Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. ágúst 2001 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á Heimsmeistaramóti í hestaíþróttum í Austurríki 19. ágúst 2001.

Ávarp Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
á Heimsmeistaramóti í hestaíþróttum
í Austurríki 19. ágúst 2001



Ágætu heimsmeistaramótsgestir allra þjóða.

Það er íslenskum landbúnaðarráðherra sérstök gleði að fá að upplifa atburð eins og heimsmeistaramót íslenska hestsins, atburð sem dregur til sín þúsundir gesta af ólíku þjóðerni, atburð sem ég veit að tugþúsundir fylgjast með úr fjarlægð og eiga þá ósk heitasta að vera með okkur hér á þessu móti.

Sem landbúnaðarráðherra er ég stoltur af íslenska hestinum. Ég er stoltur af því fólki, sem með innsæi og alúð hefur ræktað hann og alið. Ég er stoltur af því fólki sem með þrautseigju og þori hefur borið hann um heiminn og ég er stoltur af þeim vinum okkar í hinum ýmsu löndum sem nú bera hann á höndum sér, njóta hans og nýta. En stoltastur er ég þó af hestinum sjálfum, þessu ævintýri sem lifað hefur með þjóðinni alla tíð og mun gera áfram.

Samofinn menningu og sögu þjóðarinnar hefur hesturinn ávallt skipað veglegan sess hjá Íslendingum. Það lesum við í Íslendingasögunum, það lesum við úr ljóðum skáldanna og munnmælin og sögurnar ganga kynslóða á milli. Meitluð frásagnarlist og stórkostlegur skáldskapur hafa hjálpað til við að gera hestinn að "þarfasta þjóninum", "besta vininum" , ómetanlegum hverjum sem honum kynnist.

Þegar ég kem á hátíð eins og heimsmeistaramót íslenska hestsins og sé hversu vel er að öllu staðið og hversir margir hylla hestinn á sigurstundu, þá veit ég að hesturinn á ekki aðeins glæsta framtíð á Íslandi heldur í heiminum öllum. Öll þau hjörtu sem hér slá í takt við hófaslög gæðinganna sannfæra mig um að saman munum við bera merki hans um um ókomin ár.

Ég vil við þetta tækifæri færa Austurríkismönnum bestu kveðjur og þakklæti frá íslensku þjóðinni. Dvölin hér er ánægjuleg og ekkert hefur verið til sparað til að gera hátíðina sem glæsilegasta.

Við erum öll sammála um að íslenski hesturinn er eitt allsherjar ævintýri, ævintýri sem við viljum öll upplifa og trúum að hafi engan endi.

Ég vil í lokin segja, að þó við hyllum hér í dag marga sigurvegara sem uppskera laun erfiðisins, þá er í raun aðeins einn sigurvegari krýndur. Sá hefur ekki aðeins unnið sigra á keppnisvellinum, heldur fyrst og síðast hug okkar og hjörtu. Sá sigurvegari er íslenski hesturinn.

Um leið og ég færi ykkur öllum þakkir fyrir frábært mót, leyfi ég mér að vona að við hittumst öll á Landsmóti hestamanna, sem haldið verður á Vindheimamelum í Skagafirði sumarið 2002.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum