Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á aðalfundi SÍT, 07.03.2001

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ræða flutt á aðalfundi Sambands ísl. tryggingarfélaga
7. mars 2001

Fundarstjóri, góðir fundarmenn. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þann heiður að fá að ávarpa ykkur hér á aðalfundi samtaka ykkar.

Ég ætla að gera fjármagnsmarkaðinn að umtalsefni hér í dag, lagaumhverfi hans og hlutverk ríkisins. Fjármagnsmarkaðurinn er dæmi um grein sem hefur blómstrað nú á tímum nýja hagkerfisins. Í raun má halda því fram að hagvöxtur síðustu fimm ára hefði verið mun minni ef breytingar á fjármagnsmarkaðnum hefðu ekki verið jafn örar og raun ber vitni. Það eru ekki einungis skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaðnum sem leitt hafa til þessa árangurs heldur ekki síður frumkvæði og nýjungar sem fylgt hafa hinni auknu samkeppni á markaðnum. Ungt og vel menntað fólk hefur haslað sér völl í þessari atvinnugrein í síauknum mæli. Fólk sem menntað hefur sig í hinum ýmsum greinum erlendis finnur störf við sitt hæfi á íslenskum fjármagnsmarkaði. Þetta fólk skapar verðmæti með nýjum hugmyndum og ferskir vindar leika í kjölfarið um íslenskt atvinnulíf. Hinn einsleiti og niðurnjörvaði fjármagnsmarkaður heyrir því sögunni til og í staðinn hafa komið þekkingarfyrirtæki fólks með fjölbreyttan bakgrunn. Á sama tíma hafa fjármálafyrirtækin stækkað ört.

Ríkið hefur um áratugaskeið verið ráðandi á íslenskum fjármagnsmarkaði þó mjög hafi dregið úr áhrifum þess á síðustu árum. Áður fyrr ákvað ríkið vexti í landinu og jafnframt hvernig lífeyrissjóðir skyldu ráðstafa fé sínu svo dæmi séu tekin. Þetta er að sjálfsögðu liðin tíð.

Ítök ríkisins eru samt sem áður sterk. Ríkið á ennþá meirihluta í tveimur af þremur viðskiptabönkum landsins. Þó mikið verk sé enn óunnið í þeim efnum verður að taka með í reikninginn að ríkið hefur nú þegar selt nær helming eigna sinna á fjármagnsmarkaði.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að ríkið eigi almennt ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðlilegum hætti og þar sem virk samkeppni er fyrir hendi. Er þetta í samræmi við viðtekin sjónarmið í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Ríkisviðskiptabankarnir áttu rætur sínar að rekja til þess tíma þegar takmarkað framboð var á fjármagni og því talið nauðsynlegt að ríkið hlutaðist til um þessa starfsemi og tæki jafnframt áhættuna af henni. Nú er þessi staða ekki lengur fyrir hendi.

Einkarekstur banka er meginreglan í hinum vestræna heimi. Í flestum löndum Evrópu er löng saga ríkisrekinna banka en nú er helst um slíkt að ræða í Þýskalandi og Austurríki.

Í síðustu viku kynnti ég áform ríkisstjórnarinnar um sölu Landsbanka og Búnaðarbanka. Stefnt er að því að fá nú þegar heimild Alþingis til að selja hlut ríkisins í bönkunum; sala á eftirstandandi hlut ríkisins hefjist á þessu ári og ljúki fyrir lok kjörtímabilsins árið 2003. Gera verður þann fyrirvara að sala á hlutabréfum hlýtur ætíð að taka mið af aðstæðum á hlutabréfamarkaði, öðrum þjóðhagslegum aðstæðum og þeim mögulegu sölutækifærum sem til staðar eru hverju sinni. Því er ekki hægt að ákveða útboð hlutabréfa með löngum fyrirvara.

Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um sölu fyrirtækja í eigu ríkisins verður lögð áhersla á sölu til almennings og tilboðssölu.

Einnig er gert ráð fyrir að kannaður verði áhugi kjölfestufjárfesta á kaupum á stórum hluta í bönkunum. Í því sambandi verði sérstaklega hugað að fjárfestingu erlends fjármálafyrirtækis í bönkunum. Við val á slíkum fjárfesti verði tekið mið af verklagsreglum um einkavæðingu.

Önnur skipulagsbreyting á íslenskum fjármagnsmarkaði sem kynnt var í síðustu viku er heimild til sparisjóðanna að breyta sér í hlutafélög. Mikilvægt er að sparisjóðirnir fái tækifæri til að vaxa og dafna í þessu nýja umhverfi íslensks fjármagnsmarkaðar. Sparisjóðirnir hafa lengi haft hærra eiginfjárhlutfall en viðskiptabankarnir. Á síðustu árum hafa sparisjóðirnir hins vegar vaxið hratt og eiginfjárhlutfall þeirra lækkað að sama skapi. Með stækkandi markaði, alþjóðavæðingu og harðnandi samkeppni hefur þörfin fyrir eigin fé orðið brýnni. Það er því orðið brýnt að sparisjóðum verði gefinn kostur á að gefa út markaðsverðbréf til að geta keppt á jafnræðisgrunni við önnur fyrirtæki á nútíma fjármagnsmarkaði. Af þessum sökum er ég hlynnt því að sparisjóðum verði heimilað að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag.

Á síðastliðnum hálfum öðrum áratug hafa orðið miklar breytingar á starfsheimildum og starfsemi innlánsstofnana. Starfsskilyrði sparisjóða og viðskiptabanka hafa verið jöfnuð og starfsheimildir þeirra eru nú hinar sömu. Þetta er mjög viðamikil breyting frá því sem áður var. Sérstaða sparisjóða á íslenskum fjármagnsmarkaði er því ekki hin sama og áður. Sparisjóðirnir keppa á sama markaði og önnur fjármálafyrirtæki um hylli neytenda og beita sömu aðferðum við að nálgast viðskiptavini. Í þeirri miklu samkeppni sem ríkir á fjármagnsmarkaðnum verða sparisjóðir, líkt og aðrir, að gæta fyllsta aðhalds í rekstri í því skyni að geta boðið samkeppnishæf kjör. Ákvarðanir um lánveitingar og fjárfestingar þurfa að vera teknar á grundvelli arðsemi til að skaða ekki samkeppnishæfni fyrirtækisins. Rekstrarmarkmið fjármálafyrirtækja lúta því sömu lögmálum, þó að rekstrarform þeirra og eignarhald sé ólíkt.

Þriðja meginbreytingin sem ég kynnti í síðustu viku er frumvarp um eftirlit með virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Í viðskiptaráðuneytinu hefur verið kannað hvaða leiðir séu færar til þess að takmarka hættuna á að stærri hluthafar í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif á þau og þar með fjármagnsmarkaðinn allan. Umræða af því tagi hefur farið fram í öllum Evrópuríkjum og á vettvangi Evrópusambandsins. Af þeim sökum hefur ráðuneytið haft hliðsjón af þeim leiðum sem farnar hafa verið erlendis í þessu tilliti. Þar hefur yfirleitt verið látið nægja að eftirlitsaðilar hafi eftirlit með stærri hluthöfum og gæti annars vegar að því hvort þeir séu almennt til þess fallnir að hafa skaðleg áhrif á rekstur fjármálafyrirtækja og hafi hins vegar viðvarandi eftirlit með áhrifum þeirra á þau.

Sú leið að takmarka í löggjöf hámark þess hlutafjár og/eða atkvæðisréttar sem einstakir aðilar mættu eiga í fjármálafyrirtækjum hefur verið rædd nokkuð á Alþingi og hlotið nokkurn hljómgrunn. Þessari leið fylgja miklir ókostir. Nægir þar að nefna að hún myndi skerða samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja hér á landi gagnvart erlendum fjármálafyrirtækjum sem veita þjónustu hér á grundvelli samningsins um hið evrópska efnahagssvæði, enda myndu hin erlendu félög ekki þurfa að lúta slíkum skilyrðum um dreifða eignaraðild þrátt fyrir að þau byðu þjónustu sína hér á landi. Þá myndi þessi leið takmarka mjög möguleika fjármálafyrirtækja til að hagræða í rekstri sínum með samrunum og samstarfsverkefnum við önnur fjármálafyrirtæki og takmarka aðgengi þeirra að rekstrarfé. Því má færa rök fyrir því að þessi leið lækki markaðsvirði fjármálafyrirtækja, dragi úr samkeppnishæfni þeirra, framleiðni og möguleikum til hagræðingar og dragi úr áhuga innlendra og erlendra aðila á að fjárfesta í þeim. Þar við bætist að Eftirlitsstofnun EFTA hefur lýst yfir þeirri skoðun sinni að slík takmörkun myndi fara í bága við 40. gr. EES samningsins um skyldu aðildarríkja til að tryggja frjálst flæði fjármagns. Ókostir þessarar leiðar verða því að teljast bera kostina ofurliði og þykir hún því ekki koma til álita.

Sú leið sem lagt er til að farin verði er sú að auka eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Tilskipun ESB nr. 2000/12 leggur aðildarríkjum EES þær skyldur á herðar að tryggja í löggjöf sinni ákveðið lágmarkseftirlit með stærri hluthöfum fjármálafyrirtækja. Með gildandi lögum er lágmarksskilyrðum ESB fullnægt. Sum ríki hafa á hinn bóginn gert enn ríkari kröfur til stærri hluthafa og komið á virkara eftirliti með hæfi þeirra og framferði. Með frumvarpi þessu er að því stefnt að Ísland bætist í hóp þeirra ríkja.

Tilgangurinn með frumvarpinu er einkum sá að draga úr hættunni á að stærri hluthafar í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif á rekstur þeirra. Viss hætta þykir á að stærri hluthafar í fjármálafyrirtækjum beiti áhrifum sínum, sem eignarhaldinu fylgir, í því skyni að afla sjálfum sér ávinnings á kostnað fyrirtækjanna, annarra hluthafa eða eftir atvikum annarra viðskiptavina. Slík háttsemi er skaðleg viðkomandi fyrirtækjum og til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á fjármagnsmarkaðnum.

Hlutverk ríkisins á fjármagnsmarkaði er og verður fyrst og fremst að bæta samkeppnishæfni markaðarins og gæta hags viðskiptamanna fjármálafyrirtækja. Af nógu er að taka í því efni því markaðnum fleygir fram og fjármálalöggjöf sömuleiðis.

Við þurfum að nýta okkur fjármálalöggjöfina til að búa til sem bestar aðstæður fyrir íslensk fjármálafyrirtæki. Með því á ég ekki við að regluverk sem þessi fyrirtæki búa við sé sem léttbærast fyrir þau. Þau ríki sem þannig hafa búið um hnúta njóta almennt ekki trausts. En regluverkið verður að vera skilvirkt og réttlátt. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að regluverkið sé sem umfangsmest.

Regluverk á fjármagnsmarkaði er til muna umfangsmeira heldur en í flestum öðrum atvinnugreinum. Það kemur til af mikilvægi fjármagnsmarkaðarins í hagkerfinu. Fjármálafyrirtæki geyma sparnað almennings, veita almenningi og fyrirtækjum lán og ráðgjöf og sinna greiðslumiðlun. Fjármálafyrirtæki eiga allt sitt undir trausti viðskiptavina. Viðskiptavinir fyrirtækjanna verða að geta treyst því fullkomlega að hagsmunir þeirra sitji í fyrirrúmi en ekki hagsmunir fyrirtækisins sjálfs, starfsmanna þess eða aðrir hagsmunir. Þetta er lykilatriði. Gjaldþrot eins fjármálafyrirtækis hefur víðtækari áhrif á virkni hagkerfisins heldur en í öðrum atvinnugreinum. Með umfangsmiklu eftirliti og ítarlegri reglusetningu reyna stjórnvöld því að stuðla að sem mestu öryggi í starfsemi þeirra.

Grunnur flestra laga á fjármagnsmarkaði var að mestu mótaður um það leyti sem við Íslendingar skrifuðum undir Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það var mjög stórt skref á sínum tíma. Við uppfylltum tilskipanir ESB á mjög skömmum tíma og höfum síðan verið að byggja ofan á þann grunn. Nú þegar markaðurinn er orðinn þroskaðri er kominn tími á að endurskoða grunninn.

Nú er að störfum sérstök bankalaganefnd sem ætlað er að endurskoða bankalöggjöfina og gera hana einfaldari og skilvirkari. Í því sambandi er nefndin sérstaklega að skoða hvort æskilegt sé að sameina öll ákvæði er varða stofnun og starfsemi viðskiptabanka, sparisjóði, fjárfestingarbanka og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu í eina heildarlöggjöf um fjármálafyrirtæki. Nefndin tekur í starfi sínu sérstakt tillit til alþjóðlegra strauma en mjög víða er einmitt um þessar mundir verið að vinna að sameiningu löggjafar á fjármagnsmarkaði.

Staða laga um vátryggingarstarfsemi hlýtur að koma til sérstakrar skoðunar ef ákveðið verður að setja sérstaka rammalöggjöf um fjármálafyrirtæki. Það er margt líkt með vátryggingarfélögum og öðrum fyrirtækjum á fjármagnsmarkaði og því hlýtur að þurfa að skoða það ítarlega hvort þau eigi samleið með lánastofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu í löggjöf. Að sjálfsögðu eru þó ýmis sérákvæði sem hljóta að gilda um vátryggingastarfsemi og eiga ekki erindi inn í almenna rammalöggjöf um fjármálamarkaðinn. Dæmi um það eru lög um vátryggingasamninga en þau lög eru einmitt til endurskoðunar í viðskiptaráðuneytinu um þessar mundir.

Vil ég að lokum víkja að máli sem töluvert hefur verið í deiglunni það sem af er vetri.

Jarðskjálftarnir á Suðurlandi s.l. sumar leiddu í ljós nauðsyn þess að húseigendum á Íslandi standi til boða vátryggingarvernd gegn afleiðingum náttúruhamfara. Er ljóst að margir þeirra sem urðu fyrir tjóni vegna skjálftanna ættu í dag við meiri erfiðleika að etja en ella, hefði þeim ekki staðið slík vátryggingarvernd til boða.

Nú líður að lokum tjónsuppgjöra. Að flestu leyti má segja að vel hafi til tekist við að leysa þau vandamál sem upp komu við skjálftana. Lögðust þar allir á eitt; starfsmenn Viðlagatryggingar Íslands og almennu vátryggingafélaganna, viðkomandi sveitarstjórnir svo og annað hjálparlið.

Nokkurrar óánægju hefur þó gætt hjá hluta þeirra húseigenda sem urðu fyrir altjóni. Virðast þar fyrst og fremst um að ræða vandamál tengd annars vegar brunabótamati viðkomandi eigna og hins vegar framkvæmd mats á tjónum og uppgjör þeirra. Gagnger endurskoðun hefur verið gerð á lögum og reglugerðum um brunatryggingar á sama tíma og óbreytt hafa staðið þau ákvæði laga og reglugerða um viðlagatryggingu sem mið ættu að taka af hinum fyrrnefndu.

Til þess að fara yfir framkvæmd tjónsuppgjöra vegna jarðskjálftanna s.l. sumar gerði ég grein fyrir því á ríkisstjórnarfundi í gær að ég hefði ákveðið að setja á laggirnar nefnd sem fari yfir þá verkferla sem Viðlagatrygging Íslands beitti í starfi sínu, þau helstu ágreiningsefni sem upp komu við úrvinnslu og bendi á leiðir til úrbóta. Jafnframt verði nefndinni falið að kanna tilhögun hamfaratrygginga í helstu nágrannalöndum og meta það hvort hamfaratryggingar, eins og viðlagatrygging, séu jafnvel eða betur komnar hjá hinum almennu vátryggingafélögum.

Að fengnum niðurstöðum nefndarinnar mun ég síðan taka um það ákvörðun hvort tilefni sé til þess að láta semja frumvarp til laga um breytingar á því lagaumhverfi sem gildir um viðlagatryggingu hér á landi.

Ég mun að sjálfsögðu leita liðsinnis samtaka ykkar við nefndarstarfið. Veit ég að án aðkomu vátryggingafélaganna hefðu vandamál í tengslum við jarðskjálftana s.l. sumar orðið mun erfiðari viðureignar.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir það tækifæri að fá að ávarpa ykkur hér á þessari samkomu.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum