Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. október 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ráðstefna VFÍ um nýjungar og rannsóknir í verkfræði, 24.10.00. -

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Ávarp á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands
24. október 2000
um nýjungar og rannsóknir í verkfræði.



Ágætu ráðstefnugestir
Þegar skoðuð er aldargömul saga íslenskrar verkfræðimenntunar og um leið saga þeirra frumherja er sóttu slíka menntun, vekur það undrun hversu langt íslenska þjóðin hefur náð við að þróa hér eitt tæknivæddasta ríki á norðuhveli jarðar á fáum áratugum. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að um síðustu aldamót var Ísland eitt vanþróaðasta ríki Evrópu, hér bjuggu menn í moldarkofum eða hjöllum við sjálfsþurftarbúskap og höfðu vart til hnífs og skeiðar meðan aðrar þjóðir Evrópu höfðu byggt upp þróað borgarsamfélag og iðnað um aldar skeið.

Á nítjándu öldinni varð mikil vitundarvakning hjá þjóð okkar um nauðsyn þess "að bæta kjör vors lands og lýðs" en orka manna var takmörkuð og beindist að sjálfstæði þjóðarinnar. Um aldamótin urðu umskiptin miklu í framförum hér á landi. Stórskáldin hvöttu menn til dáða á nýrri öld og þjóðin eignaðist fyrstu menntuðu einstaklinga á sviði verkfræðinnar. Þessi framfaraandi ásamt auknu fjármagni í þjóðfélaginu gerði þjóðinni kleift að ráðast fljótlega í margar framkvæmdir, sem aðeins örfáum áratugum áður hefði verið talið óhugsandi.

Fyrstu verkfræðingarnir, Sigurður Thoroddsen og skömmu síðar Jón Þorláksson, ruddu brautina í eiginlegri og óeiginlegri merkingu þeirra orða. Þó svo að rannsóknir frumherja verkfræðinnar hefðu verið af vanefnum gerðar voru þær eigi að síður merkar og voru unnar af alúð og innsæi, sem skilaði þjóðinni miklu. Framan af öldinni voru tæknirannsóknir hér á landi að mestu unnar af erlendum aðilum. Við skulum ekki vanmeta þær rannsóknir sem hafa á margan hátt reynst traustur grunnur frekari þekkingar. Þar má sem dæmi nefna gerð grunnkorta af landinu sem unnið var að á fyrstu áratugum aldarinnar.

Með aukinni velmegun hafði þjóðin fyrst efni á að mennta sína fyrstu raunvísindamenn á fimmta áratug aldarinnar. Smám saman hefur okkur tekist að efla menntun og rannsóknir á þessu sviði, en vitaskuld eru takmörk fyrir því hversu langt við getum gengið í sérhæfðri menntun í samanburði við stórþjóðir. Því má telja eðlilegt að íslenskir raunvísindamenn sæki framhalds- og sérmenntun sína í verulegum mæli við erlenda háskóla og vísindastofnanir í framtíðinni. Slíkt opnar mönnum nýja sýn á vísindastarfi annarra þjóða og gerir mönnum kleift að fást við stærri viðfangsefni en hér er að finna, en við verðum ávallt að huga að því mikla verkefni að búa í haginn fyrir hið unga atgerfisfólk er óskar eftir að snúa heim að nýju að lokinni menntun.

Rannsóknir og tækniþróun verða sífellt alþjóðlegri. Landamæri á þessu sviði eru að hverfa og samvinna þjóða um meiri háttar rannsóknarverkefni hefur stóraukist. Á öðrum sviðum hefur aukin samkeppni um árangur rannsókna verið drifhvati árangurs. Íslenska vísinda- og tæknisamfélagið hefur á undanförnum árum orðið að tileinka sér vinnulag og kröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi um gæði rannsókna, enda er samkeppni hörð um fjárveitingar. Kröfur í þessum efnum eru sífellt að aukast og menn verða að mæta þessum kröfum hér á landi til að verða gjaldgengir í alþjóðlegu vísindaumhverfi. Fjármögnun rannsóknaverkefna er vitaskuld ein meginforsenda fyrir öflugu rannsóknar- og vísindastarfi. Þróunin síðustu áratugi hefur verið sú að ýmis fyrirtæki hafa komið í auknum mæli að fjármögnun rannsókna, sem þá geta nýtt sér niðurstöður þeirra og aukið þar með nýsköpun atvinnulífsins. Jafnframt hafa undanfarin ár öflug rannsóknarfyrirtæki fest rætur hér á landi eins og flestum er kunnugt um og fulltrúar þeirra kynna hér rannsóknir sínar. Það er fagnaðarefni í ljósi þess átaks sem við Íslendingar höfum unnið að á síðustu árum við að efla nýsköpun í atvinnulífinu, sem virðist ætla að bera góðan árangur.

Mikilvægt er að skapa í framtíðinni frjóan jarðveg á sviði nýrra hugmynda og þróunar í atvinnulífi landsins og rækta hæfileika einstaklinganna. Það er oft haft á orði að mannauðurinn sé mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. En gleymum ekki því að mannauðurinn verður aðeins auðsuppspretta að hæfileikar mannsins verði ræktaðir og virkjaðir við verðug verkefni. Það er hlutverk stjórnvalda, vísindastofnana og fyrirtækja að móta þennan farveg nýrra verkefna í framtíðinni.

Ágætu ráðstefnugestir.
Ég vil þakka fyrir þann heiður að hafa fengið að ávarpa ykkur í upphafi þessarar ráðstefnu. Hér verða kynntar margar og fjölbreyttar rannsóknir og nýjungar í verkfræði, sem unnið er að við Háskóla Íslands, opinberar stofnanir og ýmis fyrirtæki. Þegar fjallað er um og kynntar nýjungar í verkfræði á ráðstefnu sem þessari er ekki síst mikilvægt að fá sem flesta aðila til samstarfs og freista þess að vekja áhuga unga fólksins á nýjum hugmyndum og tækni og byggja þannig upp sína eigin framtíð Ég hvet Verkfræðinga- og Tæknifræðingafélag Íslands til að halda áfram á þeim vettvangi í framtíðinni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum