Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. október 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ráðstefna Skýrslutæknifélags Íslands og Staðlaráðs Íslands 19.10.00 -

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við setningu ráðstefnu Skýrslutæknifélags Íslands
og Staðlaráðs Íslands, fimmtudaginn 19. október 2000



Ráðstefnustjóri,
ráðstefnugestir.

Ekki þarf að hafa mörg orð um þær tækninýjungar sem rutt hafa sér til rúms á undangengnum árum og er engin furða að talað sé um upplýsingabyltingu. Upplýsingtækninni hefur fleygt fram og er raunar orðin almenningseign. Þetta hefur leitt þess að ný tækifæri og nýjar lausnir hafa skapast bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Nýjar leiðir hafa opnast til þess að eiga samskipti, til þess að markaðssetja vörur og stunda viðskipti.

Við tökum vitaskuld þessum framförum fagnandi, en þó er ljóst að þessum byltingarkenndu breytingum fylgir sitthvað sem ekki er víst að öllum þyki æskilegt. Aldrei fyrr hefur verið jafn auðvelt að safna saman með skipulegum hætti upplýsingum um einstaklinga og aldrei jafn víðtækir möguleikar til þess að vinna úr þeim. Á sama tíma og við fögnum þessum framförum, vakna því áleitnar spurningar um vernd einkalífs og persónufrelsis.

Í stjórnarskrá lýðveldisins er kveðið á um friðhelgi einkalífsins sem felur í sér rétt manna til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi, sérstaklega tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra. Stjórnarskráin leggur línurnar, en það er hlutverk Alþingis að sjá til þess að löggjöfin hverju sinni tryggi einstaklingunum skilvirka og skýra vernd gegn ágangi og brotum gegn friðhelgi einkalífsins.

Ný lög um persónuvernd sem samþykkt voru á síðasta þingi þjóna þessum tilgangi. Lögin fela í sér skýrar reglur um meðferð persónuupplýsinga og vernd fyrir einstaklinga gegn hvers kyns misnotkun upplýsinga sem varða þá.

Hér í dag verður rætt um þessa löggjöf frá sjónarhóli viðskipta og stjórnsýslu. En slík löggjöf verður vitaskuld að taka mið af fleiri þáttum en einvörðungu persónuvernd. Stjórnarskráin tryggir nefnilega fleiri réttindi en friðhelgi einkalífsins. Tjáningarfrelsi er þar á meðal og viðskiptafrelsi er önnur meginregla í okkar samfélagi. Lög um persónuvernd mega því ekki ganga nærri rétti manna til þess að setja fram skoðanir sínar eða íþyngja viðskiptalífinu um of. Hér, eins og svo oft áður, er það hið vandfundna meðalhóf sem verður að viðhafa. Við verðum að leitast við að finna eðlilegt jafnvægi milli þessara sjónarmiða og að mínum dómi hefur það tekist með ágætum í okkar nýju löggjöf um persónuvernd.

Fyrir höndum er áhugaverð dagskrá þar sem margir þættir persónuverndarinnar verða krufnir til mergjar og er ástæða til þess að þakka Staðlaráði Íslands og Skýrslutæknifélaginu fyrir þetta góða framtak.

Að því mæltu lýsi ég ráðstefnuna setta.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum