Sameining sveitarfélaga
1. Óformlegar viðræður
Valkostagreining
Þegar sveitarstjórnir ákveða að skoða möguleika á sameiningu sveitarfélags við eitt eða fleiri sveitarfélög liggja sameiningarkostir oft beint við, t.a.m. í ljósi reynslu sveitarfélags af samvinnu við önnur sveitarfélög um lögbundin eða ólögbundin verkefni, landfræðilegrar legu eða annarra þátta. Í öðrum tilvikum koma fleiri en einn valkostur til greina. Þegar svo háttar til er oft tekin ákvörðun um að láta gera svokallaða valkostagreiningu fyrir sveitarfélagið.
Valkostagreining felur í sér samtal við sveitarstjórn og íbúa um styrkleika, veikleika, ógnir og tækifæri sveitarfélagsins, áherslur sveitarfélagsins í tengslum við sameiningu og mat á helstu sameiningarkostum.
Dæmi um ferli valkostagreiningar:
- Vinnustofa með sveitarstjórn um ferlið framundan, áherslur sveitarfélaga í sameiningarferlum og mögulega sameiningarkosti sveitarfélagsins.
- Vinnustofa með sveitarstjórn um styrkleika, veikleika, ógnir og tækifæri sveitarfélagsins. Farið yfir upplýsingar um áherslur og lykilþætti í starfsemi sveitarfélaga sem kemur til greina að sameinast.
- Íbúafundur þar sem leitast er við að leita álits íbúa um hvað skipti þá mestu máli.
- Vinnustofa með sveitarstjórn þar sem helstu niðurstöður vinnunnar að ofan eru dregnar saman.
- Skilafundur þar sem helstu niðurstöður eru kynntar fyrir sveitarstjórn.
Góð valkostagreining felur í sér virka þátttöku kjörinna fulltrúa, starfsfólks og íbúa í sveitarfélaginu. Með sama hætti er gagnlegt að leita til landshlutasamtaka og þróunarfélaga í viðkomandi fjórðungi eftir þekkingu og reynslu.
Jarðvegur kannaður
Þegar sveitarfélag hefur í ljósi greiningar, valið og fengið jákvæð viðbrögð frá öðru/m sveitarfélögum um að kanna jarðveg sameiningar er hægt að hefja óformlegar sameiningarviðræður. Slíkar viðræður af því tagi fela í sér mat á stöðu sveitarfélaganna, sameiningu og því hvort viðkomandi sveitarstjórnir eru sammála um meginatriði. Sveitarstjórnir geta dregið sig til baka úr óformlegum sameiningarviðræðum án þess að slíkt dragi dilk á eftir sér.
2. Formlegar viðræður
Samstarfsnefnd
Þegar óformlegar viðræður leiða til ákvörðunar sveitarstjórnar um að hefja formlegar sameiningarviðræður er skipuð samstarfsnefnd viðkomandi sveitarfélaga til að vinna að svokölluðu áliti um sameiningu sveitarfélaganna. Hver sveitarstjórn kýs fulltrúa (venjulega tvo) í samstarfsnefndina. Hefð hefur skapast fyrir því að samstarfsnefndir hafi með höndum viðamikinn undirbúning sameiningarinnar.
Fyrsta verk hennar er að velja sér formann og skipuleggja vinnuna framunda, þ.e. setja upp verk- og tímaáætlun. Veigamikill þáttur í vinnu samstarfsnefndarinnar er að skipa og fylgja eftir vinnu undirhópa um ólíka starfsemi sveitarfélaganna ásamt því að tryggja samráð og upplýsingamiðlun til íbúa á á svæðinu.
Stuðningur Jöfnunarsjóðs
Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að tryggja að kostnaður sveitarfélaga við sameiningar standi ekki í vegi fyrir mögulegri sameiningu og að hið nýja sameinaða sveitarfélag standi ekki verr að vígi gagnvart Jöfnunarsjóði en hvert um sig gerði fyrir sameiningu.
Jöfnunarsjóður veitir fjárhagslega aðstoð við sameiningu sveitarfélaga á grundvelli reglugerðar nr. 782/2020. Í reglugerðinni er ítarlega farið yfir skilyrði fyrir aðstoðinni. Þar kemur til að mynda fram að veittur sé styrkur fyrir raunkostnaði sveitarfélaga af könnun og hagkvæmni sameiningar, kynningu á sameiningartillögum og framkvæmd atkvæðagreiðslu um sameiningartillöguna.
Skilyrði fyrir framlaginu er að lögð hafi verið fyrir ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs áætlun um kostnaðinn áður en stofnað er til hans. Ekki er þó gert ráð fyrir framlagi vegna vinnu starfsfólks sveitarfélaga við upplýsingagjöf sameiningarnefndar eða starfsfólks þeirra.
Með sama hætti er veittur styrkur til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga við sameiningu og til endurskipulagningar þjónustu og stjórnsýslu í allt að sjö ár frá sameiningu. Þá er veitt svokallað byggðaframlag á grundvelli íbúafjölda síðustu fimm ára fyrir sameiningu. Ef fjölgun íbúa í sveitarfélagi hefur verið undir meðalfjölgun íbúa á landsvísu er veitt 500.000 kr. framlag fyrir hvern íbúa sem vantar til að ná landsmeðaltali. Ef íbúum hefur fækkað á tímabilinu er veitt einnar milljón króna framlag fyrir hvern íbúa undir landsmeðaltali. Framlag samkvæmt þessum lið getur að hámarki numið 200 milljónum króna.
Athygli er vakin á yfirliti um fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs við sveitarfélög óháð því hvaða sveitarfélagi er sameinast.
3. Undirbúningur
Verkefni samstarfsnefndar
Samstarfsnefndin ber ábyrgð á vinnu álit til sveitarstjórnar, þ.e. að greina og draga upp framtíðarsýn af sameinuðu sveitarfélagi. Nefndin hefur umtalsvert frelsi um ferlið og ræður oft utanaðkomandi ráðgjafa sér til aðstoðar við stjórnun og upplýsingaöflun. Þegar stefnt er að umfangsmikilli sameiningu skipar samstarfsnefndin oft framkvæmdaráð sér til aðstoðar.
Hefðbundinn liður í sameiningarferlinu er skipun undirhópa um afmörkuð málefni, s.s. stjórnsýslu, skipulagsmál, menningu, fræðslu- og velferðarmál. Undirhóparnir eru gjarnan skipaðir kjörnum fulltrúum, starfsfólki og sérfræðingum á viðkomandi sviði. Hóparnir vinna greiningu á stöðu, hindrunum og ávinningi sameiningar fyrir viðkomandi málaflokka og kalla eftir sérfræðiþekkingu ef þurfa þykir. Á vefsíðum sameiningarverkefna á borð við thingeyingur.is er hægt að nálgast sýnishorn af minnisblöðum undirhópa um fjölbreytta málaflokka.
Vel hefur gefist að setja upp vefsíður eins og hunvetningur.is; thingeyingur.is; skagfirdingar.is og svsudurland.is um tiltekin sameiningarferli ásamt því að efna til náins samstarfs um upplýsingagjöf við staðbundna fjölmiðla. Á vefsvæðunum geta íbúar og kjörnir fulltrúar nálgast upplýsingar um ferlið, samstarfsnefnd, vinnuhópa, samráðsfundi, fundargerðir og annan framgang tillögugerðarinnar. Brýnt er að tryggja öflugt upplýsingaflæði milli samstarfsnefndar, einstakra undirhópa og kjörinna fulltrúa og íbúa í ferlinu.
Vönduð samskipti
Góður undirbúningur og opið ferli frá upphafi getur skipt sköpum í að byggja upp þekkingu, stuðla að góðu samtali, sátt og samstöðu um markmið með sameiningu sveitarfélaga. Sem dæmi er hægt að nefna að mikilvægt er að endurskoðendur hvers sveitarfélags fyrir sig hafi fullan aðgang að öllum fjármálum hlutaðeigandi sveitarfélaga til að skapa traust og koma í veg fyrir dulin fjárhagsleg vandamál eða skuldbindingar.
Traust er raunar lykilatriði í öllu sameiningarferlinu. Ef upp koma ágreiningsmál er mikilvægt að geta sest niður og leyst málin. Þegar hafist er handa við verkefnið er því mikilvægt að allir sem koma að vinnu við áliti samstarfsnefndarinnar hittist og opni á samtal. Í sumum tilvikum hafa aðilar gert með sér samskiptasáttmála við vinnu verkefnisins.
Virk þátttaka
Ekkert hefur þó meira vægi í undirbúningsferlinu heldur en virk þátttaka íbúa, starfsfólks, kjörinna fulltrúa og annarra hagsmunaaðila. Velja þarf markvissar leiðir til að ná til einstakra hópa, t.a.m. með því að efna til borgarafunda, skipuleggja rýnihópa, heimsækja skóla og aðrar stofnanir og nýta rafrænar leiðir. Taka þarf mið af þörfum einstakra hópa í þessu sambandi, t.a.m. hvað varðar aðgengi, tungumál og aðra samfélagslega þætti.
Ætíð stendur til boða að leita ráðgjafar hjá innviðaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga um ferlið.
4. Kynning
Markvissar leiðir
Þegar samstarfsnefnd hefur mótað álit sitt taka viðkomandi sveitarstjórnir málið á dagskrá sveitarstjórnarfunda. Efnt er til tveggja umræðna um málið án atkvæðagreiðslu. Ekki eru greidd atkvæði um sameiningu því að kosið er um hana í almennum íbúakosningum, sjá umfjöllun um íbúakosningu.
Samstarfsnefndinni eða sveitarstjórn ber að kynna álit sitt um sameiningu fyrir íbúum minnst tveimur mánuðum fyrir kosningu um sameiningu í sveitarfélögunum. Algengast er að kynningarbæklingi með tillögunni og helstu forsendum, s.s. fjárhagslegu hagræði, öflugri þjónustu og sjálfstæði, sé dreift inn á öll heimili í sveitarfélögunum. Mörg góð dæmi um velheppnaða bæklinga og annað kynningarefni um tillögur samstarfsnefnda er að finna á vefsíðum um sameiningarverkefni.
Aðrar leiðir til að kynna álit samstarfsnefndarinnar geta verið að fjalla um hana á íbúafundi, færa hann inn á vefsvæði sveitarstjórnar eða sameiningarverkefnisins. Æskilegt er að fram komi skýrar upplýsingar um kjördag, kjörstaði, opnunartíma þeirra og hvar unnt er að greiða utankjörfundaratkvæði.
Tillaga um sameiningu skal auglýst opinberlega í Lögbirtingarblaðinu og í fjölmiðlum minnst tveimur mánuðum fyrir kosningu.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla
Um utankjörfundaratkvæðagreiðslu um sameiningar sveitarfélaga gilda lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Kosningu utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur.
5. Sameiningarkosningar
Tímasetning
Sveitarstjórnir ákveða sameiginlega í samráði við dómsmálaráðuneytið hvenær sameiningarkosning fer fram og er kosið í öllum sveitarfélögum sama dag. Kosningin fer fram í samræmi við lög um kosningu til sveitarstjórna nr. 5/1998 hvað varðar kjörskrár og um meðferð þeirra og tímafresti þar að lútandi og alla framkvæmd kjörfundar.
Framkvæmd
Brýnt er að sveitarstjórn eða samstarfsnefnd haldi fund með formönnum kjörstjórna með góðum fyrirvara þar sem farið er yfir framkvæmd kosningarinnar. Rétt er að talning atkvæða hefjist alls staðar á sama tíma en ekki er skilyrði að opnunartími kjörstaða sé alls staðar hinn sami. Að öðru leyti skal atkvæðagreiðslan fara eftir ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna kosningu til sveitarstjórna nr. 5/1998 eftir því sem við getur átt.
Kosningaréttur
Kosningarétt hafa allir íslenskir ríkisborgarar 18 ára og eldri með lögheimili í sveitarfélögunum. Einnig hafa danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, kosningarétt. Aðrir erlendir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili á Íslandi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, hafa einnig kosningarétt. Miðað er við skráningu lögheimilis þremur vikum fyrir kjördag.
Aðgengi
Mikilvægt er að huga að aðgengi og réttindum allra til að taka þátt í kosningunum. Athygli er vakin á 57. gr laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 sem kveður á um að það þurfi að vera til staðar spjald jafnstórt kjörseðli með upphleyptum listabókstöfum og blindraletri, með glugga framan við hvern staf og vasa á bakhlið þannig að blindir geti gegnum gluggann sett kross framan við þann lista er þeir gefa atkvæði sitt og á þann hátt kosið í einrúmi og án aðstoðar. Þá er einnig vakin athygli á 63. gr. sömu laga um rétt fatlaðs fólks til þess að njóta aðstoðar við að greiða atkvæði.
Einnig er bent á leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl. nr. 820/2017. skv. 58. gr. laga um kosningar til Alþingis, sem utankjörfundaratkvæðagreiðsla um sameiningar fellur undir. Þar segir að kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða er vistmaður þar, er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða vistmaður á stofnun fyrir fatlað fólk, sé heimilt að greiða atkvæði á viðkomandi stað. Sömu reglur gilda um fangelsi og vistmenn þar.
Atkvæðaseðill
Sveitarstjórn sér um gerð og samræmingu atkvæðaseðils og skal hann staðfestur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Fyrirsögn og litur kjörseðils er mismunandi fyrir hvert sveitarfélag en að öðru leyti mega seðlarnir vera eins. Þvert yfir miðjuna skal setja brot til þess að hægt sé að brjóta kjörseðilinn saman þannig að óprentaða hliðin snúi út. Ráðlagt er að brotið nái ekki alveg út að hægri hlið seðilsins heldur örfáir millimetrar skildir eftir til þess að auðvelda talningu.
Hér má sjá sýnishorn af atkvæðaseðli um sameiningu:
Niðurstaða
Hafi kjósendur í einu sveitarfélaganna fellt sameiningartillöguna geta þó sveitarstjórnir hinna sveitarfélaganna sem stóðu að sameiningarviðræðum ákveðið sameiningu þeirra sveitarfélaga þar sem kjósendur samþykktu sameiningu. Við þessar aðstæður þarf ekki að greiða atkvæði að nýju til þess að af sameiningu þessara sveitarfélaga geti orðið.
6. Innleiðing
Undirbúningsstjórn
Ef sameining sveitarfélaga er samþykkt af íbúum í löglegri kosningu skipar hver sveitarstjórn 2-3 fulltrúa í undirbúningsstjórn til að undirbúa stofnun hins nýja sveitarfélags. Ekkert er því til fyrirstöðu að fulltrúar í samráðsnefndinni séu kosnir aftur í undirbúningsstjórnina með nýtt umboð.
Hlutverk
Hlutverk undirbúningsstjórnarinnar er umfangsmikið rétt eins og hlutverk samráðsnefndarinnar. Veigamikið hlutverk hennar felst í því að móta samþykkt um stjórn og fundarsköp nýja sveitarfélagsins. Stjórnin semur samþykkt fyrir nýja sveitarfélagið til að brúa bilið þar til sameinuð sveitarstjórn setur sér samþykkt. Hún getur einnig tekið ákvörðun um að samþykkt eins af sameinuðu sveitarfélögunum gildi fyrir sameinað sveitarfélag þar til ný sveitarstjórn hafi sett sér samþykkt.
Undirbúningsstjórnin tekur ákvarðanir um fjárhagsmálefni nýs sveitarfélags eftir því sem við á. Löglega kjörnar sveitarstjórnir fara með fjármálavald yfir sveitarfélagi sínu og fjárhagsáætlun hvers sveitarfélags fyrir sig er í gildi þar til nýtt sveitarfélag er stofnað. Sveitarstjórnum viðkomandi sveitarfélaga er óheimilt að skuldbinda sveitarfélag eða samþykkja greiðslur úr sveitarsjóði sem ekki leiðir af lögum, fjárhagsáætlun eða þegar samþykktum viðauka við hana nema allar hlutaðeigandi sveitarstjórnir samþykki slíka ráðstöfun.
Undirbúningur
Undirbúningsstjórnin tekur saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir, gjaldskrár sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og hefur vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu með það að markmiði að ný sveitarstjórn geti svo fljótt sem því verður við komið tekið til umræðu og sett reglugerðir og gjaldskrá fyrir hið nýja sveitarfélag, sem gert skal innan þriggja mánaða frá gildistöku sameiningar.
Rétt er að taka fram að ólíkt því sem við á um samþykkt um stjórn og fundarsköp öðlast tillögur undirbúningsstjórnar um þessa þætti ekki gildi um leið og sameining. Hins vegar mynda þær ákaflega mikilvægan grundvöll að því að ný sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags geti gengið til verks á skýrum og upplýstum grundvelli.
Tillaga um gildistöku
Undirbúningsstjórnin gerir tillögu til ráðuneytis sveitarstjórnarmála um það með hvaða hætti sameiningin taki gildi, þ.e. hvort kosið er til sveitarstjórnar fyrir hið nýja sveitarfélag eða hvort sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga tekur yfir stjórn þess nýja til loka kjörtímabils.
Í tillögu undirbúningsstjórnar fyrir stofnun hins nýja sveitarfélags sem senda skal ráðuneytinu til staðfestingar þarf meðal annars að koma fram hversu marga fulltrúa skuli kjósa í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags. Þá þarf að koma fram með hvaða hætti staðið verði að undirbúningi og framkvæmd kosningar nýrrar sveitarstjórnar.
Fordæmi er fyrir því að sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga sem sameinast í nýtt sveitarfélag, kjósi sameiginlega yfirkjörstjórn en eldri yfirkjörstjórnir gegni hlutverki undirkjörstjórnar í hverju sveitarfélaginu fyrir sig.
7. Gildistaka
Tilkynning um sameiningu
Ráðuneyti sveitarstjórnarmála staðfestir sameiningu sveitarfélaga með tilkynningu í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 124 gr. sveitarstjórnarlaga. Þar er tiltekið hvaða sveitarfélög hafi sameinast og hversu margir muni skipa sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags.
Hafi nafn hins nýja sveitarfélags verið ákveðið kemur nafnið fram í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram með hvaða hætti sameiningin taki gildi, þ.e. hvort kosið verði til sveitarstjórnar hins nýja sveitarfélags eða sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga taki yfir stjórn þess nýja til loka kjörtímabilsins.
Ný sveitarstjórn
Ef ákveðið er að kjósa í sveitarstjórn nýs, sameinaðs sveitarfélags fer kosningin fram að afloknum sameiningarkosningum. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála ákveður að tillögu undirbúningsnefndar hvaða dag kosningin fari fram. Um hana gildir að öðru leyti ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna um skipti á sveitarstjórnum. Nýkjörin sveitarstjórn tekur við stjórn hins nýja sveitarfélags 15 dögum eftir kjördag. Á sama tíma tekur sameining gildi.
Ef sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga tekur yfir stjórn þess nýja til loka kjörtímabils tekur sameining gildi á þeim degi sem ráðuneytið ákveður. Sama dag fellur umboð annarra sveitarstjórna hinna sameinuðu sveitarfélaga úr gildi.
Ákvarðanataka
Sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags skal svo fljótt sem hægt er taka til umræðu og setja nýjar samþykktir, reglugerðir og gjaldskrár fyrir nýtt sveitarfélag. Í því ferli er mikils virði að byggt sé á vandaðri vinnu undirbúningsstjórnarinnar. Ákjósanlegt er að ferlið gangi fljótt fyrir sig til að mismuna ekki íbúum innan hins sameinaða sveitarfélags.
Sveitarstjórn er heimilt að ákveða að tilteknar reglur eða samþykktir eins af sameinuðu sveitarfélögunum skuli gilda fyrir hið nýja sveitarfélag í heild á meðan unnið er að setningu nýrra reglna. Um slíka ákvörðunartöku gilda sömu reglur og um setningu nýrra reglna í viðkomandi málaflokki, þar á meðal kröfur um tvær umræður eða staðfestingu ráðherra ef við á.
Á meðan unnið er að því að setja viðeigandi reglur fyrir nýtt sveitarfélag skulu eldri reglur gilda í hverju hinna eldri sveitarfélaga þó ekki lengur en í þrjá mánuði frá gildistöku sameiningar. Að því leyti sem ákvörðunum, svo sem um skatta, verður ekki breytt innan ársins vegna ákvæða annarra laga er heimilt að hafa mismunandi reglur innan hins nýja sveitarfélags þann tíma sem af ákvæðum viðkomandi laga leiðir.
Nafngift
Sveitarstjórn tekur ákvörðun um hvaða nafn nýja sveitarfélagið fær að fenginni umsögn örnefnanefndar að því er fram kemur í 5. gr. sveitarstjórnarlaga. Algengt er að fram fari könnun meðal íbúa á því hvaða nafn þeir kjósa helst fyrir hið nýja sveitarfélaga. Þegar sú leið er farin þarf að leita umsagnar örnefnanefndar um þau nöfn sem um ræðir. Umsögn örnefnanefndar skal liggja fyrir áður en ákvörðun um nýtt heiti er staðfest af ráðuneyti sveitarstjórnarmála. Sama á við ef ákveðið er að nota nafn eins af sameinuðu sveitarfélögunum. Nýtt heiti tekur gildi við birtingu samþykktar um stjórn sveitarfélags eða við breytingu hennar til samræmis við nýtt heiti sveitarfélags.
Nafn nýja sveitarfélagsins verður að samrýmast íslenskri málfræði og málvenju. Ekki er skylt að nafnið beri með sér að um stjórnsýslueiningu er að ræða, þ.e. að heiti sveitarfélagsins endi á hreppur, bær, byggð, kaupstaður o.s.frv. Ef nafn sveitarfélagsins er tengt ákveðnu svæði sérstaklega og endar ekki á „skilgreiningu á stjórnsýslueiningu“ hefur myndast hefð fyrir að það skuli einkennt með orðinu „Sveitarfélag“, sbr. Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Hornafjörður og Sveitarfélagið Skagafjörður.
8. Eftirfylgni
Virk þátttaka
Innleiðing sameiningar og nýrrar framtíðarsýnar fyrir sameinað sveitarfélag er einn mikilvægasti þáttur sameiningarferlisins. Þar skiptir virk þátttaka kjörinna fulltrúa, starfsfólks og íbúa höfuðmáli. Mest er um vert að kjörnir fulltrúar tali sig niður á sameiginlega niðurstöðu um sameiningu strax í upphafi og tali fyrir henni í öllu sameiningarferlinu enda þótt þeir þurfi vissulega að vera tilbúnir að hlusta og tileinka sér lausnamiðaða nálgun gagnvart gagnrýni íbúa.
Einnig er mikilvægt að kjörnir fulltrúar hlusti eftir og taki mið af áhyggjum starfsfólks, sýni þeim fram á ávinning og feli þeim hlutverk í sameiningarferlinu. Síðast en ekki síst er mikilsvert að kjörnir fulltrúar og aðrir hlutaðeigandi tryggi virka þátttöku íbúa í sjálfu innleiðingarferlinu, t.a.m. með því að leiða íbúa saman á hugmyndafundum eða öðrum vettvangi.
Fjármál
Vönduð fjármálastjórn er undirstaða fyrir svigrúm og getu hins nýja sveitarfélags til að ná árangri. Í Vegvísi, leiðbeiningum fyrir samstarfsnefndir um sameiningu sveitarfélaga er sveitarstjórnum m.a. ráðlagt að gera félags- og hagfræðilega greiningu á sveitarfélaginu. Greining á þáttum eins og íbúafjölda, aldurssamsetningu, atvinnulífi, menntamálum og tekjugrundvelli gefur jafnan góða mynd af væntanlegum tekjum og útgjöldum hins nýja sveitarfélags.
Þá er sveitarstjórnarfólki ráðlagt að ástunda vandaða fjármálastjórnun og vera raunsætt í mati á því hvar sé mögulegt að ná fram stærðarhagkvæmni í upphafi og á síðari stigum. Í leiðbeiningunum má einnig finna ráðleggingar um skipulag og stjórnun og fleiri mikilvæga þætti í innleiðingu nýs sveitarfélags.
Rafræn samskipti
Þróun rafrænna samskipta og stafrænnar þjónustu er mikilvægur þáttur í uppbyggingu nútímalegra starfshátta sveitarfélaga. Stafrænar samskiptaleiðir geta stuðlað að vandaðri stjórnsýslu, betra og jafnara aðgengi, faglegri þjónustu og tækifærum til virkara íbúalýðræðis.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur haft forgöngu um stofnun stafræns ráðs sveitarfélaganna til að stuðla að samlegð þeirra og samstarfi við ríkið í stafrænni umbreytingu. Með sama hætti er lögð áhersla á eflingu rafrænnar þjónustu og íbúalýðræði í stefnu og aðgerðaráætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga til ársins 2033. Hægt er að fylgjast með stöðu stafrænna verkefna og annarra verkefna aðgerðaráætlunarinnar á vef samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytisins. Virk þátttaka sameinaðra sveitarfélaga í verkefnum á sviði stafrænnar umbreytingar auka líkur á jákvæðri upplifun íbúa af sameiningu.
Að lokum
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vonar að sameiningarvefurinn komi kjörnum fulltrúum og öðrum hagsmunaaðilum að gagni í vinnu við sameiningu sveitarfélaga. Ferli sameiningar er margþætt og getur virst flókið. Því er mikilsvert að stíga varlega til jarðar, sýna þolinmæði og leita ráðgjafar hjá ráðuneytinu eða utanaðkomandi sérfræðingum þegar á þarf að halda.
Reynsla sveitarfélaganna hefur sýnt að vel heppnað sameiningarferli er allra hagur.
Gangi ykkur vel!
Hvers vegna?
Á Íslandi eru tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög. Stjórnsýsla ríkisins nær til íbúa á landinu öllu og stjórnsýsla sveitarfélaganna nær til íbúa í viðkomandi sveitarfélögum. Með tvískiptingunni er stuðlað að valddreifingu og tækifæri til að sníða stjórnsýslu og þjónustu að þörfum íbúa í hverju sveitarfélagi fyrir sig.
Vaxandi ábyrgð sveitarfélaga á þjónustu við íbúa hefur kallað á eflingu sveitarfélaga í landinu. Stjórnvöld hafa stuðlað að því með ákvæði um lágmarksíbúafjölda og öðrum aðgerðum í Stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023 og breytingum á sveitarstjórnarlögum. Markmiðið er að styrkja sveitarfélögin til að gera þau sjálfstæðari, auka sjálfbærni þeirra og færni til að takast á við framtíðar áskoranir.
Efnið hér að ofan veitir gagnlegar upplýsingar um ferli sameininga í samræmi við gildandi sveitarstjórnarlög og reynslu sveitarfélaga af sameiningarferli.
Efnið er sett fram í 8 köflum: Óformlegar viðræður, formlegar viðræður, undirbúningur, kynning, sameiningarkosningar, gildistaka, innleiðing og eftirfylgni.
Reynsla sveitarfélaganna hefur sýnt að vel heppnað sameiningarferli er allra hagur.
Innviðaráðuneytið ber ábyrgð á textanum og er lesendum bent á að senda fyrirspurnir og ábendingar til ráðuneytisins í gegnum netfangið [email protected].
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.