Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. nóvember 2001 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ræða flutt við opnun sýningar Listasafns Íslands í Bandaríkjunum í október 2001.

GUÐNI ÁGÚSTSSON Corcoran Gallery of Art
landbúnaðarráðherra Confronting Nature: Icelandic Art of the 20th Century


Virðulegu gestgjafar
Ágætu gestir
Dömur mínar og herrar:

Þessi myndlistarsýning sem haldin er á vegum hins víðfræga Corcoran listasafns í höfuðborg Bandaríkjanna er hin merkasta sinnar tegundar sem nokkru sinni hefur verið helguð íslenskri myndlist í Bandaríkjunum. Við erum því hér vitni að merkum menningarviðburði sem okkur þykir vænt um að mega deila með bandarískum listunnendum.

Mér er það mikill heiður að vera fulltrúi íslensku ríkisstjórnarinnar við opnun þessarar sýningar. Hinn rauði þráður þessarar sýningar er íslenskt landslag – íslensk náttúra, séð með augum íslenskra myndlistarmanna á tuttugustu öld.

Einhverjum kann ef til vill að bregða í brún við að landbúnaðarráðherra – fremur en ráðherra menntamála – er fulltrúi ríkisstjórnarinnar af þessu tilefni. En við nánari umhugsun er það svo að allt sem tengist náttúrunni og landslaginu fellur undir valdsvið landbúnaðarráðherra – þar með talin þau listrænu hughrif sem hin stórbrotna íslenska náttúra vekur með þeim sem hennar njóta.

Upphaflega var áformað að þessi sýning væri hluti hinna miklu hátíðahalda sem Landafundanefnd efndi til í Norður-Ameríku á árinu 2000. Þau hátíðahöld voru sett á svið til að minna á og fagna því að 1000 ár voru liðin frá því að hinn íslenski sæfari og landkönnuður, Leifur Eiríksson, nam land í Norður-Ameríku, fyrstur Evrópumanna.

Á árinu 2000 efndi önnur víðfræg menningarstofnun í þessari borg, Smithsonian-safnið, til sýningar sem sagði þá sögu í máli og myndum: Víkingar – sókn þeirra yfir Norður-Atlantshafið. Og afkomandi Leifs Eiríkssonar í 33. kynslóð, íslenskur skipasmiður og sæfari, byggði og sigldi eftirlíkingu af skipi Leifs 4000 sjómílna leið í kjölfar hins fræga sæfara, forföður síns. Þetta var ævintýri sem hreyfði við hugarflugi margra Bandaríkjamanna, sem upplifðu ævintýrið af sjónvarpsmyndum og frásögnum fjölmiðla.

Þau eru mörg, sem lagt hafa gjörva hönd á plóg við undirbúning þessarar sýningar – fyrir utan listamennina sjálfa. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka sérstaklega forstöðumanni Corcoran listasafnsins, hr. David C. Levy, og safnstjóranum, Jaqueline Days Serwer fyrir gestrisni þeirra og samstarfsvilja sem og þeirra starfsliði öllu. Sérstakar þakkir flyt ég frú Martica Sawin, sem var sérstakur ráðgjafi Corcoran-safnsins við undirbúning sýningarinnar og skrifar auk þess af óvenjulegu innsæi um íslenska myndlist í sýningarskrá. Þá vil ég nota tækifærið og þakka dr. Ólafi Kvaran, safnstjóra Listasafns Íslands, og samstarfsfólki hans fyrir þeirra framlag.

Draumurinn um svo veglega sýningu í þessum glæstu húsakynnum hefði ekki ræst nema fyrir rausnarlegan fjárhagsstuðning Landafundanefndar. Einar Benediktsson, sendiherra og framkvæmdastjóri Landafundanefndar á einnig þakkir skildar fyrir frumkvæði sitt að þessu máli. Aðrir sem lagt hafa sýningunni lið með fjárframlögum og öðrum stuðningi eiga einnig þakkir skildar. Þeirra á meðal Eimskipafélag Íslands, "Iceland Naturally – hópurinn", sem er samtök íslenskra fyrirtækja á Bandaríkjamarkaði og Flugleiðir.

Dömur mínar og herrar:

Martica Sawin kemst vel að orði í ritgerð sinni í sýningarskrá þar sem hún lýsir samspili landslags og listar með eftirfarandi orðum:
"Allt frá aldamótaárinu 1900, þegar Þórarinn B. Þorláksson efndi til fyrstu myndlistarsýningarinnar í Reykjavík, hafa íslenskir listamenn verið í kallfæri við evrópska og síðar bandaríska listsköpun, þótt verk þeirra hafi alla tíð endurspeglað lífsreynslu, sem er þeirra einna. Nefnilega að byggja yngsta land jarðarkringlunnar í jarðfræðilegum skilningi, land sem er í sífelldri sköpun. Það er táknrænt að eyjan hvíta spannar jarðsprungu sem aðskilur meginlönd Evrópu og Ameríku og að hraunið, sem rutt hefur sér farveg upp um jarðsprunguna, myndar landið sjálft. Af þessum sjónarhól líta Íslendingar til beggja átta, í austur og vestur, til gamla heimsins þaðan sem þeir eru upprunnir og til nýja heimsins, sem áræðnir sæfarar eyþjóðarinnar fundu, fyrstir Evrópumanna."

Dömur mínar og herrar:

Þökk sé Corcoran-safninu fyrir að gefa ykkur kost á að njóta þessarar heillandi veraldar landslags og listar hins fjarlæga eylands í norðri.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum