Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. október 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða á afmælisráðstefnu Orkustofnunar, 24. október 1997.

 


I.

Nærfellt alla þessa öld hafa Íslendingar gert sér ljósa þá möguleika sem felast í nýtingu orkulindanna, jafnt til einkanota sem nýtingar í atvinnuskyni. Við höfum verið meðvituð um að með aukinni nýtingu þeirra leggðum við grunn að efnahagslegum framförum í landinu, bættum lífskjörum og nú í seinni tíð hreinna umhverfis og bættri umgengni um náttúruna. Við höfum með öðrum orðum gert okkur grein fyrir því að rafmagnið myndi ekki einungis lýsa upp híbýli landsmanna, heldur einnig skapa skilyrði til aukinnar velmegunar.
Eftir því sem liðið hefur á öldina hefur færni okkar og þekking til að beisla orkuna aukist og er nú svo komið að aðrar þjóðir líta til okkar við þekkingaröflun á því sviði. Jafnframt hefur markaður fyrir orkuna aukist, hvort heldur litið er til einkaneyslu eða þarfa atvinnulífsins. Í dag státum við af því að vera í fararbroddi þjóða heims hvað varðar hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda í heildar orkunotkun og af því megum við sannarlega vera stolt.
Í upphafi var fátt sem setti okkur skorður við nýtingu orkulindanna annað en tæknin og þekkingin en nú í seinni tíð hefur umræðan um umhverfismál orðið æ fyrirferðarmeiri í þessu sambandi. Sú umræða setur okkur þó ekki einungis skorður heldur býður hún einnig upp á tækifæri, sem við hljótum að reyna að nýta, landi og þjóð til heilla.
II.
Nýtingu á orkulindum landsmanna má skipta í þrjú tímabil:
    • Hið fyrsta telst vara fram að síðari heimsstyrjöld en þá hófst nýting orkulindanna í takmörkuðum mæli. Rafveitur voru stofnaðar, þótt litlar væru og bundnar við einstaka byggðakjarna. Rafmagnið var í fyrstu einvörðungu notað til lýsingar en á þessu tímabili var einnig byrjað að nýta jarðvarmann til húshitunar, þótt í litlum mæli væri.
    • Upphaf annars tímabilsins má rekja til loka síðari heimsstyrjaldar og setningar raforkulaga, sem öðluðust gildi í ársbyrjun 1947. Með þeim fékk ríkið einkarétt á að virkja og reka raforkuver en tók jafnframt að sér dreifingu raforkunnar um landið, á þeim svæðum þar sem ekki voru rafveitur í eigu sveitarfélaga. Á þessu tímabili var lagður grundvöllur að nýtingu jarðhitans hjá Jarðborunum ríkisins og embætti raforkumálastjóra, síðar orkumálastjóra. Framsýni frumherjanna og starfsliðs þeirra var ein af forsendum þess að svo vel hefur tekist til í beislun jarðhitans sem sagan sýnir.
    • Segja má að í upphafi sjöunda áratugarins verði ákveðin straumhvörf með áformum um stórfellda nýtingu orkulindanna til uppbyggingar orkufreks iðnaðar. Samningar við Alusuisse um álbræðslu í Straumsvík, tengdar stórframkvæmdir á orkusviðinu, auk heildarendurskoðunar á skipan raforkumála ásamt auknum áhuga á nýtingu jarðvarmans, marka upphaf þriðja tímabilsins. Við þessa endurskoðun voru raforkulögin felld úr gildi með setningu orkulaga jafnframt því sem Landsvirkjun var stofnuð með lögum frá Alþingi. Líta má svo á að með setningu orkulaga hafi verið mótuð heildarstefna í orkumálum þjóðarinnar og jarðhitinn fengið þann sess sem hann verðskuldar. Með lögunum var Orkustofnun einnig sett á stofn.
    • Búast má við að í framtíðinni verði litið svo á að fjórða tímabilið hafi haldið innreið sína um miðjan þennan áratug. Það kemur í fyrsta lagi til af stóraukinni raforkuframleiðslu í kjölfar þriggja nýrra stóriðjusamninga og í öðru lagi af framtíðarsýn þeirri í raforkumálum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi á þessu þingi.
Í þessari framtíðarsýn er mörkuð stefna til langs tíma og vel afmarkaðir áfangar skilgreindir, sem taka mið af þróun í nágrannaríkjum en jafnframt íslenskum aðstæðum. Í stefnumörkuninni er kveðið á um að sköpuð verði skilyrði til aukinnar samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Í upphafi skuli unnið að aðskilnaði vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku innan orkufyrirtækjanna, endurskipulagningu á meginflutningskerfi raforkunnar og breyttu fyrirkomulagi á orkusölu til stórra notenda. Í kjölfarið verði unnið að því að koma á samkeppni í viðskiptum með raforku.
Í framtíðarsýninni er ekki gert ráð fyrir að samkeppni komist á í einni svipan. Að mörgu þarf að hyggja og því ástæða til að flýta sér hægt. Fyrstu skrefin verða þó tekin strax en sem dæmi um tímamörk sem fram koma í framtíðarsýninni má nefna að gert er ráð fyrir að raforkufyrirtækjum sem ríkið á eignarhlut í verði breytt í hlutafélög eigi síðar en árið 2003 og raforkumarkaður taki til starfa eigi síðar en árið 2009.
III.
Á þessu ári eru 30 ár liðin frá því Orkustofnun hóf störf, og af því tilefni erum við hér saman komin. Hún og þar með starfsfólk hennar, hefur sett mikið mark á þróun orkumála síðustu þrjá áratugina. Óhætt er að fullyrða að stofnunin og starfsfólk hennar hefur gegnt lykilhlutverki í þeirri hröðu þróun sem átt hefur sér stað við hagnýtingu orkulinda landsins, hagnýtingu sem hefur bæði bætt hagsæld og velferð þjóðarinnar.
IV.
Þegar fyrri orkukreppan skall á í lok ársins 1973 var unnt að ganga hratt og örugglega til verks við frekari nýtingu orkulindanna á grunni þeirra verkefna sem einkum höfðu verið unnin á vegum Orkustofnunar. Þar ber hæst stofnun fjölmargra hitaveitna, en hlutur jarðvarmans í húshitun hefur aukist úr um 50% árið 1973 í tæp 90% nú. Sömuleiðis á starfsfólk stofnunarinnar drjúgan þátt í undirbúningi Byggðalínunnar og undirbúningsrannsóknum vegna helstu stórvirkjana.
Sú stefna sem fylgt var í kjölfar olíukreppunar á áttunda áratugnum fólst m.a. í eftirfarandi:
    • Í fyrsta lagi að nýta innlendar orkulindir til húshitunar í stað olíu, með þeim árangri að nú er einungis um tveimur prósentum orkuþarfarinnar mætt með olíu.
    • Í öðru lagi að nýta innlendar orkulindir í stað olíu á öðrum sviðum, þar sem það var unnt án of mikils kostnaðar. Árangurinn er glæsilegur - um tveir þriðju hlutar allrar orkunotkunar okkar koma nú frá endurnýjanlegum orkulindum.
    • Og í þriðja lagi að skipta úr gasolíu yfir í svartolíu á skipaflota okkar en það er mun ódýrari kostur.
Auk þess árangurs sem áður er lýst, náðist með aðgerðunum fram umtalsverður gjaldeyrissparnaður og þannig dró úr skuldasöfnun erlendis. Jafnframt varð samdráttur í olíunotkun hér á landi til þess að við urðum í fararbroddi þjóða heims við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda - jafnvel áður en flestar aðrar þjóðir fóru að gefa vandanum gaum.

V.
Í ljósi þess hve verð á olíu lækkaði mikið á síðari hluta áttunda áratugarins dróg úr þrýstingi á olíusparnað. Hann hefur hins vegar vaxið á ný á síðustu árum vegna þeirrar hættu sem stafar af svokölluðum gróðurhúsaáhrifum. Þær aðgerðir sem við gripum til vegna olíukreppunar, einkum áhersla á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og þar með samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda, setur Ísland í allt aðra stöðu í þessum efnum en önnur lönd.
Í raun má líkja stöðu okkar við stöðu óvirks alkóhólista, sem verið hefur þurr í meira en 20 ár. Núna fyrst hafa hins vegar gömlu drykkjufélagarnir áttað sig á gildi edrúmennskunnar og krefjast þess að sá óvirki komi í meðferð með þeim - þó hann hafi fyrir löngu tekið á vandanum!
VI.
Eftir langt hlé í stóriðjumálum og virkjunarframkvæmdum horfir nú vænlega í þeim efnum. Á síðastliðnum tveimur árum hafa tekist hér þrír samningar á þessu sviði en á sama tíma eru samningarnir 15 í Evrópu allri.
Í kjölfar framangreindra samninga höfum við orðið vör við vaxandi áhuga erlendra og raunar einnig innlendra aðila á því að reisa orkufrek iðjuver hér á landi og nýta sér með þeim hætti orkulindir landsins. Okkur sem hér erum er það örugglega öllum ljóst að í þeim efnum setja umhverfismálin og verndun náttúrunnar okkur verulegar skorður. Einmitt þess vegna höfum við sett okkur leikreglur að fara eftir, reglur sem tryggja að farið sé fram með fullri gát og af ríkri virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum en þar á ég við lögin um mat á umhverfisáhrifum.
Á síðustu misserum hefur það glögglega komið í ljós að það sýnist sitt hverjum þegar kemur að nýtingu orkulindanna til atvinnuuppbyggingar. Ég hef áður lagt á það áherslu og vil ítreka það hér, að í þeirri umræðu er mikilvægt að menn hafi sannleikann að leiðarljósi en byggi ekki málflutning sinn á sleggjudómum og upphrópunum.

Umhverfismál eru ekki bundin við landamæri, þau eru hnattræn og það skyldum við ætíð hafa í huga við þessa umræðu. Við skulum líka vera þess meðvituð að umhverfismál og efnahagsmál eru nátengd og verða tæpast sundur slitin, um það vitnar glöggt sú staðreynd að flestar stærstu fjármálastofnanir heims horfa sérstaklega til þeirra í starfsemi sinni. Að auki er áherslan á umhverfismál nú mjög áberandi í rekstri fyrirtækja og raunar hefur það verið orðað svo að nú, þegar stjórnendur flestra fyrirtækja hafa áttað sig á gildi gæðastjórnunar á reksturinn, er næsta skrefið að taka upp aðferðir umhverfisstjórnunar. Þessi er þróunin í ríkjunum í kringum okkur og hennar er þegar orðið vart hér á landi enda fara saman markmið um gæði og framleiðni annars vegar og virðing fyrir náttúrunni hins vegar .
VII.
Í Dagskrá 21. Aldarinnar, sem er eitt þeirra skjala sem samþykkt var á Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun árið 1992, var sérstök áhersla lögð á
    • að hlutur endurnýjanlegra orkulinda yrði aukinn í orkubúskap heimsins,
    • að ríki heims ynnu saman að lausn á hnattrænum vandamálum, og
    • að ríki sem hefðu yfir slíkri orku að ráða miðluðu henni til ríkja sem ekki réðu yfir slíkum orkulindum.
Á sömu ráðstefnu var rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar samþykktur. Lokamarkmið þess samnings er að koma í veg fyrir hættulegar breytingar á loftslaginu af mannavöldum. Það er í fullu samræmi við ákvæði samningsins að stuðla að því að orkufrek framleiðsla iðnvarnings fari fram þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er minnst.
Hér á landi þar sem vatnsafl er nýtt til raforkuvinnslu er losun gróðurhúsalofttegunda við álframleiðslu í lágmarki, en eins og ég vék áður að er hún hnattrænt vandamál. Þannig skiptir ekki máli hvar losunin á sér stað, heldur hversu mikil hún er. Í ljósi þessa lokamarkmiðs loftslagssamningsins og þess hve brennsla jarðefnaeldsneytis á stóran þátt í losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, ber að stuðla að því að orkufrek framleiðsla iðnaðarvöru fari fram í ríkjum þar sem hrein orka er nýtt til framleiðslunnar. Annað væri rökleysa.

Þessu til rökstuðnings má nefna að losun koldíoxíðs vegna álframleiðslu hér á landi er einungis um tíundi hluti þess sem yrði ef nýtt væru kol til framleiðslunnar. Í því sambandi er má benda á að koldíoxíðlosun frá einu 180.000 tonna álveri, sem nýtir raforku framleidda með jarðefnaeldsneyti, jafngildir allri losun Íslendinga og raunar ríflega það! Slíkt hlýtur að vekja menn til umhugsunar um það hvort ekki sé skynsamlegt að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar í þessum tilgangi enda má öllum vera ljóst gildi þess, með tilliti til umhverfismála.
VIII.
Hugmyndir ýmissa ríkja og ríkjasamtaka um landsbundin útblástursmörk mega ekki einar og sér verða ráðandi um samningsniðurstöðu í Kyoto í Japan. Slíkar hugmyndir geta takmarkað möguleika til alþjóðlegs árangurs, nái þær fram að ganga. Það er því mikilvægt að markviss kynning eigi sér stað á sjónarmiðum Íslands jafnt heima sem erlendis. Með því er lagður grunnur að því að lokamarkmið samingsins verði í öndvegi og skilningur á sérstöðu okkar aukist.
Niðurstaða þeirra samningaviðræðna sem nú standa yfir í Bonn og á að ljúka í Kyoto í desember, á ekki og má ekki koma í veg fyrir að endurnýjanlegar orkulindir séu nýttar til efnahagslegra framfara, hvorki á Íslandi eða í öðrum löndum. Skynsamleg nýting orkulinda okkar til atvinnuuppbyggingar hér á landi og alþjóðleg markmið í loftslagsmálum fara saman og undirstrika það enn og aftur að efnahagsmál og umhverfismál eru nátengd.
Að nýta sér rammasamning Sameinuðu þjóðanna til að vinna gegn nýtingu endurnýjanlegra orkulinda væri misnotkun á samningnum og markmiðum hans. Í hve miklum mæli við viljum nýta orkulindirnar hlýtur þó að verulegu leyti að ráðast af því hvort virkjanirnar ganga gegn annarri nýtingu landsins, svo sem vegna landbúnaðar, veiði og ferðamennsku.

Þegar slíkir hagsmunir rekast á hlýtur arðsemi nýtingar að skipta miklu máli en ennfremur sjónarmið náttúruverndar. Auðvitað verður hverju sinni að meta verndargildi út frá náttúrufarslegum sjónarmiðum, svo sem vegna jarðmyndana, gróðurs, dýralífs, vatnafars og jarðhitasvæða auk lífríkis þeirra.
Þegar horft er til hlutverks Orkustofnunar við stefnumótun um nýtingu orkulinda landsins til atvinnuuppbyggingar er ljóst að hún hlýtur að verða leiðandi á því sviði enda þekkingin óvíða meiri. Á hana mun ekki síst reyna við gerð rammaáætlunar þeirrar sem Orkumálastjóri minntist á hér að framan og fjallar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma en hún er hluti af framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi
IX.
Þessi ráðstefna er mikilvægt skref í að hefja umræðu um málið. Ég vil því nota þetta tækifæri til að þakka Orkustofnun það frumkvæði sem tekið hefur verið með því að boða til ráðstefnunar, þeim stofnunum og öðrum aðilum sem leggja fram erindi og öllum þátttakendum fyrir þátttökuna.
Ég vil ljúka máli mínu með því að óska stofnuninni og starfsmönnum hennar til hamingju með 30 ára afmælið. Þið hafið skilað miklu og góðu starfi í þágu þjóðarinnar. Ég veit að svo verður áfram.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum