Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. júní 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Grein - Gildistaka nýrra laga um lausafjárkaup og laga um þjónustukaup, Mbl. 01.06.2001

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar-og viðskiptaráðherra


Gildistaka nýrra laga um lausafjárkaup
og laga um þjónustukaup.


Með grein þessari vil ég vekja athygli á því að í dag 1. júní 2001 taka tveir lagabálkar gildi sem fela í sér mikilsverða réttarbót. Um er að ræða lög nr. 50/2000 um lausafjárkaup og lög nr. 42/2000 um þjónustukaup. Nýju lögin um lausafjárkaup leysa af hólmi eldri lög frá 1922 en hér á landi hafa ekki verið í gildi sérstök lög um þjónustukaup.

Á undanförnum árum hefur verið lögð mikil áhersla á aukna vernd fyrir neytendur á öllum sviðum og hefur umfang neytendaverndar vaxið ört hér á landi. Meðal nýlegra laga er lúta að neytendavernd má nefna lög um vernd neytenda gegn villandi auglýsingum, lög um húsgöngu- og fjarsölu, lög um neytendalán og lög um alferðir. Auk þess má nefna að ákvæðum samningalaganna hefur verið breytt í því skyni að styrkja réttarstöðu neytenda gagnvart óréttmætum samningsskilmálum í viðskiptum. Með þeim lögum sem taka gildi í dag eru frekari skref tekin til að auka vernd neytenda.

Nútímaviðskiptahættir
Lög um lausafjárkaup leysa eins og áður segir lög af hólmi sem hafa verið í gildi síðan 1922. Þau hafa fimm meginmarkmið að leiðarljósi. Í fyrsta lagi er með lögunum verið að aðlaga íslenska viðskiptalöggjöf að nútíma viðskiptaháttum og þjóðfélagsumgjörð, í öðru lagi er lögunum ætlað að efla réttarstöðu neytenda sem er nú orðin sambærileg að lögum og tíðkast í nágrannaríkjum okkar, í þriðja lagi að efla norræna réttareiningu og í fjórða lagi að leiða í lög hér á landi efnisákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um sölu á vöru milli ríkja frá 1980 (United Nations Convention for the International Sale of Goods (CISG). Með norrænni og fjölþjóðlegri réttareiningu geta þeir sem viðskipti stunda fremur reitt sig á að svipaðar reglur gildi um sömu réttaratriðin. Í fimmta lagi var við undirbúning laganna litið til tilskipunar 99/44/EB um tilteknar hliðar á sölu vöru til neytenda og ábyrgðaryfirlýsingar í því sambandi.

Nýju lögin hafa að geyma fyllri reglur um lausafjárkaup en gilt hafa til þessa. Er lögunum ætlað að vera tæmandi um skyldur aðila í réttarsambandi kaupanda og seljanda lausafjár. Reglur laganna eru frávíkjanlegar líkt og reglur eldri laga. Það á þó ekki við í neytendakaupum en í slíkum kaupum er óheimilt að víkja frá lögunum neytendum í óhag. Ekki var sérstaklega fjallað um neytendakaup í eldri lögum. Ýmis önnur nýmæli er að finna í lögunum. Ólíkt eldri lögum taka þau bæði til aðal- og aukaskyldna kaupenda og seljenda lausafjármuna, nokkuð breyttar reglur munu gilda um vanefndaúrræði vegna galla eða greiðsludráttar og ákvæði um vanheimildir seljenda eru fyllri en í eldri lögum. Þá má nefna að í lögunum er að finna reglur um kröfu á hendur fyrri söluaðila, sem kaupandi hefur ekki átt viðskipti við. Loks ber að geta þess að lögin ná til alþjóðlegra kaupa.

Aukin vernd vegna kaupa á þjónustu
Lögin um þjónustukaup eru eins og áður segir nýmæli. Markmið laganna er að auka verulega vernd neytenda þegar þeir kaupa þjónustu sem felur í sér að vinna er innt af hendi við lausafjármuni. Lögin taka því til hvers konar viðgerðarþjónustu og annarra þjónustuverkefna sem tengjast fasteignum, s.s. viðhaldi þeirra. Með aukinni hagsæld hefur hlutur þjónustu í einkaneyslu landsmanna sífellt farið vaxandi og útgjöld heimila til þessara þátta hafa einnig aukist. Mikilvægt er því að í lögum sé kveðið á um réttindi og skyldur aðila að slíkum samningum, s.s. hvenær telst verk gallað sem seljandi þjónustu hefur innt af hendi og hvaða úrræði standa neytendum til boða ef seljandi vanefnir samning sinn um viðgerð, o.þ.h.

Kærunefnd og kynning
Af þeim nýmælum í umræddum lagabálkum sem snerta neytendur vil ég vekja sérstaklega athygli á kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa sem mun starfa út árið 2005. Unnt er að leita álits hennar vegna ágreinings milli kaupanda og seljanda í lausafjár- og þjónustukaupum deiluaðilum að kostnaðarlausu. Kærunefndin mun hafa aðsetur í viðskiptaráðuneytinu og skal því beina erindum til hennar þangað.

Mikilvægt er að neytendur og seljendur vöru og þjónustu þekki gildandi reglur um þau viðskipti sem þeir eiga. Til að kynna frumvarpið mun viðskiptaráðuneytið m.a. í haust standa fyrir ráðstefnu sem fjallar sérstaklega um hina nýju löggjöf. Ennfremur mun á næstunni koma út á vegum viðskiptaráðuneytisins bæklingur til kynningar á efni laganna.

Lög um lausafjárkaup og lög um þjónustukaup setja reglur um viðskipti sem flestir eiga daglega. Ég hvet því bæði neytendur og seljendur vöru og þjónustu til að kynna sér vel efni þessara laga.


Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 1. júní 2001.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum