Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2000 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Ríkisstjórnin ársgömul

Það er liðið ár frá því þriðja ráðuneyti Davíðs Oddssonar tók við völdum. Þessi tími hefur verið viðburðaríkur. Á sviði samgöngumálanna hefur ýmislegt verið gert.

Má þar nefna á vettvangi löggjafar ný fjarskiptalög og lög um póst- og fjarskiptastofnun, lög um rannsóknarnefnd sjóslysa og breytingar á siglingalögum, breytingar á lögum um tilkynningaskyldu fiskiskipa, breytingar á vegalögum, lög um bílaleigur og breytingar á lögum um veitinga og gististaði vegna svokallaðra nektarstaða.
Þá er ástæða til þess að nefna undirbúning í ráðuneytinu og stofnunum þess vegna afgreiðslu og samþykktar vegáætlunar fyrir tímabilið 2000-2004, jarðagangaáætlun fyrir sama tímabil og Flugmálaáætlun. Allar þessar áætlanir marka tímamót hver með sínum hætti. Jarðgangaáætlun er sú fyrsta sem Alþingi samþykkir.
Vegáætlun gerir ráð fyrir meiri framkvæmdum í vegagerð og jarðgangagerð en áður hefur verið á jafn löngum tíma og gerir ráð fyrir framkvæmdum sem munu hafa mikil áhrif á byggðaþróun svo sem jarðgöngin til Siglufjarðar og Reyðafjarðar, brúin á Kolgrafafjörð, aukin hraði framkvæmda á Barðaströnd og við Ísafjarðardjúp, vegur um Þverárfjall, vegur að Dettifossi og nýr vegur um Uxahryggi sem sérstakar ferðamanaleiðir, nýr vegur frá Þorlákshöfn að Grindavík svokallaður Suðurstrandavegur og auknar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu svo nokkur verkefni séu nefnd . Flugmálaáætlun gerir ráð fyrir miklum framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll og að hafin verði undirbúningur að því að reisa flugstöð við flugvöllinn. Þá er gert ráð fyrir uppsetningu búnaðar til næturflugs á Ísafjarðarflugvelli sem mun breyta miklu fyrir Vestfirðinga.

Af öðrum málum vil ég nefna aukin framlög til ferðamála og þá sérstaklega til kynningar og markaðsmála erlendis. Samninga um rekstur gestastofa í Reykholti og við Geysi í Haukadal. Aukin framlög til endurbóta á fjölförnum ferðamannastöðum. Útboð flugleiða til jaðarbyggða.. Sólarhrings þjónusta á Akureyrarflugvelli. Vinnu við gerð langtímaáætlunar á sviði öryggismála sjómanna, auknar kröfur um öryggi í siglingum ferja og undirbúningur við útboð þeirra. Breytingar á yfirstjórn Landssímans hf, undirbúning vegna sölu hans og forvinnu vegna úthlutunar leyfa fyrir þriðju kynslóð farsíma að ógleymdu endurmatinu á stofnefnahagsreikningi Landssíma Íslands hf. .

Með þessari upptalningu er hvergi nærri tæmdur sá listi vekefna sem hjá ráðuneytinu er til meðferðar og enn er unnið að. Það er von mín að næsta starfsár ríkisstjórnarina megi verða farsælt fyrir okkur Íslendinga. Samgönguráðuneytið mun stuðla að því svo sem fært er og efni standa til. Ástæða er til þess að þakka samstarfsmönnum fyrir vel unnin störf og samherjum á vettvangi stjórnmálanna fyrir mikilvægan stuðning og nauðsynleg skoðanaskipti jafnt við samherja sem andstæðinga í stjórnmálum. Án umræðu væri stjórnmálin daufleg iðja og mundi ekki skila þeim árangri sem að er stefnt í þágu samfélgsins og einstaklinga .



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum