Hoppa yfir valmynd

Lyfjaeftirlit í íþróttum

Umsjón lyfjaeftirlitsmála í íþróttum hérlendis hefur frá upphafi verið í höndum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Skipulag og framkvæmd lyfjaprófanna sjálfra er í höndum Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ, auk þess kemur nefndin að fræðslumálum með Lyfjaráði ÍSÍ. Lyfjaráð er framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum til ráðgjafar um málefni er snúa að lögum og reglum tengdum lyfjamisnotkun og eftirliti með íþróttamönnum. Auk þess hefur Lyfjaráð ákæruvald í málum er lúta að lyfjamisnotkun í íþróttum. Einn starfsmaður í hálfu starfi á skrifstofu ÍSÍ sinnir  lyfjaeftirlitsmálum.

Með lögum nr. 124/2012 um breytingu á íþróttalögum, nr. 64/1998, var ákveðið að mennta- og menningarmálaráðherra standi fyrir lyfjaeftirliti í íþróttum í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar og honum sé heimilt að fela þar til bærum aðila framkvæmd lyfjaeftirlits með þjónustusamningi til allt að fimm ára í senn. Í samningnum skal meðal annars kveða á um málsmeðferð við lyfjaeftirlit og mat og eftirlit með framkvæmd þess.

Evrópusamningur Evrópuráðsins gegn misnotkun lyfja í íþróttum tók gildi að því er Ísland varðar þann 1. maí 1991. Með undirritun samningsins fyrir Íslands hönd tók ríkisstjórn Íslands ábyrgð á skipulagi og framkvæmd eftirlits með lyfjamisnotkun íþróttafólks á Íslandi gagnvart Evrópuráðinu og öðrum samningsaðilum. Með samkomulagi milli menntamálaráðuneytisins og Íþróttasambands Íslands í október 1993 fól ríkisstjórnin íþróttahreyfingunni skipulag og framkvæmd lyfjaeftirlitsins, gegn því að ráðuneytið greiddi helming þess kostnaðar sem af því hlaust. Sökum þess að stjórnvöld bera ábyrgð á því að ákvæði Evrópusamningsins séu uppfyllt af Íslands hálfu hafa þau tekið á sig kostnað og ábyrgð  í þessu mikilvæga verkefni.

Aðild Íslands að UNESCO samningnum gegn misnotkun lyfja í íþróttum var staðfest í byrjun árs 2006.  Alþjóðasamningur UNESCO gegn misnotkun lyfja í íþróttum tók  gildi 1. febrúar 2007. Markmið með samningnum er að stuðla að forvörnum og vinna gegn misnotkun lyfja í íþróttum með það leiðarljósi að uppræta hana. Í samningnum er að finna að mestu leyti sambærilegar skuldbindingar og í Evrópusamningi  Evrópuráðsins gegn misnotkun lyfja í íþróttum.

Í UNESCO samningnum eru ákvæði sem styðja alþjóðalyfjaeftirlitssamning Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar (World Anti Doping Agency-WADA) og skuldbinda stjórnvöld aðildarþjóða til  að vinna í samræmi við samninginn undir forystu WADA. Samningurinn stuðlar þannig að því að samræma  alþjóðlegar lyfjaeftirlitsreglur, stefnu og starf til að skapa heiðarlegar og sanngjarnar keppnisaðstæður fyrir allt íþróttafólk.

WADA fer með heildarstefnumótun og reglugerðarvald yfir lyfjaeftirlitinu á heimsvísu. Að stofnuninni koma annars vegar stjórnvöld aðildarríkja og svo íþrótta- og Ólympíuhreyfingin hins vegar. UNESCO samningurinn um lyfjaeftirlit er grundvöllur þess að stjórnvöld og íþróttahreyfingin geti unnið saman að þessu málefni eins og raun ber vitni með sameiginlegri ábyrgð á málaflokknum. Alþjóðalyfjasáttmálinn var síðast endurskoðaður fyrir heimsráðstefnu WADA sem var síðast haldin haustið 2007 og tók nýr sáttmáli gildi um áramótin 2008/2009. Í stjórn WADA sitja bæði fulltrúar heimsálfa og íþróttasamtaka víða um heim.

Stjórnvöld skulu uppfylla  UNESCO samninginn um lyfjaeftirlit með ýmsu móti m.a. með setningu laga og reglugerða, stefnumótun og stjórnsýsluaðgerðum.  Stjórnvöldum ber jafnframt að gera  ráðstafanir á þeim sviðum sem tíunduð eru í samningnum.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 8.10.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira