Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. desember 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Opnun hitaveitu Dalabyggðar, 19.12.00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra





Ágætu Dalamenn og gestir

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að vera með ykkur hér í dag til að fagna gangsetningu þessarar nýju og glæsilegu hitaveitu. Mér er kunnugt um að undirbúningur að byggingu hitaveitunnar hefur staðið í mörg ár þó hinar eiginlegu framkvæmdir hafi tekið tiltölulega skamman tíma.

Árið 1998 settuð þið Dalamenn ykkur fimm markmið í byggðamálum. Nú tveimur árum síðar þá hafið þið náð fjórum af þessum markmiðum. Meðal þess sem náðst hefur er að ljúka uppbyggingu á Eiríksstöðum. Eiríkur rauði fyrrum ábúandi þar og sonur hans Leifur heppni hafa verið mikið í fréttum á þessu síðasta ári aldarinnar. Afrek Leifs hafa spurst víða og er ég þess fullviss að áhugi ferðmanna fyrir þessu svæði muni aukast í kjölfarið. Eiríksstaðir eiga því eftir að gegna miklu hlutverki í framtíðinni varðandi uppbyggingu ferðamennsku í Dalabyggð.

Jafnframt hefur ykkur tekist að ná því markmiði að byggja hitaveituna sem gangsett var hér í dag og er tilefni þess að við komum hér saman. Fyrir mörgum árum var maður í framboði til Alþingis hér í Dalasýslu. Á einum kosningafundinum spurði hann hvað heimamenn vanhagaði helst um. Þá kallaði einhver fram úr sal að það vantaði flugvöll. Frambjóðandinn hnippti þá í aðstoðarmann sinn og bað hann um að skrifa flugvöll. Ekki veit ég hvort þetta varð til þess að Kambnesflugvöllur var byggður en mér finnst þessi saga segja okkur að það getur oft verið gott að skrifa niður það sem við viljum framkvæma. Það gerðuð þið og við sjáum afrakstur þess hér í dag.

Við undirbúning að gerð gildandi byggðaáætlunar sem samþykkt var á Alþingi í mars 1999 voru gerðar ýmsar kannanir. Í einni slíkri könnun voru könnuð viðhorf íbúa til ýmissa búsetuskilyrða á landsbyggðinni. Þar kom fram að á svokölluðum hættusvæðum, en það eru svæði þar sem íbúum hefur fækkað um meira en 10% á síðustu 10 árum, nefndu flestir eða 78% aðspurðra að þeir væru óánægðir með húshitunarkostnað. Þessi þáttur ásamt óánægju með verðlag og verslunaraðstæður skáru sig frá öðrum búsetuþáttum sem valda óánægju. Í ljósi þessarar niðurstöðu var ákveðið að leggja mikla áherslu á jöfnun húshitunarkostnaðar í byggðaáætluninni. Ég vil því nota tækifærið og gera grein fyrir nokkrum verkefnum sem unnið er að í iðnaðarráðuneytinu á þessu sviði.

Í fyrsta lagi hafa niðurgreiðslur til rafhitunar verið auknar verulega en samkvæmt fjárlögum næsta árs verður varið 790 millj. kr. til þessa verkefnis. Í öðru lagi er í gangi svokallað jarðhitaleitarátak á köldum svæðum. Hér er um að ræða samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins, Byggðastofnunar og Orkusjóðs. Markmið jarðhitaleitarátaksins er að kanna möguleika á nýtingu jarðhita á ýmsum svæðum á landinu þar sem hingað til hafa verið taldar litlar líkur á að finna jarðhita sem nýta má til húshitunar. Í þriðja lagi eru veittir styrkir á vegum iðnaðarráðuneytisins til stofnunar nýrra hitaveitna og stækkunar á dreifiveitukerfi starfandi veitna. Nemur styrkurinn samtölu fimm ára niðurgreiðslna á rafhitunarkostnaði viðkomandi veitusvæðis. Frá því að farið var að veita þessa styrki - við lok síðasta árs - hafa fjórar veitur fengið slíka styrki. Nú liggur fyrir umsókn frá Hitaveitu Dalabyggðar og verið er að afla gagna til að hægt verði að taka ákvörðun um styrkfjárhæðina. Samkvæmt reglum sem gilda um þessa styrki skulu þeir að hluta renna til þess að greiða niður stofnkostnað viðkomandi hitaveitu og að hluta til þeirra íbúðareigenda sem þurfa að leggja í kostnaðarsamar aðgerðir til að tengjast hitaveitunni.

Ágætu Dalamenn

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að óska ykkur innilega til hamingju með nýju hitaveituna og vona að hún muni reynast ykkur vel í alla staði. Ég vil jafnframt hvetja ykkur til að halda áfram að setja ykkur skynsamleg markmið um það með hvaða hætti þið getið bætt búsetuskilyrði og almenn skilyrði til atvinnuppbyggingar á svæðinu.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum