Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. febrúar 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp í tilefni 70 ára afmælis Málarameistarafélags Reykjavíkur, 26. febrúar 1998.

 


Ágætu samkomugestir.
Við minnumst hér í dag merkra tímamaóta í sögu Málarameistarafélags Reykjavíkur á 70 ára afmæli þess.

Sjötíu ár er stuttur tími í sögu þjóðar. Þó hefur verkmenning okkar Íslendinga á þeim 70 árum tekið stórstígari framförum en á því þúsund ára tímabili sem var aðdragandi þeirra. Því verður ekki hjá því komist að á slíkum tímamótum komi upp í hugann þáttur brautryðjendanna. Þá sé ég fyrir mér sögu málaraiðnarinnar sem sögu listar og handverks sem er svo samofin að oft á tíðum verður ekki glögglega skilið þar á milli.

Margir listamenn áttu sinn faglega uppruna í húsamálun og húsamálarar voru handgengnir listinni, - sennilega í meira mæli en flestir aðrir iðnaðarmenn. Þrátt fyrir að sú saga sé mér að allt of litlu leyti kunn minnist ég þess að hafa heyrt talað um málarameistarann Jón Björnsson, sem ásamt konu sinni Grétu málaði skreytingar í um 50 kirkjur víðsvegar um land. Listrænt handbragð þeirra var velþekkt.

Þá er mér minnistæðar sögur af "Ástu málara" sem svo var kölluð eftir iðn sinni. Hún var víðkunn afrekskona og einn af frumherjum ykkar. Hún þótti listfeng eins og hún átti kyn til, en hún var systir Magnúsar Árnasonar listmálara. Og var það ekki Þórbergur Þórðarson sem með henni starfaði eitthvert rigningarsumarið endur fyrir löngu, - þegar sólin skein á Móskarðshnjúkana meðan stöðugt rigndi í henni Reykjavík.

Mér finnst við hæfi að minnast á þessa frumkvöðla, sem dæmi um þá karla og konur sem gefið hafa starfsgreinum sínum þá breidd sem tekið hefur verið eftir. Ástæða þess er ekki síst sú að þessi mjúku gildi gleymast oft í þungum straumi dægurmálanna þar sem fyrst og fremst er tekist á um hin praktísku úrlausnarefni.

Tímarnir voru vissulega aðrir og erfiðari í þá daga. Við vorum að brjótast út úr kyrrstæðu bændasamfélagi sem hafði lítið breyst í þúsund ár. Þegar alda iðnmenningarinnar skall á ströndum Íslands upp úr síðustu aldamótum olli hún umróti í bændasamfélaginu. Framfarirnar hafa síðan þá ekki verið jafnar og stöðugar. Þær hafa þvert á móti gengið í rykkjum og skrykkjum einkum þegar varðveislumenn náðu að spyrna við fótum og koma við vörnum fyrir hin íhaldsamari gildi.

Staðan er nú allt önnur. Víðtækur sóknarhugur ríkir og unnið er markvissar en nokkru sinni fyrr að því að bæta efnahagslega- og ekki síður félagslega velferð okkar. Við höfum náð að sigrast á einni dýpstu efnahagskreppu þessarar aldar og framtíðin er björt. Ríkisfjármálin eru í góðu jafnvægi, verðbólga er lág, framleiðni í iðnaði fer batnandi og fyrirtækin geta nú skipulagt rekstur sinn fram í tímann í skjóli stöðugleika.

Ágætu samkomugestir.
Ég ber fram hugheilar árnaðaróskir til ykkar allra á þessum merku tímamótum Málarameistarafélags Reykjavíkur. Ég óska ykkur velfarnaðar í öllum störfum ykkar í komandi framtíð við eflingu samvinnu meðal málarameistara og ekki síður við að efla menningu og símenntun stéttarinnar.

Þekkingin úreldist fljótt og nú fljótar en nokkru sinni fyrr. Tíminn bíður ekki eftir neinum. Hann verður ekki stöðvaður frekar en gangur himintunglanna um víddir alheimsins. Við þær aðstæður eru samtök eins og ykkar sérstaklega mikilvæg til að viðhalda og bæta verkmennt og menningu greinarinnar. Mikilvægi þess er ekki minna nú en áður.

Ég þakka fyrir áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum