Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. desember 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Afhending Viðskiptaverðlaunanna 2002 og tilnefning Frumkvöðuls ársins 2002. Ávarp ráðherra.

    Valgerður Sverrisdóttir,
    iðnaðar- og viðskiptaráðherra

    Afhending Viðskiptaverðlaunanna 2002 og
    tilnefning Frumkvöðuls ársins 2002
    Þriðjudaginn 17. desember 2002.


    Það er mér sönn ánægja og mikill heiður að fá enn einu sinni það hlutverk að afhenda Viðskiptaverðlaunin fyrir árið 2002 og veita viðurkenninguna Frumkvöðull ársins 2002.

    Ég hef tekið eftir því að viðurkenningar þessar vekja veðskuldaða athygli enda eru þær veittar einstaklingum sem skarað hafa framúr í íslensku atvinnulífi. Öll þurfum við fyrirmyndir og við sækjumst eftir að læra af reynslu annarra. Þeir sem hljóta viðurkenningar hér í dag eru vafalítið fyrirmyndir margra sem hyggja á frama í atvinnulífinu og eru þeim tvímælalaust hvatning til eftirbreytni.

    Viðskiptaverðlaunin.

    Þeir félagar Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Magnús Þorsteinsson hljóta viðskiptaverðlaunin 2002.

    Við höfum sjálfsagt öll fylgst með athafnasemi þeirra í mörg ár. Mér er þó minnisstæðast hvernig þeim tókst að gera verðmæti úr gosdrykkjaverksmiðu á Akureyri með því að flytja hana til Pétursborgar í Rússlandi og smátt og smátt að byggja þar upp arðvænlega framleiðslu. Þar varð til bjórverksmiðjan Bravo sem varð 6. stærsta bjórverksmiðja í Evrópu þegar þeir seldu hana risafyrirtækinu Heineken.

    Ég er hér með kort sem þeir félagar gáfu mér þegar ég heimsótti Bravo-verksmiðjuna fyrir 4 árum. Það er ótrúlegt í raun að ég skuli ennþá eiga þetta kort. Ekki óraði mig fyrir því þá að leiðir okkar ættu eftir að liggja svo rækilega saman
    sem raun ber vitni.

    Ekki finnst mér þó minna til koma að þeir hafa ávaxtað fé sitt við að byggja upp íslenskan lyfjaiðnað eins og kaup Pharmaco á búlgarska lyfjafyrirtækinu Balkanpharma er dæmi um.

    Það sem stendur mér þó einna næst er áhugi þeirra á því að eignast ráðandi hlut í Landsbanka Íslands. Frá því að skrifað var undir samkomulagið í október hefur verið unnið ötullega að því að ljúka áreiðanleikakönnun og fleiru og vonast ég til að unnt verði að ljúka málinu á næstu dögum. Sala ríkisbankanna verður mikil lyftistöng fyrir íslenska fjármálakerfið og vonandi njóta allir landsmenn góðs af henni.
    Þeir félagar eru vel að því komnir að hljóta Viðskiptaverðlaunin árið 2002.


    Frumkvöðull ársins 2002.

    Ég hef oft hugsað til þess hvers vegna okkur Íslendingum hefur ekki tekist að koma á fót meiri iðnaði sem tengist með beinum hætti íslenskri stóriðju, einkum álframleiðslu. Einn af þeim fáu sem hefur tekist það er Jón Hjaltalín Magnússon sem er frumkvöðull ársins 2002. Fyritæki Jóns - Altech JHM - er dæmigert þekkingarfyrirtæki á vel afmörkuðu sérsviði sem þróar og framleiðir tæknibúnað fyrir skautasmiðjur álvera. Altech JHM er vel þekkt nafn í áliðnaði um allan heim og hefur nýlega gert sinn stærsta samning fyrir nýtt álver í Ástralíu.

    Jón var landsliðsmaður í handbolta, eins og flestir sem komnir eru til fullorðinsára vita. Hann var þekktur fyrir sín þrumuskot, eins og segir í kunnum dægurlagatexta, og þótti með afbrigðum sóknharður maður. Ég gæti trúað að þetta sóknarskap og eldmóður hans hafi dugað honum vel í gegnum tíðina því aldrei hefur hann látið deigann síga.

    Mér finnst einkar vel við hæfi að Jón Hjaltalín Magnússon hafi verið valinn Frumkvöðull ársins 2002 og vil nota tækifærið að óska honum til hamingju og áframhaldandi velfarnaðar.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum