Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

04. maí 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðFJR Fréttir

Áskorun og árangur íslenska hagkerfisins

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 7/2007

Mynd af Árna M. MathiesenErindi fjármálaráðherra á Reuters Brightspot ráðstefnu á Nordica Hotel í Reykjavík 3. maí sl.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, flutti erindið Áskorun og árangur íslenska hagkerfisins á ráðstefnu Reuters um fjármálaupplýsingar.

Í erindinu kom fram að íslenska hagkerfið er tekið að leita jafnvægis eftir mikinn uppgang í kjölfar stóriðjuframkvæmda og nýjunga í fjármálakerfinu, sem er vel eftir þann mikla óróleika sem skapaðist fyrir rúmu ári. Draga má mikinn lærdóm af nýliðinni þróun um innviði íslenska hagkerfisins, ekki síst um áhrif skipulagsbreytinga og hagstjórnar til að styrkja það og núverandi stöðu þess í alþjóðlegu samhengi.

Margvíslegar skipulagsbreytingar, þ.á.m. opnun hagkerfisins og skattabreytingar, hafa leyst úr læðingi krafta framfara. Við það hefur hagur fyrirtækja og heimila vænkast mikið og efnahagslífið orðið fjölbreyttara. Kröftug uppsveifla efnahagslífsins og umtalsvert tímabundið ójafnvægi vakti athygli fyrir utan landsteinana og vöknuðu við það margar gagnrýnisraddir um að efnahagslífið myndi fá harða lendingu með tilheyrandi óstöðugleika fjármálakerfisins.

Fjármálafyrirtækin, hagsmunasamtök og stjórnvöld brugðust rétt við þeirri áskorun og hafa þær raddir síðan þagnað og trúverðugleiki fjármálafyrirtækjanna aukist á ný. Ráðherra fór yfir þau atriði sem höfðu mest áhrif til að draga úr þeim óróleika sem myndaðist, þ.á.m. aðgerðir fyrirtækjanna sjálfra og hagstjórnaráherslur stjórnvalda.

Lagði hann áherslu á mikilvægi peningastefnu Seðlabankans, sterka stöðu ríkissjóðs og sveiflujafnandi áhrif ríkisfjármála til að draga úr innlendri eftirspurn þegar þenslan stóð sem hæst og viðhalda trúverðugleika. Útlitið er nú bjartara en fyrir ári og líkur á að kaupmáttur heimilanna aukist áfram á komandi árum.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum