Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. apríl 1999 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Frumsýning hópferðabifreiðarinnar Berserks.


Ágætu samkomugestir.

Sú var tíðin að bifreiðasmíði var all umfangsmikill iðnaður hér á landi. Hver man ekki eftir Willisunum gömlu með yfirbyggingu frá Agli Vilhjálmssyni, eða rútunum sem smíðað hefði verið yfir hjá Bílasmiðjunni hf, sem áður rak smíðaverkstæði á þeim stað á Laugaveginum sem hýst hefur Sjónvarpið frá upphafi. Það húsnæði varð laust þar sem Bílasmiðjan þurfti að stækka við sig vegna tilkomu hægrihandar umferðarinnar og flutti þá starfsemi sína hingað í Ártúnsholtið.

Bifreiðasmíðin dafnaði vel á þeim tímum þegar gjaldeyrir var að skornum skammti og aðdrættir ýmsum takmörkunum bundnir. Þeir tímar eru löngu liðnir og íslnenskur bílaiðnaður hefur tekið þeim eðlilegu breytingum að fást nú fyrst og fremst við sértækar lausnir sem mótaðst hafa - annars vegar af séstökum landfræðilegum- og veðurfarslegum aðstæðum okkar og - hins vegar af háu þekkingarstigi þjóðarinnar.

Þetta hefur m.a. leitt til þess að breytingar á jeppabílum hefur þróast frá því að vera afþreying fárra sérvitringa í það að verða fullgild atvinnugrein sem notið hefur virðingar víða um heim og borið hróður okkar allt frá nyrsta bóli jarðarinnar til Suðurskautslandsins. Ekki er því heldur að gleyma að þessi sérviskulega sýslan okkar hefur skapaða af sér nýja grein innan akstursíþróttarinnar.

*
Það lá eiginlega í loftinu að allt frá því að Hummerinn birtist okkur á skjánum í Persaflóastríðinu myndi þetta einstaka undratæki ná til okkar. Á þeim tíma var Hummerinn nýstárlegt stríðstól sem komst allt og átti sér fá ef nokkur takmörk - eða svo virtist að minnsta kosti af þeim fregnum sem bárust. Tilkoma hans inn á íslanskan jeppamarkað var aðeins spurningu um tíma - ekki hvort, - aðeins hvenær.

Það kom líka að því að tveir framsýnir bræður kynntu þetta undratæki fyrir okkur og viðbrögðin létu ekki á sér standa, - enda nýjungagirni okkar Íslendinga viðbrugðið. Hertólið hafði þar með fengið nýtt og friðsælt hlutverk fyrir íslenska jeppa- og ferðamenn.
*
Tíminn líður hratt og um þessar mundir er liðið vel á annað ár frá því að bræðurnir, umboðsmenn Hummersins, kynntu fyrir mér hugmyndir sínar um að nýta grunngerð Hummersins til að smíða dugmikla fjallarútu. Það vakti strax athygli mína að hér var ekki eingöngu um það að ræða - að byggja boddí á grind - eins og áður var, heldur fólst í þessum ráðagerðum bísna framsækin hugmynd, þ.e. að hanna nýjan bíl frá grunni þar sem til grundvallar var lögð öll sú þekking sem íslenska jeppasamfélagið hafði byggt upp á liðnum árum. Á grundvelli þessa hefur verkefnið notið nokkurs stuðnings frá verkefninu "Átak til atvinnusköpunar".

Nú er stund sannleikans runnin upp og verð ég að viðurkenna að ég bíð nokkuð spenntur eftir að skoða afrakstur vinnunar betur en ég hef haft tækifæri til, - svo og að ræða við þá sem dómbærir telja sig vera á eiginleika gripsins.

Í tilefni þessa merka áfanga í jeppasögunni vil ég óska þeim bræðrum Stefáni og Ævari til hamingju með smíðina á "Berserknum" og góðs árangurs á komandi árum. Sömu óskir færi ég fyrirtækinu Allrahanda sem er eigandi frumgerðarinnar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum