skal boðið upp á starfsnám við hæfi og grunnskólanemendur fái kennslu í iðn- og tæknigreinum. Veitt skal innsýn í fjölbreytt starfs-, iðn- og tækninám á framhaldsskólastigi og nemendum kynntar með skipulögðum hætti námsleiðir sem bjóðast og starfsmöguleikar í kjölfar þeirra.

Stafræn tilvera

Nemendur skulu skilja bæði tækifæri og áskoranir stafrænnar tilveru. Nemendur fái þjálfun í upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi. Samhliða hagnýtingu stafrænnar tækni skulu nemendur fá tækifæri til að auka þekkingu sína á persónuvernd og meðferð og greiningu upplýsinga. Hugað verður að notkun nemenda á samfélagsmiðlum og þeim kennd ábyrg nethegðun og helstu reglur um örugg stafræn samskipti.

List- og verknám

Í list- og verkgreinum felast tækifæri til að þroska huga og hönd við lausnamiðað starf og nýsköpun. Listsköpun í námi og áhersla á verkgreinar styrkir hagnýtingu þekkingar og markar framtíðarumhverfi nemenda með jákvæðum hætti.

Náms- og starfsráðgjöf

Farsæll námsferill krefst þess að nemandinn taki upplýstar og ígrundaðar ákvarðanir um nám sitt út frá eigin áhugasviðum, styrkleikum og gildum. Náms- og starfsráðgjöf styður við stöðuga starfsþróun einstaklinga út starfsævina ásamt hæfninni til að stýra eigin náms- og starfsferli í ljósi breyttra atvinnu- og samfélagshátta. Lögð er áhersla á að allir finni hæfni sinni farveg og tilgang með námi sínu, þannig má meðal annars draga úr brotthvarfi og styðja við atvinnuþátttöku. Náms- og starfsráðgjöf á að vera aðgengileg á öllum skólastigum, óháð aldri og búsetu, og veitt af þar til bærum sérfræðingum.

Sköpun og gagnrýnin hugsun

Allir geti beitt rökvísi, ígrundun og hafi hugrekki til að skapa. Lögð skal áhersla á sköpun í öllu skólastarfi til að stuðla að persónulegum þroska, frumkvæði og nýsköpun. Unnið skal með samspil gagnrýninnar hugsunar og sköpunar til þess að þroska sjálfstætt gildismat nemenda, styrkja hæfni til að setja ólíkar niðurstöður í samhengi og efla þroska til samfélagslegar umræðu. Forsenda þess að virkja og viðhalda sköpunarkrafti og -kjarki nemenda er að þeim sé búið námsumhverfi þar sem hvatt er til frumkvæðis, sjálfstæðis og skapandi hugsunar á öllum sviðum.

Menntun alla ævi

Góð og fjölbreytt menntun á öllum skólastigum og aðgengi fólks á öllum æviskeiðum að menntun er forsenda fyrir því að á Íslandi búi fólk með þekkingu og færni til að leita nýrra leiða og skapa ný tækifæri. Hún stuðlar að því að samfélagið geti brugðist við örum og sífelldum breytingum á atvinnuháttum og tryggir starfsþróun og hreyfanleika á vinnumarkaði.

 
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum