Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. júlí 2000 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Setningarávarp á landbúnaðarsýningunni Bú 2000

Ávarp Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
við setningu landbúnaðarsýningarinnar "Bú 2000"
haldin 6. - 9. júlí 2000



Formaður Bændasamtaka Íslands, Ari Teitsson,
borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,
aðstandendur landbúnaðarsýningarinnar BÚ 2000, góðir hátíðargestir.

Landbúnaðurinn er kominn til borgarinnar. Inni í Víðidal stendur yfir glæsilegt Landsmót hestamanna og hér í Laugardalnum erum við stödd við opnun landbúnaðarsýningar. Þessir tveir atburðir eru til þess fallnir að efla vináttu og tengsl dreifbýlis og þéttbýlis og skerpa vitund okkar um það að við erum ein þjóð í einu landi.

Landbúnaðarsýningar hafa verið haldnar með reglulegu millibili allt frá árinu 1921, að hér í Reykjavík var haldin búnaðarverkfærasýning dagana 5. – 12. júlí, eða fyrir réttum 79 árum. Þar voru sýnd ýmiss konar áhöld og verkfæri, ný og gömul, innlend og erlend og má segja að sú sýning marki að vissu leyti upphaf tæknialdar í íslenskum landbúnaði. Slíkar sýningar eru mikilvægar fyrir landbúnaðinn, því þar gefst færi á að meta stöðuna, íhuga hvað vel hefur tekist og hvað miður, skoða nýjungar og horfa til framtíðar. Fyrir neytendur eru landbúnaðarsýningar einnig mikilvægar því þar gefst tækifæri til þess að skoða hið fjölbreytta úrval framleiðsluvara landbúnaðarins og kynnast nýjungum á því sviði. Á sýningu sem þessari verður okkur betur ljóst en áður hvað við Íslendingar erum gæfusöm þjóð að eiga öflugan landbúnað sem framleiðir hollar og heilnæmar afurðir. Fyrir nokkrum dögum fengum við enn sannanir fyrir því hversu hollar og ómengaðar íslenskar landbúnaðarafurðir eru, þegar umhverfisráðherra kynnti niðurstöður könnunar á hreinleika íslenskra garðyrkjuafurða, borðið saman við innfluttar vörur. Í þeirri könnun höfðu íslensku afurðirnar algera yfirburði.

Við eigum að nýta okkur sterka stöðu landbúnaðarins á þessu sviði, þar liggja sóknarfæri okkar. Ég vil láta á það reyna á næstu misserum hvaða möguleika við eigum á útflutningi búvara undir merkjum hollustu, hreinleika og gæða og þá jafnframt láta skoða hvaða umbætur þarf að gera á rekstrarskilyrðum landbúnaðarins svo þetta sé mögulegt.

Um aldir var það hlutverk landbúnaðarins að framleiða mat og klæði fyrir þjóðina. Til þess þurfti margar hendur, sem sést e.t.v. best á því að þar til fyrir rúmum 100 árum bjuggu um 90% þjóðarinnar í sveitum landsins. Tæknibyltingin hefur snúið þessu við, þannig að nú eru einungis rúm 4% vinnuafls þjóðarinnar starfandi við landbúnað. En breyttir tímar hafa opnað landbúnaðinum og þeim sem í sveitunum búa ný tækifæri. Landið, sem áður var undirstaða matvælaframleiðslunnar, er nú undirstaða margvíslegra tækifæra til atvinnusköpunar og nýrra viðfangsefna. Aukinn frítími og vaxandi velmegun þjóðarinnar skapar þörf fyrir ný viðfangsefni í tómstundum fólks. Mikill áhugi þjóðarinnar á skógrækt og landgræðslu er gleðilegur vottur um hug fólks til landsins og við eigum að gefa sem flestum kost á að sýna þennan hug sinn í verki og eignast sinn sælureit. Í landbúnaðarráðuneytinu verðum við áþreifanlega vör við þessa þörf fólks til þess að eignast blett og hlú að landinu, því tugir manna sækja um hverja jörð og hvern landskika sem auglýstur er til leigu eða sölu. Í þessu er fólgið tækifæri til þess að treysta stöðu dreifbýlisins með margvísiegri þjónustu við þá sem þannig leita á vit landsins og uppruna síns.

Sá Íslendingur er vandfundinn sem ekki á ættir að rekja til einhvers bæjar eða þorps í dreifðum byggðum landsins. Öll erum við sveitafólk í hjarta okkar. Fyrr á árum voru tengslin ræktuð með því að flest þéttbýlisbörn fóru til sumardvalar í sveitum landsins. Smám saman hafa þessi tengsl rofnað og bilið breikkað milli landsbyggðar og þéttbýlis. Þetta á ekki eingöngu við um landbúnaðinn heldur sjávarútveginn einnig. Þessu þarf að breyta. Við Íslendingar höfum aldrei haft her og því aldrei efnt til herútboðs. Ég lýsi hins vegar vilja mínum til þess að efna til herútboðs af öðrum toga, herútboðs sem fólgið yrði í því að öll ungmenni fái tækifæri til þess einhvern tíma á uppvaxtarárunum að dvelja í sveit eða við sjó og kynnast af eigin raun undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og fá tilfinningu fyrir uppruna sínum. Ef okkur tekst á þann hátt að treysta tengslin við uppruna okkar og landið, þá mun okkur áfram vel farnast sem þjóð.








Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum