Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. apríl 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Kynningarhátíð MIDAS-net skrifstofunnar

Ávarp á kynningarhátíð í Þjóðleikhúsinu 23. apríl 1997 vegna opnunar MIDAS-net skrifstofu á Íslandi í samvinnu við ESB DG-XIII.

Ágætu hátíðargestir,

I.
Menning þjóðar okkar á sér djúpar rætur í ríkulegum bókmenntaarfi hennar. Bókmenntirnar eru fyrst og fremst vitnisburður andlegs atgerfis þjóðarinnar sem aldrei hefur látið bugast þrátt fyrir margvíslegt andstreymi, - hungur og náttúruhamfarir. Ekki er ólíklegt að bókmenntirnar hafi átt sinn þátt í því að þrátt fyrir allt erum við hér enn sem ein þjóð, -óbuguð, -sjálfstæð og -sókndjörf.

Bókmenntirnar eru vissulega fyrst og fremst vitnisburður um ríkulegan andlegan þroska en þær eru óneitanlega einnig dæmi um fágætt listrænt handbragð. Í þeim fer saman snilld hugar og handar, sem ætíð verða hornsteinar farsællar velgengni.

II.


Sagt er að breytingar á högum manna komi í bylgjum. Í ljósi sögunnar má greina nokkrar meiriháttar breytingar sem hver um sig gerði þjóðfélagið óþekkjanlegt frá því sem áður var. Ef við setjum okkur á byrjunarreit við upphaf sagnaritunar á Íslandi verður fyrsta stóra breytingarskeiðið við tilkomu prentlistarinnar, - síðan með virkjun gufuaflsins sem leiddi af sér iðnbyltinguna, - þar á eftir við nýtingu rafmagnsins sem leiddi af sér símann, útvarpið, sjónvarpið og ótalmargt fleira og loks - sú gerbreyting sem við stöndum nú frammi fyrir vegna stórstígra og hraðfara framfara í upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Þessar breytingar hafa nú þegar haft afgerandi áhrif á líf margra okkar og munu á komandi árum gjörbreyta atvinnuháttum okkar og öllum samskiptum manna á milli.

Breytingarnar byggja á óhindruðu flæði upplýsinga og greiðum aðgangi sem er að opnast okkur að helstu þekkingarbrunnum heimsins. - Þær breytingar verða miklu víðtækari og munu ganga mun hraðar fyrir sig en fyrri samfélagsbreytingar. -og- - Þær verða ekki bundnar við atvinnu- og viðskiptalíf heldur snerta alla borgarana og alla þætti samfélagsins.

Sú nýja samfélagsmynd sem til verður við þessar breytingar er nefnd "upplýsingasamfélagið".

Við gerð stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar á vormánuðum árið 1995 lögðum við grunn að stefnumótun í málefnum upplýsingasamfélagsins. Þar gáfum við þau fyrirheit að móta heildarstefnu um hagnýtingu upplýsingatækninnar í þágu efnahagslegra framfara og uppbyggingar í atvinnulífinu, - vísindarannsókna, - lista og -annarra menningarmála.

Þar hétum við því - að greiða fyrir aðgangi fólks að opinberum upplýsingum, - að draga úr skrifræði í samskiptum borgaranna við stjórnvöld og - að afnema óþarfa laga og reglugerðarákvæði er stæðu eðlilegum framförum fyrir þrifum.

Samhliða þessu yrði þjónusta ríkisins sniðin að nútímatækni, m.a. með nettengingu þjónustustofnana og pappírslausum viðskiptum.

Í þessu felst sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að ný upplýsinga- og fjarskiptatækni verði sem best nýtt til að tryggja vaxandi hagsæld í landinu svo unnt verði að halda uppi velferðarkerfi og menningarstigi eins og best gerist.

Nú hefur stefnan verið mótuð og förin á vit upplýsingasamfélagsins er hafin. Sú för verður varla átakalaus og má í hinni nýju samfélagsmynd sjá jafnt ógnun sem tækifæri til sóknar. Í því sambandi þurfum við einkum að horfa til þess að nýta öll tiltæk ráð - til eflingar lýðræðisins, - til aukins félagslegs jafnréttis og - til eflingar sérstæðrar menningar okkar og tungu.

Slíkt mun ekki gerast af sjálfu sér. Upplýsingabrautirnar verða yfirfullar af erlendu efni af margvíslegri gerð. Samkeppnin um að ná athygli notenda verður mikil og hætta er á að þar geti hagsmunir okkar orðið undir ef við höldum ekki vöku okkar. Í þessu sambandi á ég t.d. við menningarlega hagsmuni okkar en ekki síður þá hættu að við glötum margbreytileika tungunnar vegna erlendra áhrifa. Mikilvægt er að við séum meðvituð um þessar hættur því þær hljóta að marka sín spor í sókn okkar til að nýta þá möguleika sem bjóðast. Í þeim efnum mun markviss sókn reynast okkur heilladrýgst, eins og oftast fyrr. Við verðum að nota hina nýju tækni og boðleiðir til að koma sékennum okkar á framfæri og festa einstaka menningarlega stöðu okkar í sessi í alþjóðlegu samhengi.

Við fyrstu sýn virðist flest ganga okkur í haginn í þeim efnum. Fyrir réttri viku fréttum við af því að vinna væri að hefjast við að yfirfæra um hálfa milljón blaðsíður af handritum og prentuðu efni á stafrænt form, - fyrst og fremst íslenskar fornsögur og rímur ortar út frá þeim. Allt þetta verður síðan aðgengilegt fyrir alla heimsbyggðina á alnetinu. Þetta er aðeins upphafið af því sem koma skal - og viss er ég um að það íslenska efni sem erlent fólk mun komast í kynni við í gegnum netkerfin mun kveikja og efla áhuga þess fyrir sérkennum okkar og leiða til eflingar íslenskrar menningar og jafnframt til bættrar efnahagslegrar afkomu þjóðarinnar í kjölfar þess.

III.
Margmiðlunin, sem er hinn samfellandi rammi texta, hljóðs og myndar, er grundvöllur hinna nýju möguleika. Margmiðlunin færir okkur ný tækifæri til að kynnast ótæmandi fróðleik og skemmtiefni, - hún er hinn nýi útgáfumiðill. Margmiðlunin er dæmi um á hvern hátt okkur getur tekist að styrkja menningu okkar og tungu og er jafnframt dæmi um á hvern hátt við getum bætt samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega, aukið framleiðni og nýsköpun fyrirtækja, skapað ný, fjölbreyttari og betur launuð störf og aukið félagslega velferð í landinu.

Sú starfsemi sem við munum kynnast hér betur í dag er nátengd öllu þessu. Midas-skrifstofan hefur það hlutverk að efla skilning okkar á mikilvægi þess að nýta tækifæri upplýsingasamfélagsins okkur til velfarnaðar. Sérstök áhersla verður lögð á að örfa og styðja þróun á evrópsku margmiðlunarefni, en ekki síður að hvetja til notkunar almennings og fyrirtækja á rafrænum gögnum í viðskiptum og til fróðleiks og skemmtunar.

Í ljósi þess að atvinnuþróun næstu ára mun að töluverðu leyti byggjast á nýtingu upplýsingatækni og þróun búnaðar tengdum upplýsingatækni er mikilvægt að við Íslendingar fylgjumst vel með framvindu þessara mála. Eitt markmið Mids-skrifstofunnar er að örva framleiðslu á hágæða margmiðlunarefni sem nýst getur þjóðum Evrópu. Margmiðlunarefnið þarf að geta höfðað til mismunandi málsvæða, byggja á evrópskum grunni og samvinnu. Það þarf að hafa burði til að yfirvinna tæknilegar-, menningarlegar- og markaðslegar hindranir sem standa í vegi fyrir vexti evrópsks upplýsingaiðnaðar.

Eins og sjá má af þessu fellur verkefnið í einu og öllu að hagsmunum okkar Íslendinga sem, ekki síður en margar aðrar Evrópuþjóðir, búum við vissar tæknilegar-, menningarlegar- og markaðslegar hindranir, samanborið við hinar stærri þjóðir.

Ágætu hátíðargestir.
Málefni upplýsingasamfélagsins munu á komandi árum skipta okkur stöðugt meira máli. Mikilvægt er að allir geti orðið virkir þátttakendur í þeim breytingum sem nú þegar mótar fyrir - svo enginn sitji eftir afskiptur. Midas-skrifstofan gegnir þar veigamiklu hlutverki á sviði margmiðlunar. Ég færi aðstandendum skrifstofunnar mínar bestu óskir um gæfuríkt starf við þau mikilvægu störf sem þeir eiga framundan. Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum