Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. ágúst 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Opnun verslunarmiðstöðvar á Netinu, 28.08.00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp í tilefni opnunar verslunarmiðstöðvar á Netinu
í Árbæjarsafni mánudaginn 28. ágúst 2000.


Ágætu gestir:
Í hugum almennings á upplýsinga- og fjarskiptatæknin sér ekki svo ýkja langa sögu. Internetið var framandi orð í hugum okkra flestra fyrir aðeins fimm til sex árum síðan og engan rann þá í grun að áður en áratugurinn væri á enda yrði notkun Netsins og farsíma á Íslandi sú mesta í heiminum. Sú er þó raunin í dag. Þótt þetta sé frekar óvenjuleg staða þá er hún óneitanlega mjög ánægjuleg því hún gefur til kynna að möguleikar okkar til að efla okkur á sviði mennta- og menningarmála sem og á sviði félagslegra- og efnahagslegra framfara eru einkar góðir.

Internetið er ótvírætt eitt mikilvirkasta tækið sem íslensk þjóð hefur um langan tíma fengið aðgang að. Það mun bæði efla stöðu okkkar inn á við og út á við gagnvart öðrum þjóðum. Með notkun þess gefst almenningi kostur á aðgangi að hverskonar upplýsingum og á að stunda viðskipti, -bæði kaup og sölu, sem annars væri margvíslegum takmörkunum háð. Það styrkir búsetu víðsvegar um landið með því að gefa kost á fjarnámi og fjarvinnslu og með því að hverskonar þjónusta við íbúana styrkist t.d. vegna fjarlækninga. Staða þjóðarinnar styrkist einnig út á við m.a. vegna þess að fjarlægðirnar við helstu viðskiptaþjóðir okkar minnka og frjálst flæði upplýsinga og rafræn viðskipti um Netið munu nýtast okkur hlutfallslega betur en mörgum stærri þjóðum sem við eigum í samkeppni við vegna þess að einokun þeirra á margskonar þekkingu og upplýsingum er rofin.

Þessar breytingar hafa verið knúnar áfram af einstaklingum og fyrirtækjum eins og vera ber, - en hlutverk stjórnvalda er fyrst og fremst að tryggja hinn ytri lagalega ramma málsins. Í því sambandi þurfum við að fylgja samræmdum reglum Evrópubandalagsins að svo miklu leyti sem þær koma til með að gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Að öðrum kosti er það vilji minn að hömlur á rafræn viðskipti verði sem minnstar enda er hag okkar litlu þjóðar best borgið í sem opnustu samkeppnisumhverfi.

Við höfum nú þegar náð nokkru forskoti á aðrar þjóðir hvað varðar tölvulæsi og almennan aðgang að Netinu. Mikilvægt er að hald þessu forskoti sem mestu og nýta það til að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja í hinu alþjóðlega samkeppnisumhverfi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið vill stuðla að því að svo verði og hefur í því sambandi látið gera úttekt á íslenskri löggjöf með tilliti til rafrænna viðskipta. Þessi úttekt er fyrsti þáttur í veigamikilli vinnu sem ráðuneytið mun ráðast í á næstu árum í þeim tilgangi að vinna rafrænum viðskiptum brautargengi hér á landi. Á síðasta vori kynnti ráðuneyið frumvarp til laga um rafrænar undirskriftir sem væntanlega verður lagt fyrir komandi haustþing. Í þriðja lagi er hafinn undirbúningur að innleiðingu tilskipunar ESB um rafræn viðskipti.

Markmið ráðuneytisins er að tryggja að rafræn viðskipti njóti viðurkenningar að lögum þannig að frjór jarðvegur skapist fyrir íslenskt viðskiptalíf til að vera í fararbroddi á þessu sviði.

Ágætu samkomugestir.
Það er mér sönn ánægja að vera vitni að því er þessi verslunarmiðstöð á Netinu er opnuð. Enginn vafi er á því að þeir verslunarhættir sem hér er boðið upp á eru hluti af þeirri þjóðfélagsmynd sem heyra mun til hversdagsleika framtíðarinnar. Þeir eru til þess fallnir að þjóna hagsmunum neytenda með fjölbreyttara framboði vöru og lægra vöruverði - jafnframt því að þeir þjóna hagsmunum framleiðenda með stórauknum aðgangi að nýjum og fjölbreyttari markaði sem engin landamæri þekkir. Þessir verslunarhættir eru einkar hagstæðir fyrir okkar smáu og landfræðilega afskekktu þjóð.

Að lokum óska ég aðstandendum verslunarinnar innilega til hamingju með framtakið.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum