Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. nóvember 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Opnun Evrópumiðstöðvar Impru, 30.11.00 -

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við opnun Evrópumiðstöðvar Impru
30. nóvember 2000

Ágætu gestir,

Með tilkomu Internetsins hafa fjarlægðir við aðrar þjóðir minnkað og býður það íslensku þjóðinni upp á ný og áður óþekkt tækifæri á alþjóðlega vísu. Í upphafi nýrrar aldar er notkun Netsins og farsíma á Íslandi sú mesta í heiminum og veitir það okkur Íslendingum ákveðið forskot í upplýsingasamfélagi samtímans.

Rafræn viðskipti og upplýsingmiðlun á Netinu kemur einnig landsbyggðinni til góða og munu möguleikar á fjarnámi og fjarvinnslu án efa styrkja búsetu á landsbyggðinni. Heimasíða Evrópumiðstöðvar Impru sem verður opnuð hér í dag er einn þáttur í þeirri þróun að hægt sé taka þátt í alþjóðlegu samstarfi án tillits til búsetu. Sem ráðherra byggðamála er það mér því sérstök ánægja að vera hér í dag.

Evrópumiðstöð Impru er hluti af samstarfsneti 68 miðstöðva sem starfa á vegum Nýsköpunaráætlunar Framkæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem "Innovation Relay Centre". Samstarfsnetið sem kallast IRC-samstarfsnetið starfar í 30 löndum víðsvegar um Evrópu og vinnur að því markmiði að auka samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja með aðgerðum sem efla þau til nýsköpunar og tæknisamstarfs.

Hlutverk Evrópumiðstöðvar Impru er að aðstoða fyrirtæki við greiningu á möguleikum á tækniyfirfærslu, leit að samstarfsaðilum í Evrópu, koma hugmyndum í réttan farveg og komast í rannsókna- og tæknisamstarf í Evrópu ásamt því að nýta og markaðsfæra niðurstöður verkefna. Þá veitir starfsfólk Evrópumiðstöðvarinnar upplýsingar um ýmsa þjónustu Evrópusambandsins í tengslum við fjármögnun til nýsköpunarverkefna, einkaleyfi og verndun hugverka.

Evrópumiðstöð Impru miðar þjónustu sína sérstaklega við fyrirtæki, sem vinna að tækniþróun og eru í leit að tæknilausnum, eða vilja koma þeim á framfæri. Þjónustan felur því einnig í sér gagnkvæma upplýsingamiðlun milli evrópskra fyrirtækja sem leita samstarfs um tækniþróun eða bjóða tæknilausnir. Með þessari upplýsingamiðlun er einmitt komið á samstarfi um tækniyfirfærslu á milli íslenskra og evrópskra fyrirtækja. Þar getur verið um að ræða yfirfærslu hvers konar þekkingar frá einni atvinnugrein til annarrar, yfirfærslu á tækni á milli landa og hagnýtingu fyrirtækja á þekkingu sem er til staðar hjá háskólum eða rannsóknarstofnunum.

Tækniyfirfærsla er öflug leið til nýsköpunar, hvort sem er á sviði vöruþróunar, breyttra framleiðsluferla, rannsókna og tæknisamstarfs, hagræðingar, eða á öðrum sviðum framleiðslu og reksturs.

Heimasíða Evrópumiðstöðvar Impru veitir fyrirtækjum nú aðgang að gagnabanka IRC samstarfsnetsins. Þetta þýðir að íslensk fyrirtæki hafa beinan aðgang að upplýsingum um evrópsk fyrirtæki sem óska eftir eða bjóða fram tæknisamstarf. Í gagnagrunninum eru upplýsingar um hundruð verkefna.

Upplýsingarnar eru flokkaðar eftir atvinnugreinum og eðli verkefna. Íslenskum fyrirtækjum er boðið að senda lýsingu á tækniverkefnum til Evrópumiðstöðvarinnar, sem hefur samband við fyrirtækin og veitir þeim þá þjónustu sem best á við. Íslensk fyrirtæki geta líka gerst áskrifendur að upplýsingum um tæknitilboð og tæknióskir á sínu sérsviði þeim að kostnaðarlausu.

Ágætu samkomugestir,

Það er mér sönn ánægja að opna Evrópumiðstöð Impru og óska ég aðstandendum hennar innilega til hamingju með þetta framtak sem mun án efa nýtast íslenskum fyrirtækjum mjög vel.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum