Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. maí 2002 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Ráðstefna háskólamenntaðra ferðamálafræðinga 23. maí 2002

Ávarp samgönguráðherra á ráðstefnu Félags háskólamenntaðra ferðamálafræðinga á Hótel Loftleiðum 23. maí 2002.


Ágætu ráðstefnugestir.
Ég þakka Félagi háskólamenntaðra ferðamálafræðinga það tækifæri sem mér býðst hér í dag að ávarpa þessa ráðstefnu, þar sem viðfangsefnið er "íslensk ferðaþjónusta á Netinu", og velt er upp þeirri spurningu hvort upplýsingahraðbrautin sé greiðfær – eða jafnvel ófær? Í ljósi þess að nýjar samskiptaleiðir hafa rutt sér til rúms á síðustu árum, er mikilvægt að stofnað sé til umræðuvettvangs eins og ráðstefnunnar hér í dag, þar sem aðilar með mismunandi bakgrunn miðla af reynslu sinni.

Ljóst er að rafræn samskipti og rafræn viðskipti eru komin til að vera. Því er mikilvægt fyrir fyrirtæki og stofnanir að tileinka sér þennan nýja miðil og kanna hvort, og þá hvernig, hann getur hjálpað til við markaðssetningu og jafnvel sölu á vörum og þjónustu.

Með tilkomu Internetsins hafa rafræn viðskipti vaxið hröðum skrefum. Ótölulegur fjöldi verslana er nú þegar til staðar á Netinu, og eru íslenskar verslanir þegar farnar að skipta tugum, ef ekki einhverjum hundruðum (meira að segja ÁTVR hefur opnað verslun á vefnum!)

Helstu kostir Netsins eru ef til vill þeir, að viðskiptavinir hafa aðgang að nýjustu upplýsingum allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, hvar sem þeir eru staddir í heiminum. Hagræðið er augljóst. Þetta sparar tíma, þar sem ekki þarf að bíða eftir afgreiðslu eða ferðast á milli sölustaða. Þá er auðvelt að uppfæra upplýsingar þar sem ekki þarf að prenta og dreifa kynningarefni með hefðbundnum dreifingarleiðum, sem leiðir til kostnaðarlækkunar. Auðvelt er að aðlaga efni eftir aðstæðum hverju sinni.

Vefstjórar geta fengið greinargóðar upplýsingar um vefnotkun frá degi til dags, t.d. fylgst með fjölda heimsókna, hvaða síður eru vinsælastar, og fleira í þeim dúr. Þannig er hægt að bregðast betur og hraðar við óskum notenda.

Þrátt fyrir mjög almenna netnotkun hérlendis er það nú svo að einungis hluti jarðarbúa hefur aðgang að Netinu. Sá hópur fer reyndar ört stækkandi. Miðlinum eru því enn takmörk sett, þar sem stundum eru einungis hlutar af ákveðnum markhópum tengdir þessum nýju samskiptaleiðum. Sumir markhópar geta reyndar verið ótengdir með öllu og þá er ógerlegt að ná til þeirra í gegnum Netið. Því er óvíst að þessi miðill henti alltaf til sölu og markaðssetningar, en það verður að sjálfsögðu að skoða í hverju tilviki fyrir sig.

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem ég trúi að geti nýtt þennan nýja samskiptamáta. Við sjáum nú þegar dæmi um mjög öflugar bókunarvélar flugfélaga og ferðaskrifstofa á Netinu. Ekki skiptir máli hvar í heiminum hugsanlegir viðskiptavinir búa, því svo fremi sem þeir hafa tengingu við Netið, geta þeir skoðað vefi fyrirtækja og fengið allar hugsanlegar upplýsingar á skömmum tíma.

Staðreyndirnar tala sínu máli. Sífellt fleiri ferðamenn kaupa sér þjónustu á Netinu. En þar sem verslunarstaðurinn er tiltölulega nýr, ef svo má að orði komast, verður að gaumgæfa að einkenni hans styðji sölu- og markaðsstarf fyrirtækja. Góður undirbúningur er nauðsynlegur til að árangri verði náð.

Ágætu ráðstefnugestir.
Sem ráðherra bæði ferðamála og fjarskipta fylgist ég með framgangi þessara mála af miklum áhuga. Ég fagna því að netnotkun hér á landi er jafn almenn og raun ber vitni, en ein ástæða þess er ekki síst sú staðreynd að kostnaður við netaðgang hér á landi er með því lægsta sem þekkist inna OECD-ríkjanna. Þá skiptir ekki síður máli að aðgangur að góðum og öflugum fjarskiptum er almennt séð mjög góður um landið.

Það skiptir máli fyrir ferðaþjónustuna, sem og okkur öll er búum þetta stóra land, að einkunnarorð mín á sviði fjarskiptanna verði höfð að leiðarljósi, það er að fjarskipti eigi að vera fyrir alla, ódýr, örugg og aðgengileg.


Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna, að með gildandi fjarskiptalögum, sem ég beytti mér fyrir að sett yrðu er ég kom í samgönguráðuneytið fyrir um þremur árum síðan, lagði ég ríka áherslu á að tryggja hverju heimili landsins aðgengi að góðum gagnaflutningsleiðum, eða að lágmarki ígildi ISDN tengingar. Þessi ákvörðun hratt af stað þeirri þróun að símafyrirtækin fóru að keppa enn frekar um að bjóða sem bestar gagnaflutningslausnir, og nú sjáum við hraða útbreiðslu ADSL þjónustunnar sem býðst á góðu verði á sífellt fleiri stöðum um landið. Aðgengið að Netinu og upplýsingahraðbrautinni er því gott og upplýsingahraðbrautin er því greiðfær að þessu leyti. En hvort einhversstaðar megi búast við ófærð, er ykkar að leyta svara við hér í dag.

Ég vona að ráðstefnan hér í dag muni hjálpa til við að greina ný tækifæri fyrir aðila í ferðaþjónusturekstri, varpa ljósi á einkenni þessa nýja samskiptamáta og nytsemi hans fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum