Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. maí 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Grein í MBL: "Tvíefldir Byggingardagar"

 


Flest leggjum við stærstan hluta ævisparnaðar okkar í að eignast sómasamlegt húsnæði og til að viðhalda því og bæta. Þetta hefur m.a. leitt til þess að á þessari öld höfum við að mestu leyti endurnýjað svo til allan þann húsakost, sem hér var um seinustu aldamót, auk þess sem mikið hefur verið byggt vegna fólksfjölgunar, nýrrar atvinnustarfsemi og breyttra þjóðfélagshátta. Hinar öru þjóðfélagsbreytingar þessarar aldar og sú nauðsynlega byggingarstarfsemi sem þeim hefur fylgt hefur leitt til þess að meðalaldur húsa hér á landi er nú aðeins um 30 ár.

Nú er svo komið að um 80% af þjóðarauði okkar liggur í mannvirkjum og er árleg fjármunamyndun í byggingariðnaði um 50 milljarðar, þar af um 20 milljarðar í húsum. Þetta þýðir að nærri lætur að um 60% af árlegri fjárfestingu þjóðarinnar sé bundin í mannvirkjagerð og má því ljóst vera að farsæl framþróun byggingariðnaðarins hefur afgerandi áhrif á lífskjör og afkomu alls þorra landsmanna.

Í samanburði við önnur lönd búum við Íslendingar við mjög sérstakar aðstæður sem mótast af því að hér á landi eru önnur veðurfarsleg- og landfræðileg skilyrði en víðast annarsstaðar. Það hefur leitt til þess að við höfum ekki getað nýtt okkur eins vel og ella væri tækninýjungar annarra þjóða án umtalsverðrar aðlögunar að íslenskum aðstæðum. Þessar aðstæður mótast af norðlægri legu landsins í miðju norður Atlantshafi, í braut lægða og sveiflukennds veðurfars, auk þess sem landið á tilvist sína því að þakka að það liggur á skilum tveggja meginlandsfleka með tilheyrandi kvikuuppstreymi, eldgosum og landreki.

Afleiðingar þessa eru umhleypingar, mikið vindálag, slagregn og snjóflóð; eldgos, jarðskjálftar og stórflóð í ám og vötnum. Allt þetta gerir meiri kröfur til íslenskrar mannvirkjagerðar en ella væri og hafa íslenskir byggingarmenn sýnt það og sannað að þeir eru fyllilega þeim vanda vaxnir, sem þeir þurfa að glíma við. Með aukinni verk- og tækniþekkingu hefur íslenskur byggingariðnaður tekið stórstígum framförum og athygli hefur vakið að hér á landi hafa þróast byggingarhefðir sem um margt eru einstakar. Framan af öldinni var það, umfram margt annað, sérstæð notkun bárujárnsins og síðar margbreytileg notkun steinsteypunnar.

Hin síðari ár hefur víðsýni vaxið. Í stað takmarkaðra og staðbundinna verkefna lítur byggingariðnaðurinn nú á landið allt sem einn markað frjálsrar samkeppni, þar sem hæfni og verð veitir öllum, stórum sem smáum, jafna möguleika til athafna. Jafnframt því hafa þeir framsæknari séð möguleika á því að ná hlutdeild á hinum alþjóðlega markaði sem stöðugt er að verða opnari. Hin aukna samkeppni á innlendum- og alþjóðlegum markaði hefur verið hvati til öflugrar tækniþróunar, bættrar framleiðslustýringar, gæðastjórnunar og aukinnar vitundar um mikilvægi umhverfismála. Þannig hefur byggingariðnaðurinn í auknum mæli tekið upp umhverfisvæn efni, aðferðir og tækni sem skilar góðum og vistvænum mannvirkjum á eðlilegum tíma.

Með alþjóðavæðingu viðskipta, sem m.a. felst í því að víða um lönd eru nú litlar hömlur á atvinnustarfsemi erlendra fyrirtækja, fjárfestingum, flutningi fólks og fjármagns á milli landa, hefur útflutningur á íslensku hugviti, handbragði, hráefnum og fullunnum byggingarhlutum verið að aukast. Íslenskir byggingarmenn hafa á undanförnum árum starfað í öllum heimsálfum um lengri eða skemmri tíma. Af þeim hefur farið gott orð og eftir því tekið hversu úrræðagóðir þeir hafa verið við lausn hinna margvíslegustu verkefna. Skýringin á þessu liggur eflaust í því að í fámennu þjóðfélagi kynnast einstaklingarnir fleiri hliðum atvinnulífsins og þeir fá tækifæri til að glíma við margbreytilegri úrlausnarefni en ella væri. Þetta hefur leitt til þess að Íslendingar hafa unnið að margvíslegum ráðgjafastörfum um allan heim m.a. við virkjunar- og vegaframkvæmdir, hafnargerð, byggingu húsnæðis, fráveitu- og umhverfismál, hitaveituframkvæmdir og aðrar framkvæmdir í löndum þar sem svipar til Íslands. Mikilvægt er að styrkja þessa starfsemi enn frekar enda er smár heimamarkaðar okkar ekki líklegur til að geta veitt byggingarfyrirtækjum þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er þegar um hægist á fremur sveiflukenndum markaði.

Mikilvægast þáttur þess að bæta samkeppnisstöðu íslensks byggingariðnaðar er aukin menntun. Virðing fyrir iðnnámi og öðru starfsnámi hefur farið vaxandi og er það vel. Aukin áhersla hefur verið lögð á gildi góðrar fagmennsku með auknum menntakröfum til fagréttinda og endurmenntunar. Smátt og smátt hefur skilningur vaxið fyrir því að menntun er ekki einstakur atburður sem markar upphaf ævistafs, heldur verður menntunin að vera viðvarandi verkefni.

Tæknivæðing fyrirtækja er sífellt að aukast sem útheimtir stöðugt meiri verk- og tækniþekkingu. Jafnframt eru stöðugt gerðar meiri kröfur til framleiðslustýringar, gæðastjórnunar, umhverfisverndar og vinnuverndarmála. Hver sá sem vill verða gjaldgengur á alþjóðlegum samkeppnismarkaði framtíðarinnar, sem Ísland er vissulega hluti af, þarf að vera meðvitaður um þessar auknu kröfur og setja sér raunhæf markmið um endurmenntun til samræmis.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum