Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. mars 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á ársfundi Orkustofnunar, 21.03.2001

    Valgerður Sverrisdóttir
    iðnaðar- og viðskiptaráðherra



    Ávarp á ársfundi Orkustofnunar
    21. mars 2001


    Góðir ársfundarfulltrúar.

    Á fyrsta ársfundi Orkustofnunar á nýrri öld er eðlilegt að menn staldri við, líti yfir farinn veg og skoði hvar við Íslendingar stöndum í orkumálum og hvernig nýr tími blasir við okkur.

    Í upphafi síðustu aldar var vatnsaflið og jarðvarminn svo til alveg ónýtt auðlind en framsýnir menn voru farnir að líta til nýtingar náttúrulegra auðlinda sem undirstöðu framfara og bættra kjara í landinu. Því miður varð ekkert af slíkum hugmyndum á þeim tíma, en sá tími rann fyrst upp að nýju fyrir 40-50 árum. Forvitnilegt er að hugsa til þess hvernig íslenskt samfélag liti út í dag ef sóknarfæri fyrstu áratuga aldarinnar hefðu verið nýtt á þessu sviði eins og raunin varð á t.d. í Noregi. En á hitt ber einnig að líta að á þessum árum var þjóðin fámenn, fátæk og einangruð að verulegu leyti og óttaðist skjótar umbreytingar.

    Í stað þess að leggjast í hugleiðingar um hvað hefði getað orðið skulum við fremur fagna hinni stígandi og gifturíku þróun sem orðið hefur í hagnýtingu orkulindanna á síðustu fjórum áratugum aldarinnar. Hinn öra hagvöxt sem varð á Íslandi á 20. öldinni má að verulegu leyti rekja til nýtingar þjóðarinnar á náttúrulegum auðlindum sínum, bæði gjöfulla fiskimiða og náttúrulegra endurnýjanlegra orkulinda. Hraðfara tækniþróun og öflug þekking á eðli þessara auðlinda er vitaskuld forsenda fyrir hagkvæmri nýtingu auðlindanna og þeirra framfara sem hér hafa orðið, og á því sviði hefur okkur tekist vel til. Beislun orkulindanna hefur átt drjúgan þátt í að bæta bein lífsgæði okkar og mun fyrirsjáanlega verða einn af hornsteinum aukins hagvaxtar hér á landi á nýrri öld.

    Eftir tveggja áratuga tímabil rafvæðingar landsins á árunum 1945-1965 fylgdi í kjölfarið stórhuga uppbygging í raforkubúskap þjóðarinnar með gerð stórvirkjana á Suðurlandi og fyrstu stóriðju hér á landi. Í framhaldinu fylgdi nýtt framfaraspor stigið með byggingu byggðalínu milli einstakra orkuveitusvæða á árunum 1974-1984, sem hefur stuðlað að hagkvæmni í rekstri raforkukerfisins, jafnað aðgengi landsmanna að flutningskerfinu og loks stuðlað að jöfnun raforkuverðs um allt land.

    Minni aukning varð þó á nýtingu orkulindanna á níunda og tíunda áratugnum en menn höfðu vænst. Árið 1997 hófst nýtt uppbyggingarskeið stóriðju hér á landi eftir tæpra tveggja áratuga hlé. Það ár var tekin í notkun stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík og ári seinna hóf Norðurál framleiðslu. Árið 1999 hófst síðan framleiðsla í þriðja ofni járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og nú standa yfir framkvæmdir við stækkun Norðuráls. Þetta hefur haft í för með sér mikla aukningu í raforkuvinnslu enda hefur notkun stóriðju aukist um 90% síðustu fjögur ár. Þessi aukning er álíka mikil og öll raforkuvinnsla var fyrir almenna notkun árið 1996, sem segir okkur margt um hinn öra vöxt í raforkuframleiðslunni.

    Á árunum 1973-1986 var lyft grettistaki í uppbyggingu hitaveitna um land allt til að mæta hinu háa olíuverði sem var viðvarandi á þeim tíma. Hin mikla uppbygging flutningslína, orkuvera og hitaveitna hefur góðu heilli leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna á síðustu áratugum hefur nánast horfið. Á árinu 1970 bjó um helmingur þjóðarinnar við húshitun frá jarðvarma. Í dag njóta um 86% landsmanna hitunar frá jarðvarma, um 12% frá rafhitun en aðeins um 2% nota olíuhitun. Stjórnvöld telja að enn megi gera betur með aukinni og bættri tækni og hefur frá árinu 1998 verið unnið markvisst að jarðhitaleit á svokölluðum köldum svæðum. Þetta átak hefur þegar leitt til þess að ný byggðarlög hafa tengst hitaveitum þar sem áður var talið að ekki væri heitt vatn að finna. Þessar tölur sýna að með því að nýta okkur í auknum mæli hina hreinu orkuauðlegð landsins höfum við Íslendingar verið á undan flestum í þeirri viðleitni þjóða heims á síðustu áratugum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
    Við eigum enn ótalda möguleika á nýtingu þessarar auðlindar. Umfangsmiklar rannsóknir eru nú hafnar á nýtingu hveraörvera og iðnaðarráðuneytið hefur veitt tveimur fyrirtækjum leyfi til rannsókna og hagnýtingar á hveraörverum og erfðaefnum þeirra á allt að 30 afmörkuðum svæðum. Fyrir örfáum árum hvarflaði varla að nokkrum manni hér á landi að í örveiruflóru hveravatnsins væri að finna mikilvæga auðlind fyrir líftækniiðnaðinn, sem miklar vonir eru bundnar við í dag.

    Á árinu 1999 var í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum hafin vinna við gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

    Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Stór hópur sérfræðinga hefur komið hér að verki og hefur vinnu við það miðað eðlilega hingað til. Þó ber þess að geta að á síðasta ári var tekin sú ákvörðun að hraða vinnu við hluta fyrsta áfanga verkefnisins þannig að í árslok 2001 lægju fyrir fyrstu drög að flokkun nokkurra virkjunarkosta. Hins vegar á fyrsta hluta verkefnisins að ljúka á árinu 2002.

    Hér er um gríðarlega stórt og þýðingarmikið verkefni að ræða. Ráðist hefur verið í viðamiklar grunnrannsóknir á hugsanlegum virkjunarsvæðum og ljóst er að verkefnið mun bæði auka þekkingu okkar á náttúrufari landsins og auka skilning okkar á þessu sviði. Ég vona svo sannarlega að með þeirri vinnu skapist aukin sátt um nýtingu þessara auðlinda sem í senn tryggi að við getum áfram nýtt orkulindirnar til að efla atvinnulíf og styrkja byggð í landinu án þess að ganga óhóflega á náttúrulegt umhverfi eða aðra landnýtingu.

    Eins og flestum er kunnugt hefur um ríflega tveggja ára skeið staðið yfir vinna við gerð sérstaks raforkulagafrumvarps. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Samhliða frumvarpinu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði sem nauðsynlegar eru vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpi til raforkulaga. Markmið með nýjum raforkulögum hlýtur að vera að auka þjóðhagslega hagkvæmni í nýtingu orkulindanna, og stuðla að öflugra atvinnulífi og styrkingu byggðar í landinu um leið og tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða og landnytja. Ein meginbreyting í drögum að nýjum raforkulögum verður sú að samkeppnisþættir í starfsemi orkufyrirtækjanna, þ.e. vinnsla og sala verður aðgreind frá starfsemi sem nýtur einkaréttar, þ.e. flutnings og dreifingar.

    Jafnframt þarf að tryggja hag notenda, bæði hvað varðar frjálsræði og samkeppni í kaupum á raforku og aukið eftirlit með gæðum framleiðslunnar og verðlagningu í flutningi og dreifingu raforkunnar. Þar er um veruleg nýmæli að ræða. En við verðum einnig að hafa það í huga, að íslenska raforkukerfið er lítið og ótengt öðrum kerfum, sem torveldar samkeppni og henni verður ekki komið á í einni svipan. Loks ber að nefna að lögin þurfa að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar, einkum Evrópusambandsins, sem við höfum gengist undir. Þær fela í sér að lögin taki gildi eigi síðar en 1. júlí 2002, en þá rennur út frestur EES-landanna til að taka upp ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um raforkumál. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi og verður það væntanlega afgreitt á næsta þingi.

    Með nýjum raforkulögum er nauðsynlegt að gera breytingar á öðrum lögum er tengjast raforkuframleiðslu. Gera þarf breytingar á orkulögum, lögum um raforkuver, lögum um Landsvirkjun og lögum um rannsóknir á auðlindum í jörðu, en áformað er að þau lög muni fjalla almennt um rannsóknir á orkulindum. Vinna er jafnframt hafin við endurskoðun vatnalaganna frá 1923, og tímabært var orðið að endurskoða.

    Þá er rétt að skýra frá því að ég hef ákveðið að vinna við gerð lagafrumvarps um hitaveitur hefjist innan skamms. Verður sú vinna unnin á vegum iðnaðarráðuneytisins. Er að því stefnt að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á haustdögum og afgreitt fyrir árslok eða á sama tíma og frumvarp til raforkulaga.

    Með frumvarpi til rafaorkulaga verður stjórnsýsluhlutverk Orkustofnunar aukið verulega bæði hvað varðar umsagnarhlutverk og leyfisveitingar frá því sem verið hefur. Möguleiki verður á að færa valdsvið ráðuneytis til leyfisveitinga til stofnunarinnar eins og almennt gerist hjá nágrannaþjóðum okkar. Einnig verður breyting með frumvarpinu á eftirlitshlutverki stofnunarinnar þar eð hún mun annast eftirlit með þáttum er lúta að einokunarstarfsemi, þ.e.a.s. flutningi og dreifingu og þá einkum og sér í lagi gjaldskrármálum. Þá er einnig áfram gert ráð fyrir aukinni eftirlitsvinnu stofnunarinnar vegna starfsemi virkjana.

    Með þeim breytingum sem í frumvarpinu felast virðist ljóst að skerpa þurfi skil á milli stjórnsýslu og samkeppnisþátta Orkustofnunar og væntanlega þarf að skilja á milli þessara þátta er tímar líða fram. Ef til vill er tími til kominn einmitt nú í hinu breytta umhverfi raforkumála.
    Samkeppnisstarfsemi stofnunarinnar hefur blómstrað undanfarin ár, enda hefur verið uppgangur í orkustarfseminni, eins og ég hef getið um, og um 70% tekna eru fengin frá starfandi orkufyrirtækjum. Mikilvægt er þó að benda á að aukin starfsemi annarra ráðgjafa á ýmsum samkeppnissviðum hefur einnig vaxið og dafnað samtímis og er það vel. Hins vegar er augljóst að góðar stjórnsýslu- og vísindastofnanir eins og Orkustofnun verða að bregðast við breyttum tímum rétt eins og raforkufyrirtækin um eðlilegan aðskilnað í starfsemi sinni.

    Komi til fullkomins aðskilnaðar núverandi orkumálasviðs og rannsóknarsviðs væri að mínu áliti farsælast að rannsóknarhluti og vatnamælingar Orkustofnunar yrðu áfram til að byrja með ein sjálfstæð stofnun, enda ekki óskyldar, og fengju áfram fjármuni frá ríkinu til að sinna eðlilegum verkefnum eins og verið hefur. Hitt er annað og meira mál að hve miklu leyti ríkinu ber að sinna orkurannsóknum almennt með breyttum raforkulögum. Hugsanlegt væri að miða við þann grunn rannsókna, sem nú er unnið að á vegum Rammaáætlunar sem eðlileg mörk rannsókna, sem ríkið myndi annast. Það er augljóst að ríkið þarf að skilgreina hlutverk sitt að nýju og þá í samstarfi við orkufyrirtækin. Þar verður unnt að leggja til grundvallar vinnu sérstakrar samstarfsnefndar um orkurannsóknaráætlun sem skilaði ítarlegri skýrslu um þetta efni fyrir rúmum tveimur árum. Í þessu sambandi verður fróðlegt að hlýða á erindi Ians Thains frá Nýja-Sjálandi, en hann mun m.a. fjalla um breytingar á orkurannsóknum í breyttu umhverfi raforkumála þar í landi.

    Á undanförnum árum hefur þróun tækni við að nota vetni sem orkubera aukist hratt. Þar höfum við Íslendingar komið nokkuð við sögu. Fyrirtækið Íslensk NýOrka var stofnað á árinu 1999 og er tilgangur félagsins m.a. að rannsaka og þróa vetnistækni til notkunar í samgöngutækjum. Félagið hefur nýlega formlega hafið rannsóknarverkefni á notkun vetnis í almenningsfarartækjum ásamt fleiri aðilum, og hefur ríkisstjórnin samþykkt að leggja 80 milljónir króna til verkefnisins á næstu þremur árum, að því gefnu að mótframlag fengist frá erlendum styrktaraðilum. Félagið hefur einnig í hyggju að rannsaka notkun vetnis í samgöngum á sjó.

    Enn er langt í land að úr því fáist skorið hvort eða hvenær hagkvæmt verði fyrir íslenskt samfélag að nota vetni eða annað tilbúið eldsneyti til að knýja samgöngutæki okkar og fiskveiðiflota. Hitt er afar mikilvægt að Íslendingar taki þátt í þeirri öru þróun í notkun hreinna orkugjafa og orkubera í stað notkunar brennsluefna í samgöngutækjum og fiskiskipum, þátttaka okkar mun beina sjónum annarra ríkja að hinni hreinu ímynd Íslands í vaxandi mæli. Við þurfum að hafa í huga að 3/4 af innfluttu eldsneyti fer til samgangna og skipaflotans og losun gróðurhúsalofttegunda af þessum sökum er í dag um 2/3 af heildarlosun landsins. Takist okkur að nýta hreinar orkulindir þjóðarinnar á hagkvæman hátt til að framleiða með einum eða öðrum hætti orkubera í stað olíueldsneytis yrði staða Íslands meðal þjóða heims einstök.
    Vegna þess hve mjög við erum háð samgöngum og fiskveiðum er örðugt um vik með að draga verulega úr losun koltvísýrings á þessum sviðum. Ég hef því nýlega ákveðið að tillögu orkumálastjóra og í samráði við umhverfisráðuneyti og samgönguráðuneyti að koma á fót starfshópi þessara ráðuneyta og undirstofnana þeirra til að vinna að heildstæðri úttekt á orkmálum samgangna hér á landi. Megintilgangur slíkrar úttektar er sá að gefa stjórnvöldum orkumála, samgangna og umhverfismála yfirsýn yfir stöðu og framvindu þessara mála í náinni framtíð, hvenær og þá hvernig þurfi að huga að kerfisbreytingu á orkugjöfum samgöngutækja, eins og t.d. notkun vetnis í stað olíu. Eðlilegt er að vinna að þessari úttekt í áföngum og er að því stefnt að í upphafi verði sjónum beint að orkunotkun bílaflotans, en síðar verði fjallað um orkunotkun skipaflotans og kæmu þá fulltrúar sjávarútvegsins inn í þennan starfshóp.

    Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunin við samninginn hefur verið til umræðu hér á landi sem annars staðar um langt skeið. Samningurinn er vissulega einn af meginþáttum í orkustefnu allra iðnríkja, en þar eru Íslendingar í annarri stöðu en flest önnur iðnríki. Við notum endurnýjanlegar orkulindir til að mæta orkuþörf landsins allt að 70% og eigum mikið af endurnýjanlegum orkulindum sem hafa aðeins að hluta til verið nýttar. Á 6. samningafundi aðildarrikja Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál á síðastliðnu ári náðist bráðabirgðasamkomulag aðildarríkjanna um hið svokallaða íslenska ákvæði er varðaði nýtingu endurnýjanlegra og hreinna orkulinda til iðnaðarframleiðslu. Við eigum hins vegar eftir að sjá þetta sérákvæði endanlega samþykkt, sem verður væntanlega í júlí á þessu ári á fundi aðildarríkjanna í Bonn. Gangi þetta eftir er bjart framundan næsta áratuginn varðandi aukna möguleika á nýtingu orkulinda okkar.

    Ég vil í lokin þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa þennan fyrsta ársfund Orkustofnunar á nýrri öld, sem svo sannanlega kallar á störf ykkar starfsmanna við auknar orkurannsóknir, landi og þjóð til heilla um langa framtíð.

    Ég þakka áheyrnina.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum