Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. júní 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Opnun Verðbréfaskráningar Íslands, 29.06.00 -

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við opnun Verðbréfaskráningar Íslands,
29. júní 2000.



I.
Góðir gestir. Það er engum blöðum um það að fletta að með formlegri opnun Verðbréfaskráningar Íslands hér í dag er stigið stórt framfaraskref á íslenskum verðbréfamarkaði. Rafræn skráning verðbréfa er forsenda fyrir því að íslenskur verðbréfamarkaður sé samkeppnisfær og geti tekið þátt í hinni hröðu uppbyggingu alþjóðlegs markaðar með verðbréf. Jafnframt er einsýnt að tilkoma verðbréfamiðstöðvar hér á landi mun spara ríkissjóði og öðrum aðilum á verðbréfamarkaði stórfé.
II.
Stofnun Verðbréfaskráningar Íslands á sér langan aðdraganda. Það var í upphafi tíunda áratugarins að fyrst var hugað að því að koma á fót rafrænni skráningu verðbréfa hér á landi. Þó að nokkurt hagræði væri talið af slíkri skráningu varð málinu þá ekki þokað lengra, meðal annars vegna þess að viðskipti á verðbréfamarkaði voru enn lítil. Um miðjan áratuginn tóku stjórnvöld síðan að sér að leiða saman hagsmunaaðila á markaðnum til að standa að stofnun og rekstri verðbréfamiðstöðvar. Niðurstaða hagkvæmniathugunar var sú að verðbréfamiðstöð væri íslenskum verðbréfamarkaði lífsnauðsyn. Undirbúningsfélag um verðbréfamiðstöð í eigu lánastofnana, verðbréfafyrirtækja, lífeyrissjóða, skráðra hlutafélaga og ríkisins, tók síðan til starfa árið 1997. Síðan hefur ötullega verið unnið að stofnun verðbréfamiðstöðvarinnar og er það mikla undirbúningsstarf að bera ávöxt hér í dag.
III.
Verðbréfamiðstöðvar geyma mjög mikilvæg fjárhagsleg verðmæti almennings og fyrirtækja í landinu. Skráning í verðbréfamiðstöð er eina lögformlega skráningin á eignarhaldi þeirra verðbréfa sem þar eru skráð og kemur þannig í stað verðbréfanna sjálfra. Það er því mikilvægt að um þessa mikilvægu starfsemi gildi strangar lagakröfur. Jafnframt er mikilvægt að myndarlega sé staðið að kynningu á þessari nýbreytni.

Viðskiptaráðuneytið hafði frumkvæði að gerð lagafrumvarps um rafræna eignarskráningu verðbréfa, sem samþykkt var frá Alþingi á haustþingi árið 1997. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir að veittur sé einkaréttur á starfseminni heldur er sett almenn rammalöggjöf um starfsemi af þessu tagi. Viðskiptaráðherra veitir verðbréfamiðstöðvum starfsleyfi.

Einungis reikningsstofnanir geta stundað eignarskráningu í verðbréfamiðstöð. Reikningsstofnanir eru Seðlabankinn, lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki. Reikningsstofnanir verða að gera aðildarsamning við verðbréfamiðstöð þar sem nánar er kveðið á um réttindi og skyldur vegna aðildar að eignarskráningu í verðbréfamiðstöð.

Ströng ákvæði eru í lögunum um skaðabótaskyldu verðbréfamiðstöðva. Verðbréfamiðstöð er skaðabótaskyld fyrir tjóni sem rakið verður til mistaka af hennar hálfu í tengslum við tilkynningar um skráningu, breytingar eða afmáningu réttinda á reikningi í miðstöðinni. Jafnframt er kveðið á um sérstakan ábyrgðarsjóð sem nemi aldrei lægri fjárhæð en 650 milljónum króna.

Lögin um rafræna eignarskráningu verðbréfa er fyrst og fremst almennur rammi um starfsemi af þessu tagi. Á grunni laganna hefur nú nýlega verið sett viðamikil reglugerð þar sem ítarlega er farið í saumana á skráningu réttinda í verðbréfamiðstöð.
IV.
Tilkoma Verðbréfaskráningar Íslands mun að öllum líkindum aðallega hafa þrenns konar áhrif á verðbréfamarkaðinn. Í fyrsta lagi verður aukið öryggi í viðskiptum, vörslu og meðhöndlun verðbréfa. Þetta er reyndin í öðrum löndum sem hafa gengið í gegnum þetta ferli. Í öðru lagi mun hagræði aukast og viðskiptakostnaður lækka. Í dag hefur öll meðhöndlun pappírsverðbréfa mikinn kostnað í för með sér. Í þriðja lagi er líklegt að rafræna skráningin hafi í för með sér betri samkeppnisstöðu og auknar erlendar fjárfestingar í íslenskum verðbréfum, að minnsta kosti hefur stórri hindrun í vegi erlendrar fjárfestingar í íslenskum verðbréfum verið rutt úr vegi.

Stjórnvöld sem stærstu útgefendur skuldabréfa á verðbréfamarkaði gera sér miklar vonir um margvíslegan ávinning með tilkomu Verðbréfaskráningar Íslands. Þar má nefna
· Lægri kostnað við útgáfu verðbréfa en ríkissjóður hefur varið milljónum króna á ári hverju í prentun og kaup á pappír.
· Lægri kostnað við greiðslu og frágang þegar uppgjör fer fram.
· Styttri tíma við að koma útgáfum á markað
· Auðveldari meðhöndlun við sölu til fjárfesta
· Og síðast en ekki síst meiri viðskipti og þar með betri verðmyndun á markaði.
V.
Góðir gestir. Það er mitt mat að stofnun verðbréfamiðstöðvar sé stærsta og mikilvægasta verkefni sem íslenski verðbréfamarkaðurinn hefur sameiginlega staðið að. Það er von mín og vissa að biðin eftir verðbréfamiðstöðinni hafi verið þess virði og vandað hafi verið til verks. En þó að við fögnum vel unnu verki og merkum áfanga hér í dag vil ég biðja forsvarsmenn Verðbréfaskráningar að halda vöku sinni og fylgjast grannt með alþjóðlegri þróun í starfsemi verðbréfamiðstöðva. Það er deginum ljósara að Ísland er ekki lengur eyland í verðbréfaviðskiptum. Mikið hefur verið um sameiningar verðbréfamiðstöðva í Evrópu og reyndar hefur þróunin undanfarin misseri verið í átt til sterkari tengsla á milli verðbréfamiðstöðva og kauphalla. Stærra markaðssvæði með tilkomu evrunnar hefur mjög ýtt undir þessa þróun.

Ég vil í lokin þakka Þorsteini Þorsteinssyni stjórnarformanni og félögum hans í stjórninni og Einari Sigurjónssyni framkvæmdastjóra og samstarfsmönnum hans til hamingju með þennan merka áfanga. Jafnframt vil ég óska öllum þátttakendum á íslenskum verðbréfamarkaði til hamingju með Verðbréfaskráningu Íslands. Ég þakka fyrir.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum