Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. mars 2002 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Setningarávarp á Búnaðarþingi 2002


Þorrinn er liðinn og góan hefur heilsað. Hún getur verið grimm en fagrir eru dagar hennar. Það styttist í vormánuði með blíðari tíð, okkur sveitamennina og náttúrubörn þessa lands fer að dreyma um komu vorsins, eins og skáldið Guðmundur Böðvarsson kvað:

Í nótt urðu allar grundir grænar í dalnum,
því gróðursins drottinn
kom sunnan af hafi og hafði um langvegu sótt.
Og fljótið strauk boganum blítt yfir fiðlustrenginn
og bláar dúnmjúkar skúrir liðu yfir engin
í nótt.


Náttúran verður seint beisluð og hún mun ávallt ráða miklu um afkomuna. Undanfarin ár hafa verið góð hvað þetta varðar. Heyfengur mikill og góður, kornuppskera með því mesta og besta. Það eykur bjartsýni og blæs þrótti í menn. Ytri skilyrðin hafa verið erfiðari. Verðbólgan fæst illa bætt í afurðaverði. Harðari samkeppni við sölu afurða hefur dregið úr tekjum. Óskýr staða og að hluti glundroði hjá sláturhúsum veldur óvissu og tekjutapi. Öllu þessu verða bændur að mæta með einbeittri samstöðu og sigurvilja en til viðbótar þá vissu að þjóðin stendur með þeim og henni finnst vænt um sinn landbúnað.

Fækkun afurðastöðva, aukin samvinna og styrking þeirra hefur lengi verið lykilorð í íslenskum landbúnaði. Þessi þróun hefur gengið mjög misjafnlega eftir landsvæðum. Bændur á þeim svæðum þar sem þetta hefur ekki tekist kalla nú eftir viðskiptum við sterkari félög því víða hefur gengið illa að finna raunhæfan rekstrargrundvöll afurðastöðva. Sú staða sem var uppi í fyrra sumar þegar útlit var fyrir að bændur fengju ekki slátrað lömbum sínum og nautgripabændur voru í venju fremur miklum vandræðum með sláturgripi er ekki sú framtíðarsýn sem ég vil fyrir landbúnaðinn.

Sú tilraun sem hér var gerð í fyrra undir merkjum Goða mistókst hrapalega. Þar var samt á ferðinni þróun og hugmynd sem nauðsynlegt er að vinna frekar. En það verður að vanda betur til undirbúnings. Í viðkvæmu starfi verður að sýna bændum, starfsfólki fyrirtækjanna og sveitarfélögum fyllsta trúnað. Það að geta ekki einu sinni skilgreint skuldastöðu þannig að vel sé sýnir að það vantaði verulega á vinnubrögðin. Öll þessi tilraun hrökk til baka og eftir sitja einstaklingar og félög með skuldir, tekjutap, vonbrigði og hræðslu við næstu skref. Það er e.t.v. ekki hlutverk ríkisins að hlutast til um eða stjórna uppstokkun atvinnulífsins en í þessu máli held ég að Byggðastofnun og landbúnaðarráðuneytið eigi að aðstoða eftir föngum. Við vitum að sláturhúsum hefur fækkað umtalsvert en við trúum að þau þurfi að vera í hverjum landsfjórðungi, jafnvel litlar einingar. En það má ekki gerast hvað sem það kostar. Er það t.d. rétt sem ágætur Vestfirðingur sagði við mig að eftir að þeir hættu að reyna að reka sláturhús hafi tekjur hans vaxið umtalsvert. Áður hafi hluti tekna farið í hutafjárkaup eða reddingar til skamms tíma sem engu skiluðu þegar upp var staðið. Þetta þarf að skoða til hlítar og í þessa vinnu get ég sett mína bestu menn.

Þó staðan sé önnur hjá mjólkurbúunum er ljóst að þar þarf að auka samstarf og samvinnu. Aukin alþjóðavæðing og samkeppni, kröfur um frjálsari verðlagningu á mjólk og mjólkurvörum og allar aðstæður í þjóðfélaginu kalla á breytingar. Afurðastöðvar í mjólkuriðnaði hafa svarað þessu kalli að nokkru leiti hér á landi og þessa þróun má sjá allsstaðar um hinn vestræna heim. Í Danmörku og Svíþjóð er eitt fyrirtæki með mikla markaðsyfirburði. Í Nýja-Sjálandi eru tvö fyrirtæki í mjólkuriðnaði þar sem annað er miklu mun stærra. Samkeppni landbúnaðarvara um markað er alþjóðleg og því reyna löndin að búa sem best að sínu. Eftir því sem viðskipti með unnar mjólkurvörur aukast verður þessi alþjóðlega samkeppni sýnilegri. Við henni verða íslenskir bændur að bregðast. Það er enn hægt að hagræða og það verðum við að gera.
Það hefur lengi undrað mig hversu illa gengur að selja það litla magn af nautakjöti sem hér er framleitt. Áður voru vörugæði ekki alltaf jafn mikil og neytandinn vissi stundum ekki hvað hann var að kaupa. Þetta hefur mikið breyst með innflutningi á holdakynjum, betri aðbúnaði og fóðrun og aukinnni vöruvöndun. Sambærilegur árangur hefur á síðustu árum einnig náðst í alifugla og svínaræktinni með innflutningi nýrra kynja og aukinni fagmennsku. Þetta gerir það að verkum að íslenskir bændur framleiða nú vöru sem á fullt erindi á heimsmarkað. Árangur skilar sér til svína- og alifuglabænda en ekki til kúabænda. Hvers vegna er það? Landssamband kúabænda sýnir gott fordæmi, á samstarf við sláturhús, kjötvinnslur, veitingahús og smásala. Vefur þeirra kjöt.is er skemmtileg nýjung sem sýnir að það er ýmislegt hægt að gera til að laða neytandann til samstarfs. En afkoman er slök. Verðið til bænda hefur jafnvel lækkað, gripum fæst ekki slátrað og verð til neytenda hefur hækkað. Hér er eitthvað sem ekki gengur upp. Okkar hreina nautakjöt ætti miklu frekar að vera eftirsótt útflutningsvara í hrjáðum heimi ekki síður en reyktur lax og bleykjan góða. En samkeppnin er grimmur húsbóndi og markaðsvinna tekur langan tíma.

Nýlega kom út skýrsla ríkisendurskoðunar um framkvæmd sauðfjársamnings fyrir árabilið 1995 til 2000. Af henni má ráða að ýmislegt hefur tekist vel í sauðfjárræktinni en annað miður. Vegur þar þyngst að tekjur sauðfjárbænda hafa ekki fylgt almennri þróun og eru langt undir meðaltali.
Þetta hefur verið vitað nokkurn tíma og því var nauðsynlegt í nýjum sauðfjársamningi að styrkja greinina til framtíðar.
Þegar fulltrúar ríkisins í síðustu samningalotu kröfðu bændur um svör við þeirri spurningu hvað biði sauðfjárræktar þá komur bændur fram með tillögu að gæðastýrðu framleiðsluferli í greininni, svokallaðri gæðastýringu.
Tilgangur með þessu gæðastýrða framleiðsluferli var fjölþættur. Samt held ég að einkum þrennt hafi vakað fyrir fulltrúum bænda.
Í fyrsta lagi að bæta og efla sauðfjárbúskap.
Í annan stað sáu fulltrúar bænda að með gæðastýrðu framleiðsluferli mætti búast við því að tekjur bænda af búskapnum myndu vaxa töluvert.
Í þriðja lagi skynjuðu samningamenn bænda að með auknum kröfum um vönduð vinnubrögð væri meiri líkur en minni til að ríkið kæmi með meira fjármagn inn í samninginn.

Þessi gæðastýrði framleiðsluferill var síðan lykilatriði í nýjum samningi sem 66% bænda samþykktu í almennnri atkvæðagreiðslu. Fyrsti og eini samningur um sauðfjárrækt sem þannig hefur verið samþykktur. Ég hef lagt mig eftir að fylgjast með hvernig þessu verkefni reiðir af. Ég trúi að því fylgi miklir möguleikar fyrir íslenska sauðfjárrækt. Þess vegna kom mér það á óvart þegar á minn fund gengu nokkrir sunnlenskir sauðfjárbændur og fundu gæðastýringunni allt til foráttu. Ég fer ekki yfir þeirra athugasemdir hér, þið þekkið þær. Þeir komu eftir á, ég hlutsaði á þeirra rök en þennan samning má ekki eyðileggja. Hann leggur grunn að nýrri markaðssókn. Sú sókn mun höfða til neytenda hér heima og á öllum sérmörkuðum heimsins.
Ég hringdi hins vegar í 1000 kinda bóndann í N-Þingeyjarsýslu sem tekur þátt í tilraunaverkefni um gæðastýringu eins og aðrir bændur í þeirri sýslu. Hann þakkaði mér fyrir þennan samning. Hann taldi gæðastýringuna nauðsynlega hverjum þeim sem ætlaði að ná árangri í sauðfjárbúskap, og reyndar í hvaða atvinnugrein sem er. Hann þurfti lítilli vinnu að bæta við sig. Hann þekkti og skráði sínar ær. Hann merkir lömb sín og veit hvað hver ær gefur af sér. Hann tekur þátt í sameiginlegu kynbótastarfi sauðfjárræktarinnar sem ber uppi þróun í greininni. Hann skráir lyfjanotkun, veit hvaða áburður fer á túnin og af hverju. Hann heldur vinnuskýrslu og hann þekkir fóðrið sem kindurnar fá. Hann endaði á að segja að þessi vinna hefði ávallt skilað honum miklum kaupauka og nú kemur viðbót með gæðastýringunni.

Það er gríðarlega mikilvægt að íslenskir bændur skynji kall tímans sem er matvælaöryggi og aukin neytendavernd. Ef við viljum vera gjaldgeng á mörkuðunum með okkar vöru gildir það að vera bestir. Íslenskur matvælamarkaður er í dag hluti af hinum alþjóðlega matvælamarkaði og við eigum að tryggja okkar íslensku neytendur ekki lakara öryggi en neytendur nágrannalandanna njóta. Og við skulum líka hafa í huga að öflugasta vopnið í samkeppni við innfluttar vörur er gæðin, það hefur sannast áþreifanlega á grænmetismarkaðnum.

Ákvæði gæðastýringarinnar um landnot hafa verið lengi í vinnslu enda viðkvæmasti þáttur hennar. Öllum má ljóst vera að það er ekki ætlunin að flæma sauðfjárbændur af jörðum sínum, miklu fremur að byggja undir búskapinn. Öllum þeim sem fá athugasemdir frá Landgræðslunni vegna landnota verður boðið að vinna landbótaáætlun um breytta nýtingu. Ef einhverjir verða að hverfa frá sauðfjárbúskap vegna landnota hefðu þeir þurft að gera það hvort sem er. En þessi nýi samningur gefur færi á að vinna að landbótum og halda beingreiðslum, allt tal um að landnotaþáttur gæðastýringar leggi sauðfjárrækt af á stórum svæðum er því stórlega ýktur málflutningur þeirra sem ekki hafa lagt sig eftir grundvallaratriðum.
Landnot og landnýting eru nú sem fyrr síbreytileg. Áður voru það auðæfi að eiga kindur sem björguðust á fjalli. Gnúpverjar, Skeiða- og Flóamenn mátu það áður svo að það besta sem hægt væri að gefa þeim sem var að hefja búskap væri gimbur undan á sem jafnan gekk í Þjórsárverum og Arnarfelli mikla. Það þótti heiður og sómi af þeim kindum. En bændur hafa jafnan sýnt frumkvæði í náttúruvernd og eiga að gera það. Það var fjallkóngurinn og sauðfjárbóndinn Sveinn heitinn Eiríksson í Steinsholti sem fór fyrir í því að vernda þessar náttúruvinjar með því aðleggja til að skera allt fé sem gekk á þessum slóðum. Það gekk eftir og nú er svo komið að það fer varla nokkur kind inn fyrir Fjórðungssand. Enn fjallmenn ríða áfram í Þjórsárver, þessa paradís og smala sem áður. Nú má telja kindurnar á fingrum annarrar handar en áður skiptu þær hundruðum.
Ég trúi því að bændur nútímans séu ekki minni verndunarsinnar. Þeir líti ekki á það sem hlutverk sitt að beita síðustu þúfuna. Þeir vilja sjá landið vaxa og dafna og eru tilbúnir að leggja töluvert á sig í þeim tilgangi. Ef einhver er annarrar skoðunar vil ég gjarnan fá að vita það. Bændur taka hlutverk sitt alvarlega, þeir þekkja skyldur sínar. Þeir taka landbótastarfi opnum örmum enda hafa 550 bændur gengið til liðs við verkefnið "Bændur græða landið."
Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda hræðast ekki gæðastýringuna og hafa unnið að framgangi hennar með landbúnaðarráðuneytinu og stofnunum þess. Nú má ekkert verða til að stöðva framgang þessa máls enda er það forsenda þess að sauðfjárræktin þróist í takt við gildi þjóðfélagsins.

Um nokkurra ára skeið hafa grænmetisbændur ranglega verið gerðir ábyrgir fyrir óheilsusamlegu mataræði þjóðarinnar vegna verðlags á grænmeti. Hinn 15. mars ár hvert hefur söngurinn byrjað. Þá lögðust verndartollar á tómata, gúrkur og paprikur, bæði magn- og verðtollar. Of langt mál er að rifja upp forsöguna en í lok EES viðræðnanna gerði íslenska ríkisstjórnin tvíhliða samning við ESB um tollalaust innflutningstímabil á þessum grænmetistegunum og ákv. tegundum afskorinna blóma. Þetta var gert án nokkurs samráðs við bændur. Þegar Ísland samdi á vettvangi GATT um vernd fyrir landbúnaðarvörur þá varð þarna til þröskuldur sem sífellt hefur verið hnotið um síðan. Þessi árvissa og skaðlega umræða um garðyrkjuna varð að hverfa.
Til að bæta úr þessu ástandi kallaði ég til samstarfs aðila vinnumarkaðarins, bænda og ríkisins. Mörg sjónarmið varð að sætta í þessari vinnu en það tókst að lokum og nú er rétt að verða tilbúinn samningur ríkis og bænda um stuðning við garðyrkjubændur. Samningurinn er í mörgum liðum og tekur jafnt til orkumála, endurmenntunar og niðurfellingar og breytinga á tollum. Þá samþykktu bændur að felldir yrðu niður allir tollar á tómata, gúrkur og papriku gegn beingreiðslum úr ríkissjóði. Með hæfilegum stuðningi ríkisins ætla þeir að keppa á heimsmarkaðsverði við innfluttar vörur. Með þessari samþykkt sýna garðyrkjubændur mikinn kjark. Þeir höfðu sannanlega rétt til að halda í sínar fyrri varnir en í krafti gæða, hreinleika og faglegs metnaðar bjóða þeir samkeppninni birginn. Ég hef séð upplýsingar sem benda til að neysla þessara vörutegunda sé mest þegar íslenska gæðaframleiðslan er á markaði. Með vísan í það trúi ég að bændur hafi valið rétt og að neytendur muni verðlauna þá fyrir áræðið.

Ágætu áheyrendur.
Fyrir tveimur áratugum var mörkuð sú stefna að draga úr framleiðslu á nautgripa og sauðfjárafurðum. Þetta var upphafið að kvótakerfinu í mjólk og sauðfé eins og við þekkjum það í dag. Á þessum tíma hafa verið gerðar ýmsar breytingar á þessu kerfi. Sú alvarlegasta þeirra 1990 þegar útflutningsbætur voru skornar af með einu hnífsbragði. Ég hefði ekki viljað vera sá landbúnaðarráðherra sem það gerði og mér er til efs að nokkur stétt hafi mátt þola annan eins samdrátt.
Nú er kominn tími til að líta fram á nýja öld og reyna að sjá þróunina fyrir. Nútíma samgöngur og fjarskiptatækni hafa opnað fólkinu aftur leiðina úr þéttbýlinu og út í sveitirnar. Landið er falt til fjölþættra nota og því mætum við á margan hátt t.d. með nýjum jarða og ábúðalögum. Við ætlum að styðja þessa breytingu því við teljum þetta veigamikinn þátt í nýrri byggðaþróun?
Í landbúnaðarráðuneytinu er hafin vinna við að skoða þessa þætti. Hið fjölþætta hlutverk landbúnaðarins er spennandi viðfangsefni. Við þurfum að leita samstarfs við hagsmunaaðila í landbúnaði, faglegar stofnanir hans og alla þá sem láta sig málefnið varða. Róm var ekki byggð á einum degi og sama gildir um framtíðina.

Ágætu búnaðarþingsfulltrúar.
Ykkar bíða ærin viðfangsefni. Megi samstaða og lífsgleði einkenna ykkar störf – grátið ekki áföll og fortíð , horfið til nýrra sóknarfæra og þess, að íslenskur landbúnaður á mörg tækifæri ef rétt er á málum haldið.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum