Stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands
Hálendi Íslands er einstakt á heimsvísu. Öræfin, fjöllin, jöklarnir, grjótið, gróðurinn og vötnin. Og kyrrðin. Það eru ekki margar þjóðir sem eiga slíkt samansafn af gersemum og hvað þá á eins víðfeðmu svæði. Á hálendi Íslands eru ein stærstu óbyggðu víðerni í allri Evrópu.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að stofna skuli þjóðgarð á miðhálendi Íslands, en allt frá árinu 2016 hefur verið unnið að þróun þessarar hugmyndar á vegum stjórnvalda í nánu samstarfi við fjölmarga hagsmunaaðila. Þjóðgarðurinn yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu og myndi skapa fjölda efnahagslegra tækifæra fyrir byggðirnar í kring.
Í desember árið 2019 voru drög að lagafrumvarpi um stofnun Hálendisþjóðgarðs sett í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið byggði á viðamikilli vinnu nefndar sem í sátu fulltrúar allra þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og forsætisráðuneytis. Í byrjun árs 2020 kynnti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, áformin á átta opnum fundum víðsvegar um landið.
Fyrir tilstilli kórónuveirufaraldursins þurfti að fresta mörgum málum sem átti að taka fyrir á Alþingi vorið 2020. Frumvarp um stofnun Hálendisþjóðgarðs er eitt þessara frumvarpa en það verður á þingmálaskrá haustsins 2020.
NÁTTÚRUVERND
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.