Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. mars 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða á ársfundi Seðlabankans


I.
Ágætu ársfundargestir.
Í nýlegri skýrslu World Economic Forum um samkeppnishæfni þjóða lenti Ísland um miðjan hóp þeirra fimmtíu þjóða sem þar voru bornar saman. Það er ekki síst uppbygging, eignarhald og lítil samkeppni á fjármagnsmarkaðnum sem setur okkur skorður í samkeppnishæfni.

Með þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur nú lagt fram á Alþingi um breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög og stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóðs eru boðaðar róttækustu og umfangsmestu skipulags- og hagræðingaraðgerðir sem gerðar hafa verið á íslenskum fjármagnsmarkaði um langt skeið. Megintilgangur aðgerðanna er að stuðla að því að íslenskur fjármagnsmarkaður geti í framtíðinni séð einstaklingum og fyrirtækjum fyrir öflugri og hagkvæmri þjónustu á sem hagstæðustum kjörum og um leið að treysta samkeppnishæfni þjóðarinnar.

II.
Lengi hefur verið rætt um nauðsyn þess að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög, meðal annars í því skyni að jafna samkeppnisaðstæður á íslenskum fjármagnsmarkaði, treysta samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja og auka samkeppni á markaðnum. Nú hillir undir að það takist.

Frumvarpið um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna gerir ráð fyrir meirihlutaeign ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. fyrstu rekstrarár hlutafélaganna. Ríkisstjórnin telur að tryggja verði hlutafélagsbönkunum nokkurn tíma til að sanna að þeir njóti sama trausts og fyrirrennarar þeirra. Þau sjónarmið hafa komið fram að óvissa um eignarhald hlutafélagsbankanna geti leitt til þess að þeir eigi erfiðara með að ná hagstæðum kjörum í lánasamningum við erlenda lánveitendur. Til að tryggja festu í rekstri hlutafélagsbankanna er miðað við að ríkissjóður haldi meirihluta í þeim fyrstu fjögur rekstrarár þeirra. Mikilvægt er hins vegar að nýjum aðilum gefist færi á að eignast hlut í þeim sem fyrst eftir formbreytinguna.

III.
Uppstokkun fjárfestingarlánasjóðskerfisins hefur verið til umræðu á annan áratug án þess að nokkuð markvert hafi gerst. Nú hefur ríkisstjórnin hins vegar lagt fram á Alþingi frumvörp sem gera ráð fyrir að Fiskveiðisjóður, Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður og Útflutningslánasjóður verði sameinaðir í einn öflugan fjárfestingarbanka fyrir atvinnulífið. Við sameininguna verði jafnframt myndaður Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

Tilgangurinn er að fækka lánastofnunum í eigu ríkisins, að draga úr áhrifum ríkisins á fjármagnsmarkaðnum með einkavæðingu, að brjóta niður þá múra sem verið hafa í íslensku atvinnulífi og að draga úr kostnaði íslenskra fyrirtækja við langtímafjármögnun með minni vaxtamun og bættri þjónustu.

Það er mat ríkisstjórnarinnar að framtíðarhlutverk ríkisins á fjármagnsmarkaði, auk hins opinbera tilsjónarvalds, verði fyrst og fremst að tryggja að fyrir hendi sé fjárfestingarþjónusta eins og verkefnafjármögnun og bein áhættufjármögnun. Meðal annars þess vegna þarf einnig að aðgreina áhættufjármögnun frá hefðbundinni fjárfestingarlánastarfsemi. Hlutverk Nýsköpunarsjóðs verður fyrst og fremst að stuðla að arðbærri uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar með áhættufjármagni og að styðja við þróunar- og kynningarverkefni.

Megináhersla í starfsemi Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. mun hins vegar snúa að hefðbundinni starfsemi sem tengist veitingu langtímaveðlána. Auk þess má ætla að hann komi til með að sinna fjármögnun skilgreindra og afmarkaðra verkefna. Þá er ljóst að fjárfestingarbankanum verða sett ströng markmið um hagkvæmni og ódýra þjónustu.

Fjárfestingarbanki af þessu tagi getur náð hagstæðum samningum við lánveitendur og með því, ásamt lágum rekstrarkostnaði, veitt fyrirtækjum hagstæð lán og skapað starfandi viðskiptabönkum heilbrigða samkeppni og jafnframt verið í samstarfi við þá um fjármögnun stórverkefna ef svo ber undir. Einnig er með þessari leið varðveitt og nýtt mikil fyrirliggjandi þekking núverandi sjóða á atvinnulífinu og náin tengsl þeirra við viðskiptafyrirtæki sín.

IV.
Við undirbúning að endurskipulagningu sjóðakerfisins var leitað til ýmissa aðila um mat á helstu leiðum við endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna. Meðal annars var leitað til fjármálafyrirtækisins JP-Morgan í London.

Það er mat JP-Morgan að með tilliti til líklegrar þróunar næstu ára, megi ætla að starfsemi fjárfestingarlánasjóða og viðskiptabanka verði samþætt, meðal annars vegna þess að viðskiptamenn þessara stofnana séu að miklu leyti hinir sömu. Engu að síður er það niðurstaða athugunarinnar að fjárfestingarlánasjóðir muni áfram hafa hlutverki að gegna. Einkum er bent á tvö atriði sem marka fjárfestingarlánasjóðunum sérstöðu sem geti nýst íslensku atvinnulífi.

Annars vegar eru möguleikar sjóðanna til að viðhalda og þróa áfram náin tengsl sín við atvinnulífið, sem leiði til bættrar þjónustu á þessu sviði. Þannig geti slíkir sjóðir veitt þjónustu til hliðar við þjónustu viðskiptabanka og annarra fjármálafyrirtækja og verið valkostur við aðra starfsemi á fjármagnsmarkaði.

Hins vegar geta fjárfestingarlánasjóðirnir áfram veitt langtímalán á mjög hagstæðum kjörum, vegna góðrar stöðu á lánamarkaði og lágs rekstrarkostnaðar.

Þá er það mat JP-Morgan að sameining sjóðanna í einn fjárfestingarbanka og stofnun nýsköpunarsjóðs hafi marga kosti. Með sameiningu megi ná fram hagræðingu í rekstri. Einnig gefi þessi nýskipan færi á að aðgreina hefðbundna fjárfestingarlánastarfsemi frá áhættufjármögnun. Stofnun fjárfestingarbanka geti ýtt undir samkeppni á fjármagnsmarkaði, auðveldað einkavæðingu og leitt til sérhæfðari fjármálaþjónustu. Fjárfestingarbankinn geti aukið þjónustu á íslenskum fjármagnsmarkaði, meðal annars með verkefnafjármögnun. Þá geti nýr fjárfestingarbanki orðið álitlegur kostur fyrir erlenda lánveitendur og fjárfesta.

V.
Ekki verður um það deilt að endurskipulagning er íslenskum fjármagnsmarkaði nauðsyn. Samanburður á íslenskum fjármagnsmarkaði og mörkuðum þeirra landa sem við eigum í mestri samkeppni við sýnir að við eigum langt í land á þessu sviði. Vextir hjá okkur eru hærri en víðast hvar, kostnaður við bankaþjónustu sömuleiðis og ríkið er hér umfangsmikið á fjármagnsmarkaði en er þó ekki að sinna þeim þáttum hans sem eðlilegast væri.

Ýmis samtök atvinnulífsins í sjávarútvegi og iðnaði hafa komið að undirbúningi málsins og lýst sig samþykk hugmyndum ríkisstjórnarinnar. Einstaka bankar og sparisjóðir hafa hins vegar greint frá áhuga sínum á að yfirtaka fjárfestingarlánasjóðina og því hefur verið haldið fram að sameining sjóðanna sé spor aftur á bak því verið sé að stofna nýjan ríkisbanka.

Það er undarlegt að halda því fram að með sameiningu nokkurra opinberra fjárfestingarlánasjóða fjölgi ríkisbönkum. Sameiningin fækkar lánastofnunum í eigu ríkisins og það sem mikilvægast er að í kjölfar sameiningarinnar hefst einkavæðing, því gert er ráð fyrir að ríkið selji strax 49% af hlut sínum í Fjárfestingarbankanum. Þannig mun ríkið draga úr þeirri yfirburðarstöðu sem það hefur haft í fjárfestingarlánastarfsemi og um leið verða brotnir niður múrar sem verið hafa milli einstakra atvinnugreina.

Síðast en ekki síst verður að líta til þess að líklegt má telja að umbæturnar á fjármagnsmarkaði hækki lánshæfi Íslands á alþjóðlegum mörkuðum. Í skýrslum alþjóðastofnana hefur margoft komið fram að víðtæk þátttaka ríkisins á fjármagnsmarkaði sé tímaskekkja og Standard & Poor}s telur að lánshæfiseinkunn Íslands séu settar skorður af þátttöku ríkisins í fjármálalífinu.

VI.
Þó fjármagnsmarkaður hafi tekið miklum breytingum á undanförnum árum á hann þó enn langt í land. Við lifum hins vegar nú á spennandi umbrotatímum í íslensku fjármálalífi. Kaup vátryggingafélags á verðbréfafyrirtæki og kaup viðskiptabanka á vátryggingafélagi, sýna svo ekki verði um villst að þessar hræringar eru án alls efa vegvísir að frekari breytingum á fjármagnsmarkaði. Þessi teikn sem við sjáum nú á lofti eru í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í kringum okkur. Fyrirtæki úr ólíkum þáttum fjármálastarfsemi eru að leita samstarfs og sameinast öðrum fyrirtækjum í þeim tilgangi að nýta sér kosti hvers annars.

Þessar breytingar staðfesta að nauðsynlegt er í tengslum við þá endurskoðun sem nú fer fram á fyrirkomulagi eftirlits með fjármálastofnunum að taka tillit til þessara breytinga sem orðið hafa, því nauðsynlegt er að tryggja samræmt opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Búa þarf svo um hnútana að stofnanir sem sinna þessu eftirliti geti brugðist á fullnægjandi hátt við þeim breytingum á fjármagnsmarkaði sem ég hef hér lýst. Til þess að svo megi verða þurfi meðal annars að íhuga vandlega hvort auka beri samstarf Vátryggingaeftirlits og bankaeftirlits eða færa með einhverjum hætti saman þá starfsemi sem þar fer fram.

VII.
Þróun á fjármagnsmarkaði er gífurlega hröð og mörg verkefni framundan. Á næstu misserum verður að huga betur að möguleikum á samkeppni um lífeyrissparnað auk þess sem fylgjast verður grannt með undirbúningi sameiginlegrar myntar í Evrópu. Einnig verður að kanna til hlítar með hvaða hætti sé best að setja nánari lagaákvæði um greiðslumiðlun.

Tvennt er í undirbúningi í viðskiptaráðuneytinu sem mun stuðla að framgangi verðbréfamarkaðarins. Í fyrsta lagi er vinna að fara í gang við að kanna möguleika þess að afnema einkarétt Verðbréfaþings Íslands á verðbréfaþingsstarfsemi og athugun á lagaramma um þá starfsemi. Þar verður meðal annars til skoðunar hvort kveða eigi á um heimild til B-skráningar hlutabréfa á Verðbréfaþingi, með minni kröfum en gerðar eru um fjölda hluthafa og eigin fé í núverandi reglum.

Í öðru lagi hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp um rafræn verðbréfaviðskipti, líkt og þekkist á öllum þróuðum verðbréfamörkuðum. Rafræn skráning eignarhalds verðbréfa í svokallaðri verðbréfamiðstöð kæmi þá í stað pappírsverðbréfa. Slík stöðlun viðskipta mun leiða til hagkvæmari og öruggari verðbréfaviðskipta, enda er mikil samstaða á verðbréfamarkaði um nauðsyn þess að koma verðbréfamiðstöð á laggirnar.

VIII.
Ágætu ársfundargestir.
Eins og þið hafið heyrt hefur ríkisstjórnin fyrirætlanir um róttækar skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaði til þess að hann þjóni betur þörfum nútíma atvinnulífs. Mikilvægt er að þau lagafrumvörp sen nú liggja fyrir Alþingi um breytingar á fjármagnsmarkaðnum verði lögfest áður en Alþingi lýkur störfum í vor. Það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að svo verði. Þar með verður þeirri óvissu eytt sem óhjákvæmilega er til staðar í tengslum við jafnumfangsmiklar skipulagsbreytingar. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka bankaráði, bankastjórn og öðrum starfsmönnum Seðlabankans fyrir gott samstarf.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum