Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. júní 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Vígsla Sultartangavirkjunar, 25. 06.00 -

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Sumarsólstöðuræða við vígslu Sultartangavirkjunar
25. júní 2000


Ágætu samkomugestir.

Það er sérkennileg tilfinning að aka leiðina frá Reykjavík austur um sveitir síðustu daga. Með hinum stóru jarðskjálftum á láglendi Suðurlands á höfum við óþyrmilega verið minnt á hin geigvænlegu náttúruöfl landsins, sem þjóðin hefur öldum saman lifað við. Er við stöndum hér í dag er það verðugt umhugsunarefni fyrir okkur og komandi kynslóðir að íhuga hvernig náttúruöfl landsins hafa leikið byggð og mannlíf á þessu svæði fyrr á öldum. Fyrir 35 árum hafði engin byggð verið í 6 aldir ofan við efstu bæi í Gnúpverjahreppi en þá hófst að nýju líf í dalnum. Allt frá landnámstíð var blómleg byggð í Þjórsárdal með 30-40 býlum þar til hið gífurlega Heklugos árið 1104 eyddi byggð í dalnum um áratuga skeið. Talið er öruggt að samfelld byggð hafi á þessu tímabili náð um dalinn allan að Sandafelli, sem við stöndum nú hjá, en bæjarstæðið er talið hafa verið hér vestar undir fellinu. Það má því segja að hér hafi staðið innsti bærinn í dalnum, mikilvægur samgöngum þeirra tíma því hér um hlað lá þjóðleiðin milli Suður- og Norðurlands um Sprengisand.
Eins og kunnugt er var það fyrir atbeina Einars Benediktssonar skálds að bændur við Þjórsá seldu norsk-íslenska félaginu Titan virkjunarréttindi árinnar á árunum 1914-1917. Ekkert varð þá af áformum Titan hér á landi og ríkið keypti vatnsréttindi félagsins 1952.
Það var á grundvelli þessara réttinda Titanfélagsins að nýtt líf kviknar í Þjórsárdal eftir 1965 sem fólust í því að menn hefja að reisa hér mannvirki og nýir landnemar setjast að í dalnum. Dögum saman sáu hinir nýju landnemar dalsins vart handa sinna skil fyrir sand- og gjóskufoki, en með samstilltu átaki Landsvirkjunar og Landgræðslunnar tók dalurinn að grænka að nýju með uppgræðslu og aðhlynningu gróðurs. Það er alkunna að fok og rof frá hinum gjóskuríku gosum Heklu höfðu áratugum saman komið í veg fyrir sjálfbæra gróðurmyndun í dalnum þrátt fyrir friðun hans. Þessara staðreynda er okkur mikilvægt að minnast nú á þeim tímum þegar í tísku er meðal ákveðinna hópa að tala um að náttúran eigi að fá að þróast án atbeina mannsins, sem þó telst vera hluti náttúrunnar. Hér á þessu svæði í ögrandi nálægð eyðileggingarafla náttúrunnar eru þau sannindi svo augljós að á okkar viðkvæma landi ber manninum að lifa með náttúrunni og með hinu nýja landnámi mannlífs og gróðurs hefur tekist að koma í veg fyrir eyðileggingarmátt náttúruaflanna.
Það fór ekki hjá því að náttúruöflin minntu á sig um svipað leyti og Búrfellsvirkjun tók til starfa í maí 1970 með litlu en áhrifaríku Heklugosi, sem eyðilagði hluta uppgræðslunnar í dalnum. Sem betur fer voru árar ekki lagðar í bát og stórkostlegur árangur í uppgræðslu dalsins hefur náðst með samstarfi margra opinberra aðila.

Ég minntist hér í upphafi á þær náttúruhamfarir er við upplifum með jarðskjálftum á Suðurlandi. Jarðskjálftarnir og eldgosin eru mestu náttúruöflin er við höfum þurft að lifa við í byggðarsögu landsins. Á síðustu áratugum hefur okkur auðnast að afla okkur þekkingar með miklum rannsóknum á eðli þessara náttúruafla sem gerir okkur betur kleift að bregðast við þeim á markvissari hátt en áður. Má fullyrða að við höfum á þessu sviði skapað okkur sess meðal þjóða er lengst hafa náð á þessu sviði. Það hefur vakið eftirtekt að engar bilanir eða skemmdir hafa orðið á raforkukerfi Suðurlands við þær hamfarir, sem jarðskjálftarnir undanfarna daga hafa valdið. Allt raforkukerfið hefur fullkomlega staðist jarðskjálftaálagið og fyrirbyggjandi aðgerðir Landsvirkjunar og RARIK á síðustu árum gegn hugsanlegum jarðskjálftum hafa án efa skilað miklum árangri. Þó svo að við höfum ávallt fullyrt að raforkukerfi okkar væri öruggt gagnvart náttúruöflum sem þessum hefur prófraunin nú farið fram er sýnir að allar hönnunarforsendur raforkukerfisins, virkjana, flutningslína og dreifikerfis, hafa staðist. Þessi reynsla mun vafalítið í auka trúverðugleika og traust á hinu íslenska raforkukerfi, sem við þurfum á að halda við frekari uppbyggingu virkjana á næstu áratugum.

Þessar staðreyndir vekja einnig upp í huga okkar flestra þakklæti til þeirra fjölmörgu frumkvöðla að uppbyggingu raforkukerfisins hér á landi, allt frá hugsjónamönnum í árdaga aldarinnar til þeirra er loks ruddu brautina fyrir 30-40 árum. Allt samfélag okkar byggir í dag á þessum trausta grunni, hvort sem það heitir stóriðja, hátækniiðnaður, upplýsingaiðnaður svo ekki sé talað um heimilin í samfélagi okkar.
Það er fagnaðarefni að við sporgöngumenn frumherjanna skulum við sumarsólstöður við aldarhvörf hefja formlega að nýju búskap á efsta bænum í dalnum, Sandafelli, með rekstri nýrrar og glæsilegrar virkjunar, sem tekið hefur skemmri tíma að reisa en nokkra aðra virkjun af sömu stærð hérlendis. Þessi virkjun er enn einn glæsilegur bautasteinn í undirstöðu samfélags okkar. Jafnframt fagna ég því að listaverkið "Sólalda við sólstöður" skuli hafa fengið verðugan sess við byggingu virkjunarinnar sem við höfum fengið að njóta nú um sólstöður.
Það er eftirtektarvert að öll orkuverin hér á svæðinu hafa verið skreytt listaverkum fremstu listamanna þjóðarinnar og ávallt hefur verið mikill metnaður af hálfu Landsvirkjunar við gerð þessara listaverka. Í ljósi þess sem ég hef hér rakið um samspil manns og náttúru síðustu 35 árin hér í Þjórsárdal eiga einkunnarorð rammaáætlunar um virkjanir, maður, nýting, náttúra einkar vel við. Við uppbyggingu virkjunarmannvirkja hér á svæðinu undanfarna áratugi mætti því segja að fjórða einkunnarorðið ætti einnig við þannig að þau myndu verða: maður, menning, nýting, náttúra.

Með þessum orðum óska ég þjóðinni til hamingju með nýja og glæsilega virkjun með þeirri vissu um að hún muni efla og styrkja hagsæld þjóðarinnar á nýrri öld.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum