Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. maí 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp við lagningu hornsteins að Vatnsfellsvirkjun, 25.05.2001

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp við lagningu hornsteins að Vatnsfellsvirkjun
25. maí 2001.


Forseti Íslands, ágætu gestir.

Sú öld er nýlega hefur kvatt færði okkur Íslendinga til nútímans, ótrúlegar framfarir og umskipti urðu á högum þjóðarinnar og trúlega meiri en á öllu fyrra lífsskeiði hennar. Í upphafi aldarinnar var vatnsaflið og jarðvarminn svo til alveg ónýtt auðlind, en framsýnir menn horfðu til þessarar náttúruauðlindar sem undirstöðu hagsældar og bættra kjara þjóðarinnar. Við upphaf aldarinnar ortu höfuðskáldin ögrandi hvatningarljóð til komandi kynslóða sem lifðu lengi á vörum þjóðarinnar. Þannig orti Hannes Hafstein í aldamótaljóði sínu:

Dagur er risinn, öld af öld er borin
aldarsól ný er send að skapa vorin.
Árdegið kallar, áfram liggja sporin.
      Enn er ei vorri framtíð stakkur skorinn.

Þessi vorsýn skáldsins rættist, framfarir voru stórstígar allt fram að fyrri heimsstyrjöld og þjóðin fylltist bjartsýni. Á þessum árum hófust hinar fyrstu virkjunarrannsóknir og áætlanir á vatnasviði Þjórsár-Tungnaár á árunum 1915-1918, sem að mestu leyti voru unnar á vegum Titan-félagsins. Þar kemur óhjákvæmilega mikið við sögu annað stórskáld, Einar Benediktsson á fyrstu tveimur áratugum aldarinnar og markaði djúp spor í alla umræðu um nýtingu vatnsafls landsins sem og önnur þjóðþrifamál. Hann hafði sem sýslumaður Rangæinga gert sér grein fyrir orkuauðlindum héraðsins og hann keypti fyrir Titanfélagið á árunum 1914-1917 nánast öll vatnsréttindi í Þjórsá og Tungnaá með fulltingi og stuðningi héraðshöfðingjanna beggja megin ár, þeirra Eyjólfs "landshöfðingja" í Hvammi og Gests Einarssonar á Hæli. Á þeim árum töldu bændur það happafeng að geta selt virkjunarrétt sinn og varð það mörgum hér um slóðir gifturíkt. Þannig stofnuðu Gnúpverjar sameiginlegan sjóð fyrir allt það fé er þeir fengu vegna sölu fallréttinda og vörðu þeim sjóði til að reisa Ásaskóla, fyrsta heimavistarbarnaskóla í sveit hér á landi og að auki var hlutverk sjóðsins að styrkja efnilega námsmenn sveitarinnar. Hafa þar margir notið góðs af og er vert að hugleiða það nú í dag að fyrir tæpri öld sáu menn til hvaða málefna skynsamlegast væri að verja þessu mikla fjármagni í févana sveit.

Því miður varð ekkert af nýtingu orkulinda okkar á þessum tíma, en sá tími rann síðar upp. Það er alltaf skemmtilegt til þess að hugsa hvernig íslenskt samfélag gæti litið út í dag ef sóknarfæri fyrstu áratuga aldarinnar hefðu verið nýtt á þessu sviði eins og t.d. raunin varð á í Noregi. Á hitt ber að líta og skilja að á þessum árum var þjóðin fámenn og fátæk og óttaðist skjótar umbreytingar og í ljósi sögunnar ber okkur fremur að fagna hinni gifturíku þróun, sem orðið hefur í hagnýtingu orkulinda landsins á síðustu fjórum áratugum.
Fyrir aðeins rúmum þremur áratugum höfðu örfáir Íslendingar barið það land augum er við stöndum nú á. Þetta landsvæði voru öræfi Íslands og miklir farartálmar hömluðu för manna hingað, aðeins mestu ferðagarpar og fjallmenn að haustlagi lögðu leið sína hér um slóðir.

Það var á grundvelli réttinda Titan-félagsins að nýtt líf kviknar í Þjórsárdal eftir 1965 og um 1970 var Tungnaá brúuð við Sigöldu og uppbyggðir vegir reistir inn fyrir Þórisvatn. Dögum saman sáu hinir nýju landnemar þessa svæðis vart handa sinna skil fyrir sand- og gjóskufoki, en með samstilltu átaki Landsvirkjunar og Landgræðslunnar og fleiri aðila hefur tekist að koma í veg fyrir uppblástur og fok með uppgræðslu og aðhlynningu gróðurs. Þetta má glögglega sjá á víðáttumiklum svæðum austan og vestan Þjórsár á leið okkar hingað. Það er alkunna að fok og rof frá hinum gjóskuríku gosum Heklu hafa áratugum saman komið í veg fyrir sjálfbæra gróðurmyndun í nágrenni eldfjallsins. Þessara staðreynda er okkur mikilvægt að minnast nú á þeim tímum þegar talað er um að náttúran eigi að fá að þróast án atbeina mannsins, sem þó telst vera hluti náttúrunnar. Hér á þessu svæði, í ögrandi nálægð eyðileggingarafla náttúrunnar, eru þau sannindi svo augljós að á okkar viðkvæma landi ber manninum að lifa með náttúrunni eins og hið nýja landnám mannlífs og gróðurs hér um slóðir ber vitni um.

Mörgum okkar sem ólumst upp úti á landsbyggðinni eftir miðja öldina er í fersku minni þau gífurlegu umskipti er urðu hjá fólki þegar fyrstu raflínur voru reistar með rafvæðingu sveita og dreifbýlis. Fyrrir okkur flest er þá vorum börn var þetta breyting en fyrir eldri kynslóðir, sem lifað höfðu myrkur og harðindi á sínum yngri árum má vissulega segja að bylting hafi orðið þegar í híbýli manna kom ljós og hiti í stað myrkurs, kulda og raka fyrri ára og alda.

Í kjölfarið fylgdi stórhuga uppbygging í raforkubúskap þjóðarinnar með gerð stórvirkjana á Suðurlandi og fyrstu stóriðju hér á landi. Í framhaldinu fylgdi nýtt framfaraspor stigið með byggingu byggðalínu milli einstakra orkuveitusvæða á árunum 1974-1984, sem hefur stuðlað að hagkvæmni í rekstri raforkukerfisins, jafnað aðgengi landsmanna að flutningskerfinu og loks stuðlað að jöfnun raforkuverðs um allt land. Á þessu sviði vorum við að sumu leyti framar mörgum þjóðum í Evrópu, sem nú á síðustu árum hafa unnið við að tengja saman orkuveitusvæði sín. Telja má að vel hafi tekist til um uppbyggingu raforkukerfisins, þrátt fyrir stærð landsins og erfiðar aðstæður víða um land. Okkur hefur á þremur áratugum tekist að byggja upp traust raforkukerfi, sem er að gæðum sambærilegt kerfum nágrannaþjóða okkar.

Aukin nýting jarðhitans hefur ekki haft lítil áhrif á lífskjör okkar Íslendinga. Sparnaður við að nýta jarðhita til húshitunar miðað við að flytja inn olíu í þeim tilgangi, nemur í dag milljörðum króna á ári, auk hagnaðar við raforkuframleiðslu, iðnaðarframleiðslu, ylrækt og margháttaðra þæginda, sem þessi gæði landsins hafa veitt okkur og eru ómetanleg. Við sjáum fram á margháttaða aukna nýtingu þessara auðæva okkar. Um nokkurra ára skeið höfum við verið í fararbroddi þjóða er unnið hafa að mótun stefnu og rannsóknum á sviði notkunar vetnis sem eldsneytis framtíðarinnar. Við höfum horft til framtíðar og beint sjónum að þeim möguleika að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir til vetnisframleiðslu á nýrri öld. Á þessu sviði höfum við Íslendingar nýlega hlotið heimsathygli með verðlaunum alheimssamtaka í umhverfismálum vegna stefnu ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu vetnissamfélags á Íslandi og nýtingar á hreinum orkulindum. Mörg ríki heims hafa óskað eftir samstarfi við Íslendinga á sviði jarðhita og aukinnar orkunýtingar og ber þar helst að nefna notkun vetnis sem orkubera í samgöngum.

Svo vitnað sé aftur í aldarmótakvæði Hannesar Hafstein sér hann fyrir sér þá þróun er við nú, öld síðar, berum vonandi gæfu til að sjá verða að veruleika:
Sé ég í anda knörr og vagna knúða
krafti, sem vannst úr fossa þinna skrúða

Við Íslendingar höfum á síðustu áratugum notið mikillar velmegunar. Á slíkum tímum hættir mönnum til að trúa því að ekkert þurfi fyrir slíku ástandi að hafa, en reynslan hefur kennt okkur annað. Velferð þjóðarinnar á þessum árum hefur í verulegum mæli verið fólgin í skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda landsins, nýtingu sjávarfangs og orkulindanna til atvinnuuppbyggingar sem hefur verið einn megingrundvöllur bættra lífskjara. Á aðeins síðustu 5 árum hefur raforkuframleiðsla aukist um 55% og nú er svo komið að raforkuframleiðsla á mann hér á landi er orðin sú mesta í heiminum og mun fyrirsjáanlega enn aukast á næstunni. Hið vandaða raforkukerfi okkar skapar nauðsynlegt umhverfi fyrir alla atvinnustarfsemi sem krefst stöðugleika og gæða raforkunnar.

Við þurfum í framtíðinni að byggja á öllum möguleikum sem þjóðin hefur yfir að ráða til að skapa henni bjarta framtíð.

Herra forseti og góðir gestir!

Ég óska Landsvirkjun og þjóðinni allri til hamingju með enn einn nýjan bautastein á langri vegferð þjóðarinnar til aukinnar hagsældar og hamingju í framtíðinni.







Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum