Hoppa yfir valmynd

Vellíðan í öndvegi

Heilsuefling

Mikilvægt er að fylgjast með líðan allra nemenda og bregðast skjótt við með viðeigandi aðgerðum í góðri samvinnu heimila, skóla og annarra fagaðila þegar vísbendingar koma fram um vanlíðan nemenda eða ofbeldi af einhverju tagi. Mikilvægt er að gætt sé að jafnréttissjónarmiðum og að nemendum stafi ekki ógn af andlegu, líkamlegu, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi, áreitni og einelti. Í því sambandi er mikilvægi kynfræðslu áréttað. Leitað skal leiða til að stuðla að aukinni heilsueflingu á öllum skólastigum.

Geðrækt

Gæta skal að tilfinningalegri og félagslegri heilsu nemenda og því að efla aðstæður í daglegu lífi sem stuðla að sem bestri líðan. Sóknarfæri til að efla geðheilsu eru einna mest í æsku og því áhersla á að hlúa að þeim verndandi þáttum sem vega þyngst hvað geðheilsu varðar á æskuárunum.

Forvarnir

Á öllum skólastigum, skólagerðum og í frístundastarfi verður áhersla á forvarnir með kennslu og þjálfun í hegðunar-, félags- og tilfinningafærni til að styrkja nemendur. Þannig er einnig lagður grunnur að því að fyrirbyggja þróun óheilbrigðra samskipta og ofbeldis.

Rödd nemenda

Frá fyrstu tíð skal rödd nemenda heyrast og þeir fá tækifæri til að hafa áhrif á námsumhverfi sitt. Gæta verður að því að nemendur geti óháð aldri látið í ljós skoðanir sínar og að tekið sé réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Með innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í skólastarfi er aukin þátttaka barna í allri ákvörðunartöku og nemendalýðræði virkjað á markvissan hátt. Nemendur skulu taka þátt í að móta jákvæðan skólabrag og samskiptareglur. Áhersla er lögð á að nemendur læri að bera ábyrgð á eigin námi, venji sig á gott vinnulag, þrói með sér vaxtarhugarfar og læri að setja sér markmið. Þessi áhersla skal vera jafnt innan skóla sem og í starfi frístundaheimila, félagsmiðstöðva, ungmennahúsa og öðru skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi enda lýðræði undirstaða í öllu starfi með ungmennum.

Vellíðan allra

Hamingja og vellíðan allra skal vera í öndvegi. Tryggt skal að enginn sé undanskilinn með því að leggja áherslu á jafnrétti, samábyrgð, samstöðu, viðurkenningu fyrir ólíkum sjónarmiðum og virðingu fyrir margbreytileika og fjölbreyttum menningarheimum nemenda. Í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi er unnið að eflingu umburðarlyndis, mannréttinda- og lýðræðisvitundar. 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum